Það er vel við hæfi að nýjasta innleggið í stjörnustríðs-sápuóperuna skuli hafa veitt fornum aðdáendum hennar – og kvikmyndagestum flestum – nýja von, um að hægt sé að endurvekja þá stórskemmtilegu snilld sem birtist okkur í gömlu trílogíunni en var misþyrmt svo eftirminnilega í forleiks-þríleiknum sem var þröngvað upp á okkur í kringum aldamótin.
Fleiri orð ætla ég reyndar ekki að hafa um nýju myndina – til að stjörnuspilla ekki fyrir þeim sem hafa ekki enn séð hana.
En mér finnst líka við hæfi að á árinu sem er að líða var okkur Íslendingum blásin ný von í brjóst, um að kannski hugsanlega sé stjórnmálunum okkar viðbjargandi eftir allt saman. Og þegar ég segi „allt saman“ er ég að vísa lauslega í undanfarna áratugi flokksræðissamfélags, gervi-góðærið og „svokallað hrun“, Icesave og #epicfail í ESB- og stjórnarskrármálum o.s.frv… Samt síðast en ekki síst þegar yfir-siðblindinginn okkar var endurkjörinn með hreinum meirihluta 2012, hrunflokkarnir kosnir aftur til valda 2013 og popúlistarnir í Framsókn flugu upp í fylgi í krafti þjóðerniskenndar og lýðskrums þá og aftur árið 2014.
En frá og með mars á þessu ári hafa mjög spennandi og jákvæðir hlutir farið að gerast. Það byrjaði með því að fylgi Pírata rauk upp úr öllu valdi – og hefur haldist upp úr því valdi allar götur síðan, sem er stórsögulegt og merkilegt dæmi, hvernig sem næstu kosningar fara. Já, og stjórnarflokkarnir hafa samanlagt rétt slefað yfir þriðjungsfylgið á sama tíma.
Ekki nóg með það, heldur hafa bæði Píratar, kjósendur og aðrir andstöðuflokkar haldið merkilega vel á spöðunum síðan. Píratar sigla áfram sinn sultuslaka sjó og eru þau sem þau eru, og ítrekaðar aumkunarverðar árásir íhaldsins hafa frekar bætt fylgi þeirra en hitt.
Á aðalfundi þeirra í haust ákváðu Píratar síðan að leggja ofuráherslu á það í kosningabaráttu og á næsta kjörtímabili að samþykkja nýja stjórnarskrá Íslendinga í samræmi við þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012 og efna til þjóðaratkvæðis um aðildarviðræður við ESB (þó reyndar hafi ekki verið samþykkt að fjalla „eingöngu“ um þau mál, eins og fjölmiðlar vitnuðu til).
Aðrir úr andspyrnuhreyfingunni hafa síðan tekið þátt í að ögra illa keisaraveldinu með því að taka undir þessi baráttumál og tala fyrir kosningabandalagi núverandi stjórnarandstöðuflokka (og mögulegra nýrri flokka?) um þessi tvö mál og hugsanlega fleiri. Birgitta „Organa“ Jónsdóttir hafði raunar nokkru áður talað fyrir kosningabandalagi um þessi tvö mál fyrir næstu kosningar, svo líklega er ekki langt á milli hugleiðinga þessara flokka (þó umdeilt sé innan Pírata hvort ráðast eigi í formlegt „kosningabandalag“).
Kallið mig Yoda, en ég hef trú á því að þessi bylting gæti loksins orðið að veruleika. Að þjóðarviljanum 20. okt 2012 verði loksins framfylgt, lærdómurinn frá hruninu verði notaður í alvöru róttækar breytingar og faglegu, raunverulegu lýðræði komið á í landinu – eftir næstu kosningar.
Til þess þurfa flokkar og fólk sem styðja þessi mál bara að halda haus, halda sig við góðu málefnin og vera til í að tala saman og vinna saman að þeim þegar tilefni gefst; án þess að fórna þessu einstaka tækifæri á altari einstrengingslegar, absolút hugmyndafræði, tortryggni og persónulegrar óvildar – eins og umbótaflokkarnir gerðu í raun fyrir kosningarnar 2013. Ein aðalástæða þess að nú er von er sú að umbótaöflin sem stóðu að nýjum framboðum þá hafa að mestu sameinast á bak við Pírata í dag. Auðvitað eru fleiri umbótasinnaðir flokkar, og öllum frjálst að fara fram á eigin forsendum, en lykillinn að velgengni verður örugglega sá að geta fylkt liði um færri framboð næst og skilið egóin eftir heima.
Skuldbindingin um nýja stjórnarskrá og þjóðaratkvæði verður að vera skýr af hálfu allra flokka, og viljinn og aðhaldið til að fylgja því og öðru eftir í stjórn eftir kosningar verða að vera rík. Já, og fólk þarf að mæta á kjörstað og gera þetta að veruleika – sérstaklega við unga fólkið. Og frambjóðendur verða að gefa þeim góða ástæðu til að mæta, koma þessari von skýrt á framfæri.
Svo verðum við bara að vona að ekkert skuldaniðurfellingar-helstirni komi fram á síðustu stundu og sprengi kosningarnar upp. Þá er eins gott að einhver hetja komi fram sem er góð í að pota í veikan blett á því. Og að kjósendur sjái loksins að sér og hendi stjórnarflokkunum yfir girðingu íslenskra stjórnmála… eða eitthvað. Nóg komið af leim Star Wars líkingum.
Gleðilegt ár!
(I HAVE HAD ENOUGH OF YOUUUU!!!)