Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Heggur sá er hlífa skyldi

$
0
0

Kvikmyndin Spotlight fjallar um blaðamenn sem koma upp um stórfellt barnaníð meðal klerka kaþólsku kirkjunnar. Glæpi sem voru framdir í skjóli stofnunar sem taldi sig ósnertanlega – gegn varnarlausum börnum sem máttu sín einskis og flest komu frá efnalitlum og föðurlausum heimilum. Bakgrunnur þessa skelfilega máls er saga fórnarlambanna hverra líf voru lögð í rúst – barnanna í Boston sem voru misnotuð af fjölda kaþólskra presta, presta sem áttu að gæta þeirra.

Þetta er líka saga biskupanna og kardínálanna sem vissu af misnotkuninni en létu hjá líða að svipta prestana hempunum, heldur réðu, vernduðu og hækkuðu þessa brotapresta í tign. Loks er þetta saga hinna almennu borgara er risu upp í réttlátri reiði og sagan um alvarlegustu kreppu kaþólsku kirkjunnar um margra áratuga bil.

Síðan árið 1995 hafa rúmlega 130 manns stigið fram með hroðalegar bernskuminningar um hvernig séra John J. Geoghan nauðgaði þeim eða misbauð þeim yfir 30 ára tímabil í sex eða sjö sóknum í Boston. Fórnarlömb Geoghans voru undantekningarlaust á barnaskólaaldri – einn var þó ekki nema fjögurra ára gamall.

2003_08_24_BostonGlobe_FormerPriest_ph_Geoghan

John J. Geoghan

Geoghan er ekki eini presturinn í Boston sem hefur gerst sekur um þennan hroða, en í hans tilviki höfðu þrír kardínálar og margir biskupar látið hjá líða að sjá til þess að hann næði ekki til fleiri barna meðan þeir fluttu hann sókn úr sókn, með fórnarlambaslóðann á eftir sér, yfir 34 ára tímabil.

Fyrstu fréttirnar um málið, í dagblaðinu Boston Globe í janúar 2002, urðu til þess að Bernard Law kardínáli baðst afsökunar og lofaði að afhenda nöfn allra presta fyrr og síðar, sem sakaðir hefðu verið um að misnota börn kynferðislega. Nokkrum vikum síðar afhenti erkibiskupsdæmið saksóknara nöfn rúmlega 90 presta sem kvartað hafði verið yfir vegna kynferðislegrar misnotkunar undanfarin 40 ár. Inni í þessari tölu voru ekki látnir prestar og flest málin voru fyrnd, en þótt erkibiskupsdæmið yrði ekki dregið fyrir dómara, dæmdi dómstóll götunnar Law og menn hans þess harðar.

Law kardínáli og nánustu samstarfsmenn hans höfðu ítrekað verið varaðir við hættulegum prestum án þess að bregðast við með öðrum hætti en þeim að gefa þessum sömu mönnum enn fleiri tækifæri til að misnota börn.

Nokkru síðar kom í ljós að séra Geoghan var einungis þekktasta dæmið í miklu stærra vandamáli. Erkibiskupsdæmið í Boston hafði verið að borga fórnarlömbum presta stórar fjárfúlgur á undanförnum árum. Eitt þekktasta málið var mál séra Porters sem kom upp árið 1992. 65 fórnarlömb höfðu stofnað samtök sem hétu einfaldlega Fórnarlömb séra Porters, áður en kirkjan gaf sig og borgaði þeim skaðabætur. Þegar mál séra Porters varð opinbert hafði Law kardínáli fullvissað sóknarbörn sín um að kirkjan hefði ómögulega getað vitað um eða stöðvað þennan eina spillta mann innan kirkjunnar og að and-kaþólsk öfl hefðu gert miklu meira úr málinu en efni stóðu til. Sátt hafði tekist um flest hinna málanna, án þess að nokkuð þeirra kæmi fyrir dómara. Þetta var þægilegt fyrirkomulag: Kirkjan fékk að halda sínum ljótu leyndarmálum fyrir sig; fórnarlömbin, full af skömm og grunlaus um fjölda hinna fórnarlambanna, gátu varið einkalíf sitt. Þótt málin færu ekki fyrir dóm, þóttu þau innan kirkjunnar nægilega trúverðug til þess að fórnarlömbin voru að fá leynilegar skaðabætur í málum í það minnsta 70 presta.

