Mikið er hún nú yndisleg öll, hugmyndarík og elskuleg, sýningin á stóra sviði Þjóðleikhússins: Umhverfis jörðina á 80 dögum – barna- og fjölskyldusöngleikur eftir þá Karl Ágúst Úlfsson og Sigurð Sigurjónsson, en Karl Ágúst hefur einnig samið söngtexta og Skálmaldarfélagarnir Baldur Ragnarsson og Gunnar Ben samið tónlist við hæfi. Leikmynd Högna Sigurþórssonar er viðeigandi og viðkunnanleg umgjörð og lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar skapar þá stemningu sem við á hverju sinni – sem er dálítið afrek útaf fyrir sig, því hér er í stuttum atriðum og snöggum skiptingum farið umhverfis jörðina, á láði, lofti sem legi, og skiptir miklu að umhverfið sé dregið upp skýrum dráttum. En kannski eru það þó búningar Leilu Arge sem eru þyngstir á metunum þegar kemur að því að skapa umhverfi og anda – það var eins og engin takmörk væru á því hversu hugvitssamlega var unnið með búningana: búningar þeirra þremenninga, Fíliasar Foggs, Passepartouts og Fix leynilögreglumanns voru eins og staðfastur rauður þráður gegnum sýninguna en búningar annarra leikara á sífelldu iði, flökti og flugi, leikarar skipta í sífellu um hami, stundum eins og fyrir hreinan galdur, eins og þegar Ólafía Hrönn gengur út af sviðinu í lok atriðis og kemur inn í næsta atriði í nýjum búning og þetta gerist næstum því samtímis. Glæsilegt!
Umhverfis Jörðina á 80 dögum, Leyndardómar Snæfellsjökuls, Ferðin til tunglsins … þær eru býsna margar, sögur Jules Verne um könnunarþrá mannsins á öndverðum iðnsögutíma. Þær sóttu efnivið sinn í könnunarferðir evrópskrar yfirstéttar sem í anda hins kapítaliska hagkerfis leitaði auðlinda í fjarlægum og framandi löndum. Sögur Vernes birtust fyrst í bókaflokki er kallaðist Voyages extraordinaires, sem í leikskrá er þýtt sem Ótrúleg ferðalög og lýstu ferðum á framandi slóðir – til tunglsins, í iður jarðar, í djúp úthafa og – síðast en ekki síst – hringinn í kringum jörðina þar sem nýjasta tækni er tekin í þjónustu mannsins og hann ferðast með loftbelg og járnbrautarlest, vopnaður vasaúri svo allt fari fram með ítrustu nákvæmni. Það er sumsé engin tilviljun að Jules Verne skrifar sögur sínar um þær mundir er iðnaðarsamfélagið er að ná hámarki sínu eins og í það var slegið með framförum í heimspeki og tækni á öldunum áður; í fyrstu sögum sínum hrífst hann með framförunum, í síðari sögum bregður fyrir myrkari tón og gagnrýnni á tæknina, sem honum finnst jafnvel ógna manninum.
Tækniframfarir heilla manninn enn, en mannkyn er líka í vaxandi mæli farið að taka undir áhyggjur svipuðum þeim sem Jules Verne viðraði í seinni verkum sínum. Þjóðir heims bregðast við mengun, ójöfnuði, hlýnun jarðar og öðru sem ógnar vorri móður Jörð og það fer því vel á því að höfundar fjölskyldusöngleiks þeirra Karls Ágúst Úlfssonar og Sigurðar Sigurjónssonar hefjist á óði til móður Jarðar:
Þessi jörð, hún fóstrar okkur öll,
því ættum við að styrkja hennar vörn,
varast það að vinna á henni spjöll –
verum henni þakklát, jarðarbörn.
