Linda Rós Helgadóttir skrifaði og leyfði Kvennablaðinu að deila þessari færslu af bloggi sínu:
Það hefur ekki lítið verið fjallað um örorkubætur í þjóðfélaginu síðustu vikur. Ég held ég hafi sjaldan verið jafn leið og reið yfir nokkrum fréttaflutningi.
Reiðust varð ég þegar Vigdís Hauks sagði að eðlilegt væri að öryrkjar væru með lægri ráðstöfunartekjur því það er kostnaður sem fylgir því að vera í vinnu og með börn á leikskóla. Af því að öryrkjar og börn öryrkja eiga bara að vera í einangrun heima hjá sér?
Ég hef kosið Framsóknarflokkinn, fyrir langa löngu. Ég mun aldrei nokkurn tímann kjósa Framsóknarflokkinn aftur. Aldrei nokkurn tímann.
Reið varð ég líka þegar Bjarni Ben talaði um fólkið sem færi á fætur á morgnana og ynni fullan vinnudag og hefði samt ekki hærri ráðstöfunartekjur en öryrkjar. Eins og það að vera öryrki sé val?
Ég hef líka kosið Sjálfstæðisflokkinn. Ég held ég geti líka fullyrt að ég muni aldrei kjósa Sjálfstæðisflokkinn aftur.
Ég er svo ótrúlega heppin að vera öryrki sem getur unnið hlutastarf. Það gerir það að verkum að ég get lifað mannsæmandi lífi. Ekki bara skilar það hærri ráðstöfunartekjum á mánuði heldur eru ýmis fríðindi sem fylgja því að vera á atvinnumarkaðnum. En það eru margir öryrkjar sem eru ekki jafn heppnir og ég! Sumir geta ekki unnið. Aðrir geta unnið hlutastarf en fá ekkert hlutastarf sem hentar þeim eða fá bara ekkert hlutastarf. Áður en ég varð öryrki starfaði ég sem kerfisstjóri og gat valið úr vinnum. Við það að verða öryrki og geta bara unnið hlutastarf minnkuðu starfsmöguleikar mínir um ca 99% og háskólagráðan mín kemur ekki að gagni í neinu því starfi sem mér býðst.
Ef ég væri ekki öryrki væru launatekjur mínar tvöfalt hærri en þær eru í dag. En ég kýs allan daginn, alla daga, heilsu fram yfir peninga.
En við skulum tala um öll fríðindin sem fylgja því að vera í vinnu! Að sjálfsögðu mismunandi eftir fyrirtækjum, stéttarfélögum og starfsmannafélögum. En allir á atvinnumarkaðnum fá talsverð fríðindi í sínum störfum.
Ég ætla að minnast hér á nokkur:
1. Líkamsræktarstyrkir
Þetta getur verið á bilinu 30-50 þúsund ca. Skattfrjálst.2. Matur
Í vinnunni minni er boðið upp á hafragraut á morgnana, heitan mat í hádeginu og svo get ég gengið í skyr, kex o.fl. eins og ég vil. Ég borga talsvert minna fyrir þetta á dag en fyrir eina pylsu úti í sjoppu. Svo tæknilega séð þyrfti ég bara að punga út fyrir kvöldmat virka daga og svo fyrir máltíðum um helgar.3. Styrkir fyrir meðferðum á líkama og sál
Allt að 60 þúsund krónum hjá mínu stéttarfélagi4. Jólahlaðborð
Sum fyrirtæki rukka eitthvað fyrir þetta, önnur ekki. Öryrkjar fá ekkert jólahlaðborð og hafa ekki efni á því á sínum bótum.5. Árshátíðir
Ég held að flest fyrirtæki séu með ókeypis árshátíðir. Fyrirtækið mitt bauð mér í ár til Berlínar! Öryrkjar fá engar árshátíðir.6. Samgöngustyrkir
Mörg fyrirtæki bjóða upp á samgöngustyrki svo mjög ódýrt er fyrir fólk að ferðast úr og í vinnu.7. Ýmis dagamunur
Stundum er bakkelsi eða bjór í boði í vinnunni. Einu sinni á ári förum við í keilu.8. Fartölvustyrkir
Sum starfsmannafélög og stéttarfélög bjóða upp á fartölvustyrki. Ég hef einu sinni fengið 100 þúsund kr. styrk.9. Sumarbústaðir
Allir sem greiða í stéttarfélög hafa aðgang að tiltölulega ódýrum sumarbústöðum. Öryrkjar hafa engan aðgang að ódýrum sumarbústöðum.10. Gjafabréf í flug
Mörg stéttarfélög bjóða upp á gjafabréf með góðum afslætti í flug. Öryrkjar fá enga þannig díla.11. Nám og tómstundastyrkir
Öll stéttarfélög bjóða upp á styrk fyrir námi og tómstundastyrkju. Þegar ég vann hjá Reykjavíkurborg fékk ég árlega 150 þúsund króna styrki sem ég notaði í dansnámskeið, og ýmis námskeið eins og hugleiðslunámskeið og Dale Carnegie. Er því miður ekki svo heppin að geta gengið í þannig sjóð lengur.12. Félagsskapur
Bara það að fara út úr húsi og hitta annað fólk eru ótrúleg fríðindi.13. Jólagjafir
Flest fyrirtæki gefa jólagjafir. Geta verið eitthvað smátt en alveg upp í matargjafir og gjafakort.Svo þó fólk sé með lágmarkstekjur og með sömu ráðstöfunartekjur og öryrkjar þá er það að fá fullt af fríðindum sem öryrkjar hafa ekki. Fólk með lágmarkstekjur hefur líka val um að skipta um vinnu, og margir geta unnið yfirvinnu til að auka tekjurnar.
