Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hátíð ofáts & friðar – Allt sem þú þarft að vita um hátíðarvínin

$
0
0

Kvennablaðið fór á hraðnámskeið í vínsmökkun hjá einum virtasta vínþjóni landsins, Ölbu E.H. Hough veitingastjóra á Kolabrautinni. Það þýðir lítið annað en að vera með vínvalið á hreinu þegar kemur að hátíðarkræsingunum svo allt sé sem glæsilegast á heilagri hátíð ofáts og friðar.

Ölbu þótti vínkunnátta þátttakenda til fyrirmyndar þó illa hafi gengið að fá suma þeirra til að spýta. Veigarnar voru einfaldlega of góðar!

1. Frábært vín á góðu verði

Villa Conchi Cava Brut Seleccion NV
Penedes – Spánn

Villa Conchi_Brut Seleccion

Freyðivín eru alltaf sannkölluð hátíðavín. Cava eru spænsku freyðivínin og það er sannarlega hátíðarfílingur yfir þessari flösku og alltaf gaman að geta opnað eina svona. Raunin er að það er hægt að finna gríðarlega mikið af fallegum vínum á sanngjörnu verði ef þú veist hvar þú átt að leita og þetta vín er einmitt virkilega gott dæmi um “value for money”. Sem fordrykkur hentar freyðivínið með öllu sem heitir canapé og líka hráskinkum eins og Prosciutto og Serrano, með melónum og öðrum krúttlegheitum. ­Einnig ­passar þetta vel með sauða- og geita­ostum.

2. Sancerre og Ceviche

Joseph Mellot Sancerre La Chatellenie 2014
Loire – Frakkland

SANCERRE BLANC LA CHATELLENIE

Ef við vindum okkur síðan í Sancerre La Chatellenie frá Loire-dalnum í Frakklandi þá er þetta Sauvignon Blanc þrúga og vínið er létt, ferskt og unglegt. Það er mikill ávöxtur þarna og einkennandi stikilsber. Þetta vín hentar eiginlega með öllu fersku sjávarfangi, alveg sérstaklega með ceviche. Það er mjög gott með hörpuskel, humri og öllum hvítum fiski og hvítvínssósu. Fyrir þá sem vilja annað en skelfisk, þá eru til dæmis geitaostur og Prosciutto tilvalin til að kick-starta kvöldinu með og ­parast mjög vel með þessu víni.

3. Pinot Gris með reykta kjötinu

Pfaff Pinot Gris Cuvée Rabelais 2012
Alsace – Frakkland

Pinot_Gris_Rabelais_Pfaff_ Feuille morte

Tökum þá fyrir Pinot Gris frá Alsace, Frakklandi. Þetta er ein af þessum klassísku arómatísku þrúg­um heimsins en í þessu víni erum við að tala um aðeins meira sykurmagn en almennt gengur og gerist í hvítvíni. Hérna erum við að tala um alla stein­ávextina, þroskaðar apríkósur og ferskjur, hvítar plómur og síðan bökunarkrydd og afgerandi keim af nellikum. Þessar arómatísku þrúgur eru hiklaust trikkið á bak við jólamatinn því í raun smellpassar þetta með hamborgarhryggnum og hangikjötinu. Öll reyktu elementin og saltið í þessum veislumat kallar bæði á vín sem eru með örlítið sætan grunn, en eru samt fersk.

4. Gewürztraminer er jólahátíðarvínið

Pfaff Gewürztraminer 2012
Alsace – Frakkland

Gewurztraminer_Tradition_Pfaff (1)

Þessi Gewürztraminer er líka frá Alsace og frá sama framleiðanda og vínið hér á undan. Þetta er aðeins þéttari þrúga heldur en Pinot Gris en þó líka með hærra sykurmagni en almennt í hvítvínum. Gewürz­traminer er líka mjög arómatísk þrúga en það sem er einkennandi fyrir þennan Gewürz er rósablaða­ilm­urinn og lychee-ávöxurinn. Mikið af bökunarkryddum, mikið af negul, mikið af kardimommum hérna á bakvið. Þetta er dásamlegt jóla- og hátíðavín sem passar ­einnig með hangikjöti og hamborgar­hrygg, ekki síður en Pinot Gris–vínið hér á undan. Og ef fólk kýs almennt frekar hvítvín umfram rauðvín þá er þetta klárlega eitt­hvað sem gengur með steikum. Já, hvítvín með nautasteikum!
Þetta gengur með nánast allri villibráð, rjúpunni, gæsinni og jafnvel með hreindýrinu því kryddin eru svo afgerandi, massív og veigamikil. Einnig er þetta heppilegt með mjög feitum fiski, reykta laxinum, graflaxinum. Einnig frábært með grafinni önd eða gæs og meira að segja með mjög feitum mygluostum og eftir­réttum.

5. Il Poggione með glóðuðugrænmeti og lambinu

Il Poggione Rosso di Montalcino 2012
Toscana – Ítalía

rosso di montalcino 1

Smökkum hér Rosso di Montalcino. Il Poggione er einn af ­þessum gömlu framleiðendum. Einn af þeim fyrstu í Montalcino til að búa til Brunello di Montalcino, flaggskipavín svæðisins. Hér erum við að tala um Sangiovese þrúguna fyrst og fremst. Fersk rauð ber, kirsuber og sveppatóna og þetta vín má í raun kalla litla bróður Brunello-vínsins. Þetta er vínið sem gengur fullkomlega með öllu lambakjöti. Fyrir þá sem kjósa rautt frekar en hvítt getur þetta reyndar líka gengið með hamborgarhryggnum en er hins vegar alveg hreint frábært með öllu grillkjöti, grilluðu Miðjarðarhafsgrænmeti, öllu smá­brenndu og glóðuðu.

6. Valtravieso Crianza steinliggur með hreindýrakjöti og rjúpunni
Valtravieso Crianza, frá Ribera Del Duero, 2012.
Tempranillo / Cabernet Sauvignon / Merlot

Valtravieso_Crianza 2010

Þetta er talsvert þétt og þurrt rauðvín en gríðarlega ávaxtamikið. Í þessu víni eru hins vegar mun dekkri ávextir á ferðinni – mikið af brómberjum, svörtum kirsuberjum og lyngi þarna á bakvið. Það eru einnig espressó tónar þarna úr frönsku eikinni sem vínið er látið liggja í í 14 mánuði. Ég legg til að þessu sé umhellt til að það njóti sín sem best, og fái að standa í 20 mínútur til klukkutíma, bara eftir því hversu mikinn tíma fólk hefur. Þetta er klárlega mjög glæsilegt ­villibráðavín í kröftugri kantinum, með miklum og vold­ugum tannínum sem skera vel í gegnum próteinið í ­villibráð eins og gæs og hreindýri sérstaklega. Alveg fullkomið með rjúpunni og dásamlegt með öllu portvínslegnu.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283