Bernard Law kardínáli

Bernard Law kardínáli

Þegar Boston Globe ákvað að líta á Geoghan-málið, komu í ljós skjöl sem voru afar meiðandi fyrir erkibiskupsdæmið. Meðal skjalanna var 18 ára gömul viðvörun til Law kardínála um að Geoghan væri enn hættulegur börnum, tuttugu ára gamalt bréf frá sóknarbarni þar sem afbrot Geoghans voru rakin og spurt hvers vegna hann fengi að vera sóknarprestur barna og niðurstöður sálfræðinga sem skoðað höfðu Geoghan. Skjölin leiddu í ljós að erkibiskupsdæmið hafði áratugum saman vitað af misnotkun Geoghans á börnum.

Í Boston eru rúmlega tvær milljónir af þeim tæpum fjórum milljónum sem í borginni búa kaþólskrar trúar. Sagan um börnin í Boston á þó erindi til allrar heimsbyggðarinnar, því hún er alþjóðleg saga um hvernig vanmáttugum einstaklingum er ýtt til hliðar af valdamikilli stofnun, saga um hvernig breyskir dauðlegir geta tortímt ódauðlegri trú. Það er vægt reiknað, að undanfarin 20 ár hafi 1500 prestar hafi verið ákærðir opinberlega fyrir kynferðislega misnotkun á börnum.

Geoghan við réttarhöldin yfr honum árið 2002.

Geoghan við réttarhöldin yfr honum árið 2002.

SKELFILEG SVIK

Í fyrstu virtust sögurnar allt of skelfilegar til að vera sannar og svikin – við saklaus börnin, traust foreldranna, prestaeiðinn, biskupsábyrgðina og grundvallarkenningar kirkjunnar – voru skelfileg. Það sem fór þó verst í fólk var að Law kardínáli og menn hans höfðu tekið þátt í að þagga málin niður; að í stað þess að gæta sinna minnstu bræðra, höfðu æðstu menn kirkjunnar í raun ýtt þeim út á hraðbrautina.

Um gjörvöll Bandaríkin og allan hinn kaþólska heim voru prestar sem bendlaðir höfðu verið við misnotkun á börnum leystir frá störfum – í Bandaríkjunum voru þetta 176 manns á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2003. Biskupar í Bandaríkjunum, á Írlandi og í Póllandi sögðu af sér. Meira að segja Vatíkanið tók á málinu, þótt í fyrstu væri ekki gengið lengra en að hugga góðu prestana, í stað þess að huga að fórnarlömbum hinna vondu. Mörgum þótti sem yfirlýsing páfa væri sem salt í sárið og einn eitt dæmið um fjarræna og hrokafulla klerkastjórn sem væri gersamlega ófær um að sjá út yfir eigin þarfir.

Law kardínáli kom einnig inn á svikin um páskana 2002. ,,Svikin hanga eins og þrumuský yfir kirkjunni í dag,” skrifaði hann. ,,Þótt við ætlum ekki að dæma samband fólks við Guð, þá er það hafið yfir allan vafa, að kynferðisleg misnotkun presta á börnum hefur valdið grófum trúnaðarbresti. Prestar verða að vera traustins verðir og þar má hvergi bera skugga á. Þegar brestur verður á því trausti, bitna afleiðingarnar á okkur öllum.”

Páfi kallaði alla bandaríska kardínála til neyðarfundar í apríl 2002. Páfi var ómyrkur í máli og kallaði nú kynferðisafbrot presta stórglæp. Hinn ellihrumi 81 árs gamli páfi minntist loksins á fórnarlömbin og sagði: ,,Ég lýsi yfir samstöðu minni við og áhyggjum mínum af fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra, hvar sem þau eru niður komin.”

HNEYKSLIN ÞÖGGUÐ NIÐUR

Fram að þessu hafði kirkjunni tekist ágætlega að þagga öll hneykslismál niður og til þess notfært sér óttablandna virðingu sóknarbarnanna. Eftir að skjölin fundust sem leiddu í ljós að Law kardínáli og nánustu samstarfsmenn hans höfðu aftur og aftur verið varaðir við hættulegum prestum án þess að bregðast við með öðrum hætti en þeim að gefa þessum sömu mönnum enn fleiri tækifæri til að misnota börn, gat kirkjan ekki lengur vikið sér undan þunga ákæranna.
Geoghan-málið varð tákn fyrir þá mildu meðferð sem kirkjan bauð óþokkaprestum á kostnað fórnarlambanna. Geoghan var óforbetranlegur barnaníðingur og tæplega 200 manns hafa lagt fram kærur á hann. Sérfræðingar telja að Geoghan hafi trúlega misnotað þre- til fjórfaldan þann fjölda sem stigið hefur fram eða 600 til 800 börn. Þegar Geoghan komst loks undir manna hendur, útskýrði hann fyrir sálfræðingum hvernig hann valdi fórnarlömbin, þurfandi börn fátækra, einstæðra mæðra – stritandi kvenna sem voru alsælar með að karlmaður kom inn í líf sona þeirra, sérstaklega af því að það var prestur. Öðru hverju komu upp kvartanir en yfirmenn Geoghans fluttu hann þá einfaldlega um set – í nýja sókn með nýjum fórnarlömbum.

