Lára Hanna Einarsdóttir deildi eftirfarandi færslu á Facebooksíðu sinni og gaf leyfi fyrir birtingu hér:
Kristinn Hrafnsson spáði því í innleggi sem ég póstaði hér fyrir neðan að ríkisstjórn SDG forsætis muni ekki sitja út veturinn. Þótt Kristinn sé kannski spámannlega vaxinn er ég sannfærð um að spá hans rætist ekki.
Fyrir þeirri sannfæringu minni eru ýmsar ástæður og allar snúast þær um hagsmuni. Ekki hagsmuni þjóðarinnar, almennings í landinu, óralangt í frá. Heldur sérhagsmunahópa, ríkisstjórnarflokkanna, einstaklinga innan þeirra, bakhjarla þeirra, vina, vandamanna, klíkubræðra og annarra sem þeir drekka viskíið og reykja vindlana með í glæsihýsum, útlöndum, sumarhöllum eða hvar sem því verður við komið.
Í hruninu vall spilling upp úr öllum koppum og kirnum, holum og sprungum. Áratugalöng spilling hafði safnast upp alls staðar – í öllum kimum samfélagsins. Almenningur vildi nýtt og óspillt Ísland, en fékk í staðinn ennþá spilltara samfélag.
Það var vitað fyrir síðustu kosningar að Sjálfstæðisflokkurinn hafði bara sett einkavinavæðingaráform sín í bið. Þau yrðu tekin aftur fram við fyrsta tækifæri og frjálshyggjan – sem átti að hafa dáið drottni sínum á heimsvísu – myndi lifna við aftur.
Þetta gekk eftir með bravör og nú er einkavæðing grunnstoðanna, sem hefur alls staðar gefist mjög illa, á leið í einkavasa siðblindra auðmanna sem hafa jafnvel stofnað félög með það fyrir augum að kaupa og reka grunnstoðir og innviði. Til að græða, ekki til að þjóna.
Það var líka vitað fyrir síðustu kosningar að Framsóknarflokkurinn væri alveg sama spillingarbælið og hann hafði verið um áratugaskeið. Frá því samvinnuhugsjónin hvarf sjónum flokksins og völd og græðgi náðu yfirhöndinni. Og það var líka vitað hverjir gráðugustu og spilltustu framsóknarmennirnir voru þótt þeir héldu sig bak við tjöldin. Fjölmiðlar, einkum gamla DV, voru margbúnir að segja frá því. Ný andlit breyttu þar engu.
Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir margra náðu þessir tveir flokkar meirihluta á þingi. Örlitlum reyndar – en nóg til þess að ná völdum. Og ég get lofað ykkur því að þeir sleppa þeim ekki. Það er of mikið í húfi fyrir spillingar- og græðgisöflin í flokkunum.
Hin nýja stjórn undir forystu forríkra manna byrjaði enda á því að lækka bráðnauðsynlegar tekjur sameiginlegs sjóðs landsmanna = auðlindagjöld útgerðarinnar, sérstakan skatt á auðmenn, raforkuskatt stóriðjunnar og sitthvað fleira sem hafði gert síðustu stjórn kleift að rétta við ríkisbúskapinn og skila honum þokkalega frá sér eftir að hafa tekið við búinu nær gjaldþrota.
En það er ýmislegt eftir sem þessir flokkar og fólkið sem þar vílar og dílar á eftir að gera til að tryggja ríkasta prósenti þjóðarinnar enn frekari völd og auð. Tryggja að allar eigur almennings verði gefnar einkavinunum og þeim skapaðar aðstæður til að níðast á þjóðinni það sem eftir er.
Auðmenn hafa til dæmis verið að kaupa upp jarðir hingað og þangað um landið. Nú heitir það „að eiga virkjanakosti“. Og það á að rusla upp virkjunum til að selja hæstbjóðanda orkuna. Það á að leggja það sem eftir er af náttúruauðlindum almennings í rúst til að nokkrir menn geti grætt. Og það verður leyft því áhrifamenn í báðum flokkum „eiga virkjanakosti“.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er að stofna félag til að höndla með og útdeila þeim eignum sem kröfuhafar bankanna hafa látið af hendi upp í stöðugleikaframlag. Það eru miklar eignir og ekki fræðilegur möguleiki að ríkisstjórnin fari frá á meðan þeim eignum er óútdeilt. Þeir verða að gæta þess að „réttir menn“ fái eignirnar. Svona í stíl við Borgun.
Það á eftir að gefa bankana – aftur. Engin rannsókn hefur farið fram á gjafmildi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þegar þeir gáfu vinum sínum bankana hérna um árið – og mun ekki fara fram. Þó kom greinilega fram í Rannsóknarskýrslu Alþingis að sá gjafagjörningur var bæði vafasamur og gjörspilltur.
Einnig á eftir að rústa Ríkisútvarpinu. Sjálfstæðiflokknum hefur verið í nöp við þann fjölmiðil æði lengi og það gengur náttúrlega ekki að fjölmiðill almennings vogi sér að hafa sjálfstæðar skoðanir – slíkt tíðkast ekki í sjálfum Sjálfstæðisflokknum. Fjársvelti er upplagt og unnið að því hjá ríkisstjórninni.
Fjársvelti er líka aðferðin sem nota á við heilbrigðiskerfið. Og heilbrigðisráðherra er búinn að ákveða – upp á sitt eindæmi og án umræðu – að bjóða út heilsugæslustöðvar í Reykjavík. Ber fyrir sig lækni sem vann við einkarekna heilsugæslu í Svíþjóð sem reynst hefur illa. En það gerir ekkert til ef vinirnir græða. Það hefur aldrei verið eins dýrt að vera sjúkur á Íslandi og ekki á það eftir að batna.
Þetta eru örfá dæmi af þeim verkefnum sem ríkisstjórnin á eftir að sinna á næstu mánuðum í sína þágu og vina sinna. Ef þau standa sig vel fá þau næga peninga í næstu kosningabaráttu. Svo vita þau sem er, að alltaf er hægt að blekkja kjósendur með fölskum loforðum um nokkrar krónur í eigin vasa – því frjálshyggjan hefur alið upp heilu kynslóðirnar sem taka eiginhagsmuni fram yfir samfélagslega hagsmuni. Hagsmuni heildarinnar. Meðal annars í þeim tilgangi eru engir eins duglegir og stjórnmálamenn við að etja landsbyggðinni gegn borginni, sá hatri og misklíð. Og viðhalda misvægi atkvæða.
Nei, ríkisstjórn auðmannanna fer ekki frá fyrr en í næstu kosningum. Þeir eiga nefnilega eftir að leggja undir sig og sína það sem eftir er af sameiginlegum eigum þjóðarinnar. Hagsmunir auðvaldsins ráða, aldrei almennings.
Hvort spillingin er meiri nú en fyrir hrun skal ósagt látið, en hún er að minnsta kosti ósvífnari og augljósari.