Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Er París staður til að heimsækja?

$
0
0

Ég var ósköp ánægð með mig í október þegar ég keypti helgarferð í janúar til Parísar handa okkur Kalla. Jólagjöfin klár, hrikalega rómantísk og ég fengi að njóta hennar líka. Fullkomið!

Í nóvember breyttist svo allt í kjölfar hræðilegra árása í borginni fögru sem hefur hingað til verið samnefnari ástar og umhyggju. Ég fylltist hræðslu og var ekki viss um að það væri sniðugt að heimsækja borgina svo stuttu eftir ódæðisverkin. Sérstaklega í ljósi þess að Frakkar höfðu gert það ljóst að þeir myndu ekki láta kjurt liggja og ruddust nú inn í þjálfunarbúðir ISIS víða í landinu og létu til sín taka. Var stríð yfirvofandi? Ef Frakkar kæmu höggi á ISIS myndu samtökin þá ekki svara fyrir sig aftur?

20160109_203247

Ég nagaði handarbökin og skammaðist mín í leiðinni fyrir hversu smálegt vandamál mitt var í ljósi harmleiksins sem Frakkar upplifðu. Engu að síður varð ég að taka ákvörðun. Mig langaði ekki að hætta við né vildi ég að hryðjuverkin kæmust upp með að eyðileggja ferðamannaiðnaðinn.

Ég ákvað því að halda mig við gjöfina og á aðfangadag reif ég innvolsið innan úr baguettebrauði og stakk útprentuðum flugmiða þar inn og víraði við franskt rauðvín.

Því næst keypti ég ferðahandbók um París og setti hótelbókunina milli blaðsíðnanna. Eftir hryðjuverkin lækkaði 3 daga hótelbókunin um 15 þúsund sem gerði mig þó hrygga. Hjarta þjóðarinnar var í molum og efnahagurinn virtist ætla að fá skell líka.

Brösug byrjun

Við hjúin vorum kannski helst til of slök á leiðinni í þetta langþráða frí og áttuðum okkur ekki á því hversu langt var í hliðið. Við vorum því of sein að hliðinu og lentum í þeirri niðurlægingu að vera kölluð upp. Og trúðu mér, sú refsing dugar vel til þess að maður endurtaki ekki þann leik á næstunni, enda er það ekki með ráðum gert að koma of seint. Í því sem við komum hlaupandi með skömmustulegan svip hreytti flugvallarstarfsmaður í okkur „alltof sein!“ um leið og hún strunsaði framhjá með miklum vanþóknunarsvip. Við báðum manninn sem skoðaði miðana okkar afsökunar og gengum inn í vélina en þar var fólk enn að koma sér fyrir og því tóku ekki margir eftir því að við vorum þau síðustu.

Ég fékk hálfgerðan hnút í magann. Ég man ekki hvenær einhver hreytti svona í mig eins og ég væri óþekkt barn. Ekki það að það eigi að hreyta í óþekk börn. Bara alls ekki! Það losnaði þó hratt um hnútinn þegar risastórt bros tók á móti mér í vélinni.

„Afsakaðu innilega!“ sagði ég við flugfreyjuna sem náði á einhvern undraverðan hátt að brosa enn meira. „Ekkert mál. Ég er glöð að sjá ykkur. Verið innilega velkomin,“ saði hún. Aftur varð ég hissa og nú á góðmennskunni. Ætlaði hún ekkert að nudda okkur upp úr þessu? Neibb, greinilega ekkert. Bara núll! Í því kom önnur aðsvífandi og bauðst til að taka farangurinn okkar og sagðist vera glöð að sjá okkur. Þetta fannst mér svo til fyrirmyndar að ég átti ekki orð. Oft má nefnilega segja sama hlutinn á svo miklu jákvæðari máta. Þarna kom það skýrt fram að við vorum sein en engin leiðindi eða sleggjudómar. WOW air fékk stórt prik í kladdann frá mér þarna.


Hvernig er París eftir hryðjuverkin?

Ég fór síðast til Parísar fyrir hartnær 10 árum með frönskubekknum mínum í menntaskóla. Ég man aðallega eftir þreyttum fótum þar sem kennarinn okkar ætlaði sko að tikka við alla mikilvægustu staðina og dró okkur því á harðahlaupum um borgina í rúma tvo sólarhringa. Jú, og ég man eftir köldum bjór á írskum bar við hlið Moulin Rouge þar sem við bekkjarsystur dönsuðum uppi á borðum með landsliðinu í rugby eftir að þeir unnu einhvern mikilvægan leik. Við vissum auðvitað ekkert hverjir þeir voru, enda er rugby ekki vinsæl íþrótt á Íslandi.

