Veðurguðinn var okkur Norðlendingum óhagstæður síðastliðið sumar, en í staðinn fengum við góðviðrasamt haust og það var dásamlegt að fá nokkra sólardaga í september. Einn slíkan sat ég á svölunum og naut blíðunnar en þurfti samt aðeins að kíkja á fésbókina mína. Þar brá mér illa því á feisið var komin óværa sem auglýsti jólatónleika. Mig hryllti við og skellti tölvunni aftur.
Fyrir nokkrum dögum var afmælisdagur móður minnar sem er látin fyrir mörgum árum. Ég opnaði fésbókina og ætlaði að minnast hennar og setja þar einhverja mynd en var þá ekki jólaóværan komin aftur á feisið og nú bauð hún mér að hlusta á jólalag af nýútkomnum diski. Ég er af eldri kynslóðinni og ekkert mikill tölvusnillingur. Getur ekki einhver kennt mér að hreinsa fésbókina af svona óæskilegum vinum?
Ég man þegar móðir mín var á lífi og átti sinn afmælisdag 10. nóvember að þá var þessi leiðinda jólaóværa varla til og hægt var að njóta haustsins eða fyrstu daga vetrarins alveg fram í miðjan desember og aðeins þá var farið að baka fyrir jólin og hin ljúffenga jólasteik aldrei snædd fyrr en á jólunum.
Snemma í október byrjaði úrvarpið að birta auglýsinar um jólatónleika og ýmsan jólavarning. Ég veit að það þýðir lítið að kvarta þótt markaðsöflin hafi fyrir löngu eyðilagt aðventuna og jólin, alla vega fyrir mér. Ég reyni bara að sparka í þau í staðinn og er ákveðin í að vera með ljótuna þessi jól. Ég ætla að baka lítið, alls ekki að kaupa kökur og reyna af fremsta megni að smakka ekki jólamat á aðventunni.
Markaðsöflin tala um að njóta aðventunnar, baka fyrir aðventuna, borða jólamatinn og drekka og skemmta sér alla aðventuna. Þau hafa búið til jólaóværu sem náð hefur að soga almenning til sín í einn allsherjar darraðardans. Og fyrir þessar skemmtanir þykir sjálfsagt að fólk fái sér ný föt og nýtt útlit. Örugglega þurfa einhverjir að fá sér kvíðastillandi til að þrauka þennan tíma svo ekki sé minnst á allan fjöldann sem lítið hefur milli handanna eða aldrei á pening umfram brýnustu nauðsynjar.
Síðan koma jólin og þá er eins og allir leggist í dvala og um leið falla einhver þyngsli eða trúlega þynnka á almenning. Mér finnst að við eigum að njóta jólanna á meðan þau eru og nota aðventuna til undirbúnings í rólegheitum án þess að gera allt vitlaust. Ég hef notað orðið jólaóværa, en óværa þýðir samkvæmt íslenskri orðabók lús eða fló. Ég legg orðið jólaóværa hér fram sem nýyrði enda lýs og flær sannkölluð sníkjudýr.