NÝ SÓKN – NÝ FÓRNARLÖMB

Og ekki bara Geoghan. Law kardínáli, biskupar hans og forverar þeirra höfðu allir flutt til brotapresta eins og peð á taflborði. Sumum var leyft að flytja til annarra fylkja, troðið á aðra söfnuði. Bæði sóknarbörn og samstarfmenn prestanna voru grunlaus um óargadýrin meðal þeirra. Erkibiskupsdæmið í Boston var þó einungis eitt flakandi sár af mörgum á líkama kaþólsku kirkjunnar – vandamálið teygði sig yfir alla Norður-Ameríku, yfir til Evrópu, Ástralíu og alla leið til Tierra del Fuego í Chile. Árið 2001 var franskur biskup lögsóttur fyrir að hafa látið hjá líða að kæra barnaníðinga til lögreglu og í Wales var biskup þvingaður til að segja af sér vegna þes að hann hélt hlífiskildi yfir brotaprestum. Vorið 2002 sagði hinn írski biskup Brendan Comiskey af sér, eftir að viðurkenna að hann hefði ekki reynt að stöðva prest sem hafði misnotað fórnarlömb sín svo hrottalega að mörg þeirra frömdu sjálfsmorð.

Og fórnarkostnaðurinn er hár. Framlög til kirkjunnar hafa snarminnkað, einstaka hafa sagt sig úr kirkjunni en mjög margir hafa hafnað klerkastjórninni. Erfiðast er þó að meta fórnarkostnað fórnarlambanna: ellefu ára drengsins sem var látinn fróa sér fyrir framan prestinn, 13 ára piltsins sem var nauðgað af prestinum sínum og litla drengsins sem fékk pening í strætó hjá prestinum sem hafði verið að enda við að taka hann í rassinn og skildi hann eftir blæðandi úti á götu.

HVUNNDAGSHETJUR

Ef það er einhverjar hetjur að finna í þessari sorglegu sögu, þá eru það fórnarlömbin sem loksins fengu málið og fundu hjá sér hugrekki til þess að stíga út í dagsljósið eftir að bera harm sinn í hljóði árum saman, stíga út og segja: ,,Þetta er það sem henti mig og þetta er rangt.”
Fyrir tuttugu árum skrifaði Peter Pollard til Law kardínála og sagði honum að hann hefði verið misnotaður af presti sem unglingur. Pollard bað Law um að senda prestinn í meðferð og að sjá til þess að þessi prestur yrði aldrei framar skilinn eftir einn með barni. Pollard fékk svar frá einum biskupa Laws, sem sagði að kirkjan hefði komist að þeirri niðurstöðu að börn væru ekki í neinni hættu fyrir viðkomandi presti og að hin kynferðislega áreitni væri einungis blíðuhót. Pollard er nú félagsráðgjafi sem vinnur með misnotuð og vanrækt börn. Hann segir: ,,Þau ykkar sem vilja að við fyrirgefum og gleymum þessu, verða að skilja einn hlut: Við sem lifðum þetta af, höfum varið lífi okkar í að reyna að komast áfram. Hvað sum okkar varðar, batt sjálfsmorð, misnotkun áfengis og lyfja eða ofbeldi enda á þá yfirvegun hvort við ættum að gleyma þessu. Við erum að byrja að ná heilun í líf okkar, farin að eignast drauma, næla okkur í háskólagráður, mynda fjölskyldur, komin á vinnumarkaðinn en við sleppum ekki undan eftirköstunum af þeim svikum sem voru framin á okkur í Guðs nafni.

Þessi svik eru vægðarlaust ofin inn í líf okkar. Það er kannski ekki hægt að kæra þessi svik fyrir dómstólum en áhrifin af þeim hafa ekki fyrnst. Og það kemur ekki til mála að gleyma þeim.”


SJARMÖRINN SÉRA GEOGHAN

Hann var lágvaxinn maður með afvopnandi bros, sem gerði að verkum að hann minnti á vingjarnlegan frænda. Það var erfitt að koma auga á myrkrið bak við björt augu Johns Geoghan og svo að segja enginn sá það við fyrstu sýn.