Ég skildi þá ekki þetta magnaða Parísarblæti sem einkenndi margar vinkonur mínar. Það skil ég hins vegar núna!

Borgin er ekki bara fögur og full af skemmtilegri afþreyingu heldur er maturinn einn og sér ástæða fyrir heimsókn. Ég er mikill unnandi Tripadvisor og fer aldrei til útlanda án þess að vera búin að útbúa mér lista yfir veitingastaði og áhugaverða staði að heimsækja. Með aðstoð Tripadvisor var ég því búin að panta á nokkrum stöðum og útbúa mér lista.

Við komuna á hótelið (Hotel Joke – nýlegt flipphótel á góðu verði; mæli með því) komum við að læstum dyrum. Það þurfti sum sé að hringja bjöllu til að komast inn og út. Aðrar öryggisráðstafanir stungu ekki í augu á hótelinu. Borgin umvafði okkur með öllum sínum útikaffihúsum, bakaríum, rauðvíni, ostabúðum og menningu. Lögreglufólk var víða sýnilegt sem mér fannst gott og á leið inn í allar verslanir og söfn var öryggisvörður sem skoðaði ofan í veski, töskur og poka. Annað var það nú ekki sem ég tók sérstaklega eftir. Það voru ekki margir túristar og röðin í Louvre var 2 mínútur en er venjulega mjög löng.

Frönsk matargerð er svo miklu dásamlegri en mig óraði fyrir. Ég hef helst borðað á frönskum stöðum annars staðar en í Frakklandi sem eru fáránleg byrjendamistök. Veitingahúsin í París voru ekki uppbókuð líkt og venja er og verðið kom mér á óvart. Ég efast nú stórlega um að þau hafi eitthvað breyst eftir árásina en ég hélt að París væri mun dýrari.

Við borðuðum aðallega á litlum bistróum og allt því líklega í ódýrari kantinum. Við vorum að borga um 750 krónur fyrir glas af góðu húsvíni og aðalréttirnir (t.d. önd eða kálfakjöt) kostuðu um 2.200–3.600 krónur. Oft voru líka hádegistilboð eða tilboð á þriggja rétta samsettum kvöldverði. Ég mæli sérstaklega með stað sem heitir Mamou og franskur barþjónn benti okkur á. Það sem vakti líka undrun mína var að á flestum þeim stöðum sem við fórum á var meirihluti kúnnanna Frakkar.

Borgin kom því í alla staði skemmtilega á óvart og tók á móti okkur brosandi. Ég hitti heldur ekki alla þessa geðvondu þjóna sem ég mundi eftir úr minni fyrri ferð og hef ansi oft lesið um. Því hvet ég eindregið þá sem eru að hugsa um að skella sér í ferðalag að gefa París sitt stig og sínar evrur. Hér að neðan koma svo nokkrar ábendingar til Parísarfara.

Sinnepssmakk

Sinnepssmakk

Smakk í Louvre: Í Louvresafninu er fjöldi lítilla verslana í kjallaranum undir glerpíramídanum. Þú þarft ekki að borga þig inn til þess að komast þangað. Þar er t.d. geggjuð Maille-verslun (besta sinnep í heimi) sem selur ferskt „seasonal“-sinnep af krana og fjölda ævintýralegra sinnepstegunda, til dæmis sinnep með fíkjum og kóríander. Þar er gaman að smakka og skoða og versla óvenjuleg sinnep. Beint á móti er svo Maxim’s-verslun en Íslendingar þekkja margir Maxim’s Brie-ostinn sem er guðdómlegur. Þar getur þú smakkað súkkulaði og verslað alls kyns gourmet-varning.

20160107_151731-1

Uber-leigubílaþjónustan: Náðu í Uber-appið og kynntu þér þessa snilld. Uber er þjónusta sem býður upp á viðurkennda leigubíla gegn vægara gjaldi en tíðkast. Þeir eru einnig fljótari á staðinn og þú getur fylgst með bílnum í appinu þegar hann er á leiðinni. Þú skráir kreditkortið þitt í appið svo þú þarft aldrei að taka upp veskið í bílnum. Eftir hverja ferð færðu tölvupóst með upplýsingum um ferðina (verð o.þ.h.) og svo geturðu gefið bílstjóranum einkunn og þannig tryggir kerfið að þeir bestu fá mest að gera.

Matreiðslunámskeið og vínsmökkun:
 Fjöldi skemmtilegra matreiðslunámskeiða og vínsmökkunarnámskeiða er að finna í París. Það borgar sig að skoða úrvalið á netinu áður og vera búin að bóka sér pláss. Mér finnst það fín regla að fara á matreiðslunámskeið allavega einu sinni í hverju landi