Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Samfélag fyrir alla

$
0
0

Ása Lind Finnbogadóttir skrifar.

Ég verð alltaf jafn slegin þegar ég heyri nemendur mína á framhaldsskólastigi halda þessu fram, að fátækir geti bara sjálfum sér um kennt þar sem þeir vinni ekki almennileg störf sem borgi vel. Ýktasta upplifun mín af þessu er að hafa orðið vitni að ungum heilbrigðum einstaklingi halda því fram að fólk sem býr við hungursneyð í Afríku geti bara sjálfu sér um kennt þar sem það vinni bara ömurleg störf eins og að sópa eða rækta geitur og þess vegna sé það fátækt. Ég varð eiginlega kjaftstopp og gat ekki hreyft við neinum mótmælum.

Ása Lind Finnbogadóttir

Ása Lind Finnbogadóttir

Ég get sætt mig við þetta að vissu marki ef þetta er bara skoðun ungs fólks sem á eftir að upplifa lífið og það að þurfa að sjá fyrir sjálfu sér. En sú virðist raunin að fullorðið og jafnvel háskólamenntað fólk heldur því fram að fólk sem sé ríkt sé það eingöngu vegna eigin klókinda og vinnusemi á meðan hinir sem minna hafa að bíta og brenna séu einfaldlega ekki jafn klárir eða duglegir að vinna. Í alvöru?!

Tökum nokkur dæmi um hópa:

1. Vissulega er það þannig að sumir nenna ekki að vinna og þiggja bætur af ríki og sveitarfélögum til lengri tíma. Þetta virðist vera sá hópur sem fer mest fyrir í röksemdum nemenda minna (og reyndar annarra fullorðinna einstaklinga).

2. Aðrir eru á bótum algerlega gegn eigin vilja vegna örorku, slysa, veikinda, aldurs, kreppu (“rangrar menntunar” miðað við ástand) eða annars sem það hefur litla eða enga stjórn á.

3. Aðrir eru svo “vitlausir” að velja sér starf sem er illa borgað eins og kennslu- eða aðhlynningarstörf sem krefjast oft jafn mikillar menntunar og þau störf sem hinir “kláru” velja sér og eru betur launuð störf. Þetta gætu verið störf hjúkrunarfræðinga, kennara á öllum skólastigum, sálfræðinga, félagsráðgjafa og svo mætti lengi telja.

4. Sumir eru ekki langskólagengnir og vinna ýmis mikilvæg verkamannastörf eins og að moka göturnar, hreinsa ruslið, verka fisk eða sinna öldruðum einstaklingum þessa samfélags sem ófaglærðir starfsmenn öldrunarheimila.

Ef við skoðum þessa fjóra hópa er ljóst að aðeins einn þeirra, sá fyrsti, gæti hugsanlega flokkast sem “latir að vinna”. Hinir þrír alls ekki og nema síður sé. Þarf fólk í þessum hópum oft að vinna myrkranna á milli til að ná endum saman og eru þannig í raun miklu duglegri að vinna. Það mætti segja að þeir geti bara sjálfum sér um kennt þar sem þeir höfðu frjálst val um að velja sér menntun eða starf sem væri vel borgað eins og aðrir. En hvernig myndi samfélagið okkar líta út þá? Viljum við samfélag þar sem enginn er svo “vitlaus” að vilja sinna börnum, öldruðum, fötluðum eða moka göturnar? Er ekki fáránlegt að tala um að þetta fólk sé latt að vinna þegar það þarf margt hvert að vinna 2-3 störf til að ná endum saman?

Viljum við ekki samfélag þar sem fólk getur notið hæfileika sinna og þeir sinnt peningum sem eru góðir í því og aðrir sinnt börnum sem góðir eru í því?

Viljum við ekki samfélag þar sem öll störf eru metin að verðleikum sem mikilvægur hlekkur í að halda því öllu gangandi?


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283