Öllu vistvænna verður það ekki. En þetta er skemmtileg og viðeigandi leið til að þróa upphaflegt verk Vernes og færa það til okkar nútímabarna; enn er lagst í ævintýri og ferðalög, en hér gefast líka ýmis tækifæri til að benda á þá þróun sem orðið hefur á sviði t.d. nýlendustefnu og jafnréttis. Ber það hið upprunalega verk Vernes ofurliði? Alls ekki – þetta er bara fjörugt og fyndið og meira að segja yngstu áhorfendurnir voru fyllilega með á nótunum eins og þegar flett var ofan af íhaldssemi karlaklúbbsins sem leyfði engum konum að koma inn í sín helgu vé eða þegar hin fagra prinsessa Aúda efaðist um sýn Filíasar Foggs á ágæti nýlendustefnunnar. Þetta var að öllu leyti smekklega gert og hefði að ósekju mátt vera meira af þessum söguþróunarlegu olnbogaskotum; þau koma vel út þegar þau eru borin fram af elskulegri gamansemi. Þá er það snilldarbragð þegar leikurinn bregður sér yfir í aðra sögu Jules Vernes, þá um sæfarann kaptein Nemó, til að bjarga sögupersónum yfir – nei, undir! – Kyrrahafið í kafbáti.
Leikhópurinn tekur vel utanum þessi húmorísku skot og gefur þeim mátulegt vægi, þau verða aldrei að innantómum brandara en gefa eitthvað áhorfendum til umhugsunar og það er bragðgóður broddur að þeim.
Í leikskrá er mörgum þessara atriða fylgt eftir í sérdeilis skemmtilegum kafla þar sem einnig er fjallað um ótal margt fleira sem bregður fyrir í sýningunni. Foreldrar, afar og ömmur fá hér gott færi á að spinna þá þræði áfram eftir að heim er komið og stuðla að aukinni þekkingu og þroska hinna yngstu leikhúsgesta!
Sigurður Sigurjónsson fer með aðalhlutverkið, Fílías Fogg, erkibretann sem slær í veðmál í karlaklúbbnum um að hann muni geta með hjálp nýjustu tækni komist umhverfis jörðina á 80 dögum. Veðmálið kemur til af því að Englandsbanki hefur verið rændur og grunur leikur á að bankaræninginn sé á leið úr landi, enda hljóti það að vera auðvelt, eins og tækninni hafi fleygt fram. En þetta verður til þess að Fílías Fogg vekur athygli leynilögreglumannsins Fix sem eltir Fogg alla leið að heiman og heim og úr verður býsna spennandi og skemmtileg frásögn sem fleytt er áfram með hugvitssamlegum sviðslausnum, frjórri og taktfastri tónlist, leikgleði og fjörugum leikhúsgaldri.
Sigurður er einfaldlega frábær sem hinn breski yfirstéttarspjátrungur, þökk sé hárfínum leik þar sem hvergi er farið of eða van, stórgóðu gervi og búning við hæfi. Eins og alþjóð veit, er Sigurður einn okkar besti gamanleikari og agaður leikur hans gerir karakterinn bæði spennandi og aðlaðandi.
Örn Árnason leikur þjón hans, Passepartout, af öryggi og fylgir Fílíasi Fogg vel eftir með ýmsum gamanbrellum sem hitta í mark hjá hinum ungu áhorfendum (og þá ekki síður þeim eldri) og það bregst ekki þegar Örn brestur á með söng, lyftist sýningin öll í hærri hæðir! Karl Ágúst Úlfsson leikur leynilögreglumanninn Fix sem á sér þá ósk heitasta að koma Fogg undir manna hendur fyrir bankaránið en tekst það aldrei – á endanum hefur tilfinning okkar fyrir þessum mislukkaða leynilögregluumanni snúist frá andúð yfir því að hann vill ólmur leggja stein í götu hins viðfelldna Fílíasar yfir í samúð yfir því að honum skuli í sífellu mistakast. Þetta tekst Karli Ágústi með tilgerðarlausum og sterkum leik sem hittir beint í mark hjá ungu kynslóðinni, kómíkin byggir auk þess á aðstæðunum sem upp koma og það er kómík – svo ekki sé sagt slapstick – í ætt við þöglu myndirnar – karakterinn gerir allt í fullri alvöru en allt verður fyndið samt. Eða kannski einmitt þess vegna!