FILE - In this Jan. 17, 2002, former Roman Catholic Church priest John Geoghan sits during his trial in the Middlesex Superior Court in Cambridge, Mass. Geoghan was accused of abusing numerous children, was convicted and sentenced in 2002, and was murdered in prison the following year. More than a decade after the church was rocked by the clergy sex abuse scandal, “Spotlight,” a film that tells the story of how The Boston Globe exposed the scandal, is being released in theaters Nov. 6, 2015. (John Blanding/The Boston Globe via AP, Pool, File)

John Geoghan (John Blanding/The Boston Globe )

Frank Leary sá það ekki. Frank var 13 ára, næstyngstur sex barna einhleyprar móður á framfæri hins opinbera, þegar Geoghan bauð honum að skoða frímerkjasafnið sitt. Presturinn lét drenginn sitja í stól og bað hann fara með faðirvorið. Meðan á bæninni stóð tosaði Geoghan buxurnar af Frank og tók síðan til við að sjúga lim hans. ,,Ég var að reyna að halda aftur af tárunum og hafa augun lokuð svo ég sæi hann ekki,” segir Frank, sem telur að um mínúta hafi liðið áður en þeir urðu fyrir truflun. ,,Dyrnar opnuðust og hvíthærður prestur fór að öskra á hann: ‘Það er búið að banna þér að gera þetta hérna uppi, Jack! Hvern andskotann ertu að gera, maður? Ertu brjálaður?’ Hann öskraði og gargaði og ég lét mig hverfa.” Frank sat um hríð úti í kirkjugarði og fór beint inn á sitt herbergi þegar hann kom heim. Hann sagði engum frá atvikinu árum saman.
Trúaðar, kaþólskar mæður, sérstaklega þær sem voru að berjast við að ala upp stóra fjölskyldu einar, litu á Geoghan sem himnasendingu. Þarna stóð hann heima hjá þeim og bauðst til að aðstoða þær. Hann fór út með drengina þeirra að kaupa ís. Hann las fyrir þá á kvöldin og bað með þeim kvöldbænirnar. Og hann breiddi yfir þá fyrir nóttina. Og svo, í myrkrinu, káfaði presturinn á kynfærum drengjanna gegnum náttfötin, sussaði á þá og lét þá sverja sér þagnareið.

Geoghan útskýrði hvernig hann valdi fórnarlömbin, þurfandi börn fátækra, einstæðra mæðra – stritandi kvenna sem voru alsælar með að karlmaður kom inn í líf sona þeirra, sérstaklega ef það var prestur …


SLYNGUR BARNANÍÐINGUR Í HEMPU

Geoghan var slyngur barnaníðingur og einbeitti sér að vanræktum, föðurlausum drengjum úr fátækum fjölskyldum. ,,Þetta voru svo elskuleg börn,” sagði Geoghan, ,,að ég gleymdi mér þegar ég var að leika við þau. Millistéttarbörn létu aldrei svona utan í mér, svo ég varð ekki jafnringlaður með þeim. Ég sé það núna að ég hefði átt að leita mér ráðgjafar í að eiga við börn úr vandræðafjölskyldum.” (!)
Meðal fórnarlambanna voru synir Joanne Mueller sem var einstæð móðir fjögurra drengja. Geoghan fór að birtst heima hjá þeim og fara út með drengina að kaupa ís. Hann las fyrir þá, baðaði þá og passaði þá ef Joanne skrapp út. ,,Hann var vinur okkar,” segir Joanne, sem hugsaði ekkert út í það ef Geoghan skrapp upp í svefnherbergi drengjanna á kvöldin.
Kvöld eitt árið 1973 varð Joanne undrandi á viðbrögðum næstyngsta sonar síns, sem allt í einu vildi ekki fá Geoghan í heimsókn. ,,Hann fór loks að gráta og hrópaði: ‘Nei, nei, nei, ég vil ekki fá hann hingað. Ég vil ekki að hann geri þetta við tippið á mér.”
,,Ég gleymi þessu aldrei – hvernig mér leið á meðan það rann upp fyrir mér hvað barnið var að segja. Það er ekki dags daglega sem börn segja svona. Hann kastaði sér kjökrandi í gólfið. Hann var hreinlega í móðursýkiskasti.”
Yngsti sonurinn, fimm ára, var líka farinn að gráta. Joanne kallaði á hina tvo drengina sem í fyrstu stóðu orðlausir og fóru svo að gráta. Elsti drengurinn sagði: ,,Hann sagði að við mættum aldrei segja þér frá þessu, vegna þess að við mættum bara segja frá þessu við skriftirnar.”
Joanne var miður sín og vissi að Geoghan var á leiðinni heim til hennar. Hún flýtti sér út með börnin og fór og hitti séra Miceli, sóknarprest sem þekkti til bæði Geoghans og fjölskyldu Joanne sjálfrar. Miceli ráðlagði drengjunum að ,,hætta að hugsa um þetta, gleyma þessu. ‘Reynið að gleyma þessu, þetta mun aldrei gerast aftur og Geoghan fær ekki leyfi til að halda prestsembætti.’
,,Hann fullvissaði mig um, að Geoghan myndi missa hempuna,” segir Joanne.
Þegar Miceli var látinn gefa skýrslu fyrir rétti, sagðist hann ekki ‘kannast við Joanne’ og að hann hefði aldrei tekið á móti henni vegna eins né neins. Miceli sagðist þó kannast við að kona hefði hringt í hann og kvartað yfir að Geoghan væri of mikið með börnum hennar en aldrei hefði verið minnst á kynferðislega misnotkun.