Ég held að margir haldi að öryrkjar séu öryrkjar bara að gamni sínu og það fylgi því enginn kostnaður. En ég held mér sé óhætt að fullyrða að hver einn og einasti öryrki sé að borga fyrir lyf, meðferðir á líkama og sál og/eða hjálpartæki. Sem megnið af heilbrigðum einstaklingum á vinnumarkaði gerir ekki.
Svo það er algjörlega verið að bera saman epli og appelsínur hérna.
Svo er margt frekar ósanngjarnt eins og:
1. Bætur detta bara allt í einu út við ákveðna upphæð, sem skerðir ráðstöfunartekjur.
Bætur falla niður við 4.319.396 á ári. Einni krónu minna og ráðstöfunartekjur viðkomandi eru 313.072 á mánuði. Einni krónu hærri og þær detta niður í 275.351 á mánuði. Eða um 37.721 kr á mánuði! Lauslega áætlað á vef TR (vantar inn í ýmis iðgjöld o.fl). Til að fá sömu ráðstöfunartekjur þyrftu launin að hækka úr 359.950 í 422.548 eða um 62.598. Sé alveg að það gangi við samningaborðið… Ekki það að ég haldi að margir öryrkjar hafi lent í þessu en þetta er samt alveg fáránlegt. Bætur og laun ættu að haldast í hendur þannig að svona geti ekki gerst.2. Bætur lækka ef maður byrjar að búa með einhverjum.
Því þær eru svo rosalega háar fyrir.3. Leigutekjur flokkast sem tekjur sem lækka bætur.
Ég á eigin íbúð. Ef ég myndi ákveða að flytja annað og leigja út íbúðina mína þá fengi ég leigutekjur sem lækka bæturnar. Alveg sama þó ég væri að borga leigu einhvern staðar sem væri hærri en leigutekjurnar. Alveg sama þó leigutekjurnar væru bara að dekka kostnaðinn við íbúðina. Svo ég þyrfti helst að selja íbúðina mína ef ég myndi vilja flytja tímabundið út á land.Svo er þetta náttúrulega litla málið með andlegu og líkamlegu verkina sem hrjá öryrkja. En það náttúrulega tekur því ekkert að minnast á það. Að öryrkjar eru öryrkjar af ástæðu!
Hver einn og einasti öryrki myndi alla daga, allan daginn, kjósa að vera líkamlega og andlega heilbrigður einstaklingur með lágmarkslaun fram yfir að vera öryrki.
1. Hækkum bætur
2. Búum til styrktarkerfi fyrir öryrkja svo þeir geti fengið styrki og aðgang að ýmsum fríðindum eins og vinnandi fólk
3. Eflum forvarnir
4. Stofnum atvinnumiðlun fyrir öryrkja
5. Bætum endurhæfingarkerfið!
Með því að efla forvarnir og bæta endurhæfingarkerfið yrðu mun færri öryrkjar en ella, og hægt væri að koma mörgum út á atvinnumarkaðinn aftur!
Ég vil nota tækifærið og benda á eftirfarandi skrif
Ef einhver vill ráða mig í vinnu við að bæta heilsu landans þá er ferilskrá mín hérna á síðunni og allar upplýsingar til að ná sambandi við mig.
↧
Kjör öryrkja
↧