Ólafía Hrönn Jónsdóttir er fyrsta klassa komedienne og ekki bregst henni bogalistin hér fremur en endranær.
Ég er óklár á því í hve mörg hlutverk hún vatt sér meðan á sýningu stóð, en mörg þeirra voru býsna eftirminnileg – bankastjóri Englandsbanka, hin þokkafulla prinsessa Aúda og prumpandi páfi í andarslitrunum. Leikur Ólafíu Hrannar einkenndist af óvæntum lausnum í byggingu karaktera og elskulegum húmor sem náði aftur á aftasta bekk!
Hljóðfæraleikararnir Baldur Ragnarsson og Gunnar Ben léku á ógrynni hljóðfæra, og bara fjölbreytnin í hljóðfæravali undirstrikaði hnattreisuna; tónlistin auk þess fjölbreytileg sem áður gat og lyfti stemningunni, hvort sem um ræddi að skapa veðrabrigði eða skapa fjör í leik. Auk þess brugðu þeir félagar sér í fjölmörg smærri hlutverk, dregin skýrum dráttum með gervum og látbragði og það gilti einnig um sviðsmennina Jón Stefán Sigurðsson og Stellu Björk Hilmarsdóttur, sem hlupu úr einu gervinu í annað og allt varð þetta til að auka við breidd og vídd sýningarinnar og gera hana að heillandi sjónarspili.
Það væru afglöp að nefna ekki brúðurnar, sem einnig verða til að auka á gildi sögunnar – þar kynnumst við í sjónhending sögulegum karakterum á borð við Viktoríu drottningu, Vincent van Gogh og Mahatma Gandhi (á unga aldri) og það er óborganlega fyndið og fróðlegt.
Mergjaðan og magnaðan heildarsvip sýningarinnar má þó öðrum fremur þakka leikstjóranum, Ágústu Skúladóttur. Sýningin ber öll merki hennar öruggu handar og næma auga fyrir öllu því sem kætir og gleður. En hér koma önnur gæði til, sem lyfta sýningunni og hljóta að færast til tekna leikstjóra sem ber ómælda virðingu fyrir sínum ungu áhorfendum; það var athyglisvert að sjá hversu vel hinir ungu áhorfendur fylgdust með öllu sem gerðist frá upphafi sýningarinnar til enda.
Þessari athygli var ekki náð með ærslum og látum heldur með því að móta heild sýningarinnar eins og gegnum brennigler – þótt ótal margt væri að gerast samtímis á sviðinu var fullkomlega skýrt hvað var í fókus og hvert auganu skyldi beint, allt varð til að beina athyglinni nákvæmlega þangað sem þurfti og þjónaði sögunni.
Sýningin talaði auk þess samtímis til hjarta og huga þannig að úr varð eitthvað áhugavert, eitthvað sem enginn vildi missa af, hvorki ungur né gamall. Þetta er flottur eiginleiki á leiksýningu, að geta sameinað áhorfendur á öllum aldri þannig að úr verður sannkölluð fjölskyldusýning.
Þjóðleikhúsið: Umhverfis jörðina á 80 dögum
Barna- og fjölskyldusöngleikur, byggður á sögu Jules Verne
Handrit: Karl Ágúst Úlfsson og Sigurður Sigurjónsson
Söngtextar: Karl Ágúst Úlfsson
Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir
Tónlist: Baldur Ragnarsson, Gunnar Ben
Leikmynd: Högni Sigþórsson
Búningar: Leila Arge
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson
Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson, Baldur Ragnarsson og Gunnar Ben
Leikarar: Sigurður Sigurjónsson, Örn Árnason, Karl Ágúst Úlfsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir o.fl.