Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Fríverslunartröllin fram í dagsbirtuna

$
0
0

Bergsveinn Birgisson skrifar:

„Grein um fríverslunarsamningana TiSA og TTIP og skuggahliðar þessara samninga hvað íslenskt samfélag varðar.“

Síðastliðin ár hefur fólk um alla Evrópu og Bandaríkin mótmælt þeim fríverslunarsamningum sem nú er verið að ganga frá á bak við tjöldin. Hinn 28. janúar næstkomandi mun Dögun standa fyrir dagskrá í Norræna húsinu um þessa fríverslunarsamninga og áhrif þeirra á Ísland og Evrópu almennt. Það er vonandi að margir, og einnig háttvirtur utanríkisráðherra og aðrir ráðamenn er koma að slíku fyrir hönd Íslands, kynni sér og kynni öðrum hinar „dekkri“ hliðar slíkra samninga. Ekki síst sökum þess að þeir munu ekki vera eiginlegir „ráðamenn“ lengur ef slíkir samningar ná fram að ganga.

Í stuttu máli er um tvo samninga að ræða sem koma við Ísland, TiSA (Trade in Services Agreement) og TTIP (Transatlantic Trade and Investment Partnership). Samningunum sjálfum, sem einmitt eru settir fram í nafni „aukins gagnsæis“, á að halda leyndum fyrir almenningi þangað til þeir eru samþykktir og undirritaðir. Þeir sem að baki standa eru með réttu hræddir við afleiðingar þess ef almenningur fær að vita um hvað málið snýst. Í stuttu máli er hér um að ræða endanlegan sigur hinna ríku yfir restinni, sem ekki mun geta huggað sig við hugtök eins og lýðræði lengur. Með orðum Joseph E. Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, þjóna slíkir samningar hagsmunum ríkasta hóps amerískrar og alþjóðlegrar fjármála- og viðskiptaelítu „á kostnað allra annarra“ (New York Times 15. mars 2014). Skýrsla Evrópuráðsins styður hér, TTIP samningurinn mun gefa hagvöxt upp á 0,01 af landsframleiðslu, nokkrir óveðursdagar til eða frá hafa meira að segja.

Gulrótin er samt sem áður að „bæta hag fyrirtækja“ og „fjarlægja verslunarhindranir“. Skoðum skuggahliðarnar. Eftir því sem lekið hefur m.a. á Wikileaks um þessa samninga, er mælt fyrir auknu valdi til stórfyrirtækja, m.a. gegnum enn sterkari gerðardóm utan við þjóðbundin og alþjóðleg lög og reglugerðir. Að baki þessum „einkavædda dómstól“ standa 75.000 fyrirtæki, sem geta lögsótt þjóðríki ef lög þeirra og reglugerðir brjóta í bága við „framtíðarhag fyrirtækis“. Málskostnaður mun velta á tugum milljarða fyrir þjóðríki, líkurnar á að vinna eru hverfandi. Nú þegar hafa slík mál farið í gegn vegna annarra fríverslunarsamninga. Franska stórfyrirtækið Veolia fór í mál við Egyptaland af því að ríkisstjórnin lögfesti lágmarkslaun þegnanna. Sænska fyrirtækið Vattenfall fór í mál við Hamborg í Þýskalandi, sem ætlaði að reyna að minnka umsvif kolaorkuvers í bænum í nafni hreinna lofts. Þýskaland þurfti að beygja sig í málinu, og þar sem Þýskaland þarf að beygja sig er næsta líklegt að Ísland þurfi það með allt niðrum sig.

Hér eru ekki aðeins „verslunarhindranir“ fjarlægðar, heldur líka lög og reglugerðir sem vernda hagsmuni verkafólks og neytenda, og ekki síst hagsmuni allra jarðarbúa hvað varðar umhverfismál. Ráðamenn geta ekki skrifað undir nefnda fríverslunarsamninga ef samningar frá loftslagsráðstefnunni í París eiga að standa. Annar samningurinn mun í raun réttri ógilda hinn.

Með TiSA-samningnum er stórfyrirtækjum gefið alræðisvald í nafni fríverslunar og „hagræðingar“. Samningurinn mun ná utan um 70% alþjóðamarkaðsins af allri þjónustu, allt frá fjármálum til heilbrigðismála. Á WikiLeaks má lesa að ákvæði um einkavæðingu eru óafturkallanleg, það þýðir að lönd geta ekki gert lykilþjónustu opinbera á ný, þótt þeir muni upplifa að allt versni þegar fjarlægt stórfyrirtæki fer að reka elliheimili eða leikskóla landsins. Og þótt undanþága fáist varðandi lykilþjónustu snýst mannlífið um margt fleira. Hér er verið að umbylta hversdagslífi okkar allra; lýðræði, kjarabarátta margra kynslóða og hugsjónir um réttlátari auðæfaskiptingu eru seld á einu bretti.

Ráðamenn Íslands sem komið að umræddum samningum: Hleypið þessum tröllum fram í dagsbirtuna!

Höfundur er rithöfundur.

Grein birtist einning í Morgunblaðinu þann 28. janúar 2016


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283