BAÐ BÆNIR Á MEÐAN

Næsta stoppistöð Geoghans var í Jamaica Plain, þar sem hann þjónaði frá 1974 til 1980. Í sókninni bjó Maryetta Dussourd, sem var ein að ala upp þrjá syni sína og fjóra systursyni, sem hún hafði tekið að sér. Þetta var kaldranalegt hverfi og Maryetta hafði vonast til þess að í því væri góður prestur sem börnin gætu litið upp til. Svo hitti hún Geoghan sem sá um að þjálfa altarisdrengina og var auk þess með skátaflokk. ,,Hann minnti mig á altarisdreng,” segir Maryetta, sem var hreykin af því að Geoghan heimsótti hana og drengina svo að segja á hverju einasta kvöldi í tvö ár. Allan þann tíma var Geoghan að misnota drengina sjö. Stundum átti hann munnmök við þá, stundum káfaði hann á kynfærum þeirra eða þvingaði þá til að káfa á kynfærum hans. Stundum bað hann bænir meðan á misnotkuninni stóð. Þegar Maryetta komst að því að Geoghan væri að misnota drengina hennar, einn þeirra aðeins fjögurra ára gamlan, var enga huggun að fá hvorki hjá kirkjunni né vinum hennar. Önnur sóknarbörn sneru við henni baki og sökuðu hana um að búa til hneyksli. Embættismenn kirkjunnar lögðu hart að henni að halda sér saman, barnanna vegna, sögðu þeir. Ekki fara í mál, var viðvörunin. Það mun enginn trúa þér.

Í stað þess að gæta sinna minnstu bræðra, höfðu æðstu menn kirkjunnar í raun ýtt þeim út á hraðbrautina.

 

‘EINUNGIS TVÆR FJÖLSKYLDUR’

Maryetta segir að einn sona hennar hafi viðurkennt að séra Geoghan hafi fullvissað hann um að það þýddi ekkert að segja móður sinni frá þessu. ,,Hann sagði að ég myndi aldrei taka hann trúanlegan, að ég elskaði kirkjuna of heitt til þess, að ég myndi ekki taka minn eigin son trúanlegan.” Maryetta kvartaði þó við séra Thomas, sem gekk á Geoghan og varð felmtri sleginn þegar Geoghan viðurkenndi að þetta væri satt. Geoghan var látinn fara yfir í nýja sókn en séra Thomas kom til Maryettu og sagði henni að Geoghan hefði viðurkennt að hafa misnotað drengina en afsakað sig með því að einungis hefði verið um tvær fjölskyldur að ræða. Séra Thomas þrábað síðar Maryettu að gera málið ekki opinbert, að hugsa um tilfinningar Geoghans og öll þau ár sem hann hefði verið í guðfræðinni og hvaða afleiðingar það hefði fyrir Geoghan ef ákærurnar á hendur honum yrðu gerðar opinberar.

Embættismenn kirkjunnar vissu mætavel að Geoghan var barnaníðingur. Í stað þess að stöðva hann var hann sendur sókn úr sókn til þess að forðast opinbert hneyksli. Það var hvíslast á um mál hans á kirkjuþingum. Það voru sendar skýslur á milli sókna um mögulegar meðferðir fyrir hann. En því sem flestallir samstarfsmenn hans vissu, var haldið vandlega leyndu fyrir sóknarbörnum hans sem opnuðu heimili sín fyrir honum, allt þar til hann var sviptur hempunni árið 1998 og voru þá 30 ár síðan fyrsta ásökunin um barnaníð barst.

Séra Geoghan var dæmdur í 10 ára fangelsi í febrúar 2002 og myrtur þar af klefafélaga sínum í ágúst 2003.

Kvikmyndin Spotlight er tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Kvikmyndin Spotlight er tilnefnd til Óskarsverðlauna.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283