Umræðan um listamannalaun hefur ekki farið fram hjá neinum enda svo sem árviss passi að óbrigðulir láti í sér heyra. Þetta var reyndar bara raul miðað við kórsönginn oft áður enda þykir stærstum hluta þjóðarinnar bara heldur vænt um rithöfundana sína, segjast í útlöndum – og svona þegar sá gállinn er á þeim – vera af mikilli bókaþjóð, og það er satt.
Ég hitti marga dag og frá degi og þegar frétt Vísis birtist í gær með fyrirsögninni „Ein bók frá Andra Snæ á síðustu tíu árum“ þá kom fyrirsögnin mér ekkert á óvart því þessu hef ég heyrt fleygt víða á undanförnum dögum, og því var meira að segja haldið fram við mig, af málsmetandi manni að ég hélt, að listamannalaun til rithöfunda einskorðuðust við bókarskrif og að þetta væri nú bara alls ekki í lagi – hvað Andra snertir. Hann hefði bara ekkert annað gert en að skrifa eina bók á 10 árum og á listamannalaunum allan þann tíma.
Nú já, hugsaði ég. Getur það verið að þetta einskorðist við útgefnar bækur? Maðurinn er alstaðar og var hann ekki að skrifa leikrit og eitthvað, telst það ekki til ritstarfa?
Þetta reyndist rakalaust bull því það eru engin ákvæði um að listamannalaun rithöfunda eigi að nota til bókarskrifa eingöngu.
Í hverju er starf rithöfunda fólgið?
Listamannalaun nýta rithöfundar til að hafa næði til að: viða að sér efniviði, safna heimildum á stundum, skrifa, vinna með ritstjórum þegar því er að skipta, prófarkalesurum, umbrotsfólki, kápuhönnuðum, fylgja og koma verkum sínum á framfæri. Þeir höfundar sem skrifa bækur sem falla erlendum útgefendum í geð þurfa svo að vinna með þýðendum, kynna verk sín í útgáfulöndum og sumir verða eftirsóttir á bókmenntahátíðum og viðburðum víða um lönd og því fylgja eðlilega ferðalög. Þessi listi er ekki tæmandi en eitthvað í þessa veru er starf rithöfunda.
Nú lék mér hugur á því að vita hvað Andri Snær hefði eiginlega verið að bralla á þessum tíu árum og komast bara til botns í því – í eitt skipti fyrir öll – hvers vegna maðurinn er svona ofboðslega latur og afkastalítill.
Ein bók á 10 árum! Ein bók!
Ég þekki Andra Snæ ekkert persónulega – hef einu sinni setið í hans návist kvöldstund í boði ekki alls fyrir löngu og það skal líka tekið fram að á þessum árum sem umræddur Andri Snær á að hafa flatmagað á listamannalaunum, nagað blýanta og rétt marið það að koma út einni bók, var ég í útlöndum að eiga börn og hef því ekki fylgst náið með hans störfum – nema náttúrlega barnaleikritinu Bláa Hnettinum þegar það var frumsýnt og svona fimm eintökum af samnefndri bók sem börnunum mínum hafa verið gefin og auðvitað Draumalandinu sem fór nú eiginlega bara ekki fram hjá nokkrum manni með lífsmarki. Og ekki fram hjá neinum þeim sem þykir vænt um Ísland, leyfi ég mér að fullyrða.
Rangfærslur í grein Vísis
Ég sendi Andra Facebookskilaboð og bað hann að senda mér yfirlit yfir helstu verk sín – útgefin, flutt eða sýnd – og birti þau í einfaldri röð hér að neðan. (Þið, þurfið ekkert að skrolla strax – ein bók muniði!)
Það þarf samt ekki mikið gúgl til að sjá að maðurinn hefur verið á ferð og flugi undanfarin tíu ár. Voðalegt flandur er þetta á iðjuleysingjanum!
Á síðustu tíu árum hefur Andri Snær skrifað tvær bækur, tvö leikrit ásamt Þorleifi Erni, og hann leikstýrði heimildamyndinni Draumalandið ásamt Þorfinni Guðnasyni, sem hlaut Eddu-verðlaunin sem heimildarmynd ársins árið 2009.
Síðan hafa eldri verk hans haldið honum uppteknum á síðasta áratug enda eru bækur þeirrar náttúru að eftir útgáfu öðlast þær margar sjálfstætt líf sem kallar á eftirfylgni, vinnu og viðveru höfunda þeirra.
Blái hnötturinn (1999) er kominn út alls staðar, leikritið sýnt alls staðar og meira segja tilnefnt til æðstu verðlauna í Kanada! Hér eru kínversk börn að lesa upp úr bókinni árið 2011–12 árum eftir útgáfu bókarinnar hér á landi:
Bónusljóð frá 1996 er að koma út í Frakklandi! LoveStar (2002) hefur komið út í sex löndum og núna, tilnefnd sem ein besta bók ársins í Quebeq ásamt bókum eftir aukvisana Morrison, Ishiguru, Leine og Houellebecq – 14 árum eftir útgáfu hennar á Íslandi!
Andri Snær hefur haldið erindi í tugum háskóla um allan heim, heimsótt grunnskólabörn um allar trissur, lesið upp í listaháskólum og á bókmenntahátíðum sem fulltrúi verka sinna og hvað haldiði … Íslands.
Þessi listi er ekki tæmandi en ofangreint var fljótlegt að finna til með smá leit.
Djöfuls leti í manninum! Honum verður seint fyrirgefið að stunda alla þessa list- og landkynningu í leyfisleysi og það á þessum forstjóralaunum!
Yfirlit yfir helstu verk, útgefin, flutt eða sýnd:
Tímakistan
Mál og menning 2013
Eilíf óhamingja, meðhöfundur Þorleifs Arnar Arnarsson
Lifandi leikhús / Borgarleikhúsið 2010.
Draumalandið – Heimildarmynd ásamt Þorfinni Guðnasyni.
Ground Control Productions 2009.
Eilíf hamingja, meðhöfundur Þorleifs Arnar Arnarssonar
Lifandi leikhús / Maxim Gorky Berlín / Borgarleikhúsið Reykjavík 2007
Draumalandið,
– Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. Mál og menning, mars 2006.
Blue Planet, LKTYP, Toronto 2005.
Úlfhams saga, Hafnarfjarðarleikhúsið 2004.
Sagan af bláa hnettinum, útvarpsleikrit, RÚV 2003.
Bónusljóð – 33% meira, Bónus 2003.
LoveStar, Mál og menning 2002.
Blái hnötturinn, Þjóðleikhúsið 2001.
Hlauptu náttúrubarn! Útvarpsleikhúsið 2001.
Sagan af bláa hnettinum, Mál og menning 1999.
Maður undir himni, um trú í ljóðum Ísaks Harðarsonar, Háskólaútgáfan 1999.
Náttúruóperan, Leikfélag MH 1999.
Bók í mannhafið, ritstjórn og hugmynd, M2000/Nykur 2000.
Flugmaður, hljómorðadiskur. Andri Snær les eigin ljóð við undirspil múm.
Leiknótan 1999.
Raddir – Íslenskar rímur, þulur, sálmar og grýlukvæði. Árnastofnun/Smekkleysa 1998.
Sofðu ást mín, 50 mínútna verk flutt af Ingvari Sigurðssyni, RÚV 1998.
Engar smá sögur, Mál og menning 1996.
Bónus ljóð, Bónus 1996.
Ljóðasmygl og skáldarán, Nykur 1995, (endurprentuð 1996 og 1998).