Sænska sjónvarpið SVT 1 hefur á undanförnum vikum sýnt þriggja þátta heimildamyndaseríu sem nefnist Tilraunin um stjörnulækninn Paolo Macchiarini sem taldi veröldinni trú um að hann gæti grætt plastbarka í manneskjur. Paolo var síðan sakaður um að hafa falsað niðurstöður fyrstu aðgerðarinnar sem var gerð árið 2011 en engu að síður framkvæmt fjölda slíkra aðgerða í kjölfarið.
Alls hafa 9 manns undirgengist aðgerð þessa og af þeim lifa enn aðeins tveir sjúklingar sem báðir eru mikið veikir og bíða annarra úrræða. Ísland kemur töluvert við sögu í heimildamyndaþáttunum þremur sem alla er hægt að sjá hér og við hvetjum Ríkisútvarpið til að taka þættina til sýningar.
Paolo gerði fyrstu plastbarkaaðgerðina á Karolinska sjúkrahúsinu eins og fyrr segir árið 2011 þar sem Birgir Jakobsson, nú landlæknir, gegndi forstöðu. Erítreumaðurinn Andemariam Beyene, sem búsettur var á Íslandi, fór fyrstur manna í aðgerðina, en lést rúmum tveimur árum síðar. Birgir Jakobsson landlæknir lét hafa eftir sér í viðtali við RÚV:
„Þegar var ákveðið að fara út í þessa aðgerð þá var það náttúrlega fyrir tilstilli eða beiðni frá Íslandi, íslenskum læknum, um að gera allt sem hægt væri að gera til þess að bjarga dauðvona sjúklingi,“ segir Birgir. Fram kemur í heimildamyndinni að það er álitamál hversu langt Andemariam Beyene átti eftir ólifað miðað við það ástand sem hann var í þegar hann fór í umrædda aðgerð.

Tómas Guðbjartsson og Andemaryan Beyene
Íslensku læknarnir sem hér um ræðir eru þeir Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson en þeir voru einnig meðhöfundar Paolos í grein sem birtist í Lancet um aðgerðina. Í greininni kom fram að aðgerðin hefði heppnast vel og að aðferðin virkaði. Greinin í Lancet var síðan úthrópuð sem mestu lygar læknavísindanna þar sem niðurstöður aðgerðarinnar, sem kynntar voru vísindaheiminum, voru ekki í neinu samræmi við læknaskýrslurnar.
Hér má sjá samantekt Láru Hönnu Einarsdóttur um málið:
Fjórir meðhöfundar greinarinnar fóru fram á rannsókn á starfsháttum læknisins og bjuggust við miklum úlfaþyt en Karolinska varðist fagmannlega og stendur þétt við bak Paolo Macchiarini sem enn er starfandi við spítalann. Tómas og Óskar sögðu í íslenskum fjölmiðlum, er niðurstaða Karolinska lá fyrir, að þungu fargi væri af þeim létt en þeir voru til rannsóknar vegna aðildar sinnar að málinu. Landspítalinn stóð einnig að rannsókn að aðkomu íslensku læknanna og komust að sömu niðurstöðu að þessar ásakanir á hendur læknunum ættu ekki við rök að styðjast.
Heimildamyndin gefur til kynna að jákvæð niðurstaða innanbúðarrannsóknar Karolinska á ásökunum þeim er stofnunni voru bornar á hendur séu hrein undanbrögð og fegrun á staðreyndum. Karolinska komst sumsé að því að Paolo hefði ekki gerst sekur um vísindalegt misferli þrátt fyrir ásakanir og jafnvel sannanir um slíkt.
Það er pínlegt að sjá yfirmenn Karolinska verjast erfiðum fyrirspurnum kvikmyndagerðarmannsins og enn verra til þess að vita að vegna yfirbreiðslu Karolinska á því hvað raunverulega gerðist hefur Paolo haldið aðgerðum áfram, t.d. í Rússlandi. Heimildarmyndin fylgir lækninum eftir þangað og þá kemur ýmislegt furðulegt í ljós. Hann virðist hafa yfir að ráða heilum tilraunagarði þar með dýrum bæði músum og prímötum. Þá segir einnig frá hvernig fyrsti sjúklingurinn var valinn til uppskurðar í Rússlandi en það fór fram með þeim hætti, að fólk sendi inn myndbönd og gat unnið aðgerð hjá þessum virta lækni fyrir. Ekki ósvipað myndböndum þeim er fólk sendir inn í hæfileikakeppnir. Við fylgjum í myndinni ungri konu sem undirgengst aðgerðina en lifir aðeins í skamman tíma á eftir, manneskja sem hæglega hefði þrátt fyrir veikindi getað orðið háöldruð. Hrollvekjandi saga.
Plast verður lifandi vefur?
Paolo Macchiarini notast við plasttegund í barka sína sem samþykkt er af bandaríska lyfjaeftirlitinu til matvælaiðnaðar. Hann hélt því fram að heilbrigður frumuvefur myndi tengjast plastbarkanum í kjölfar aðgerðarinnar. Engin sýni studdu þá fullyrðingu hans og má sjá ótal staðfestingar á því í heimlildamyndinni að líkamar sjúklinga Paolos höfnuðu plastinu í sumum tilfellum ítrekað þar sem plasthólkurinn varð gróðrarstía sýkinga og sveppamyndunar og lagðist þar að auki saman og bognaði svo klæða þurfti barkana með vírgrind til að halda öndunarveginum opnum og líftórunni í sjúklingum.
Samkvæmt heimildamynd sænska sjónvarpsins var Andemariam Beyene ekki æstur að undirgangast þessa aðgerð þar sem honum var tjáð að hann yrði fyrsti maðurinn sem reyndi slíkt. Hann var kvíðinn og óttasleginn að sögn konu hans. Að honum var logið um að aðgerðin hefði verið reynd á svínum en það reyndist ósatt því engar tilraunir höfðu þá farið fram á dýrum. Andemariam Beyene var einnig beittur þrýstingi frá læknum, eins og kemur fram í myndbandi Láru Hönnu hér að ofan, svo úr varð að hann samþykkti að undirgangast aðgerðina.
Lygalaupur á heimsmælikvarða!
En sagan er ekki öll, því í janúarhefti bandaríska tímaritsins Vanity Fair er augum beint að stjörnulækninum Paolo Macchiarini og þar er sögð saga sem lyginni er líkust. Framleiðandi hjá NBC Benita Alexander sem tók að sér að gera heimildamynd um lækninn lýsir þar ástarsambandi sínu við hann en hann bað hennar þrátt fyrir að vera kvæntur og sagði henni jafnframt að sjálfur páfinn myndi gefa þau saman. Hann tjáði henni enn fremur að hann væri einkalæknir í Páfagarði og læknir Clinton-anna og Obama-hjónanna. Ástarsagan og lygaþvælan sem hann bauð konunni upp á er svo kapítuli útaf fyrir sig sem er skemmtilegt að lesa hafi maður áhuga á síkópatískri hegðun.

Framleiðandinn Benita hjá NBC sem plötuð var og ástmaðurinn Paolo Macchiarini meðan hún trúði enn að hann væri sá sem hann sagðist vera.
Hver er hann þessi loddari sem gerir tilraunir á manneskjum?
Það sem máli skiptir í grein Vanity Fair er rannsókn blaðsins á starfsferli Paolos sem hann skartar í mörgum útgáfum ferilskrár sinnar og hampaði meðal annars þegar hann var ráðinn við Karolinska. Vanity Fair kemst meðal annars að því að ekki er fótur fyrir mörgum þeim nafnbótum og fjöðrum er læknirinn skreytir sig með og þá er vert að spyrja hvernig staðið hafi verið að ráðningu hans við Karolinska í upphafi? Samkvæmt sænskum fjölmiðlum hefur spítalinn ekki svarað fyrir uppgötvanir Vanity Fair um starfsferil Macchiarini sem eru á rökum reistar. Það ku vera til rannsóknar innandyra. RÚV greindi frá því í morgun að starfssamningur Macchiarini sé til endurskoðunar þar sem ýmislegt í grein Vanity Fair og heimildamyndinni sænsku hafi varpað nýju ljósi á málið. Sænska læknatímaritið hefur fjallað um málið.
Kokgleyptu yfirmenn Karolinska við loddaranum Paolo Macchiarini og leyfðu honum í ljósi upploginnar reynslu að framkvæma tilraunir á manneskjum sem drógu sjúklinga til dauða? Var ekkert farið ofan í saumana á ferilskrá umsækjandans ítalska þegar hann var ráðinn til Karolinska?
Hefur siðanefnd á Íslandi rannsakað þetta mál frekar í ljósi nýrra upplýsinga með tilliti til íslensku læknanna sem sannarlega áttu þátt í því að koma fyrsta fórnarlambinu undir hníf loddarans?
Heimildamyndaþáttur sænska sjónvarpsins fær mann til að velta því fyrir sér hvort leiðin til eftirsóttra metorða innan vísindaheimsins sé líkum stráð og lokaspurning þáttarins situr fast í minni þess sem horfir: Er mannslíf minna virði en orðspor Karólínska spítalans?
Enn um skandalinn um stjörnulækninn. Umfjöllun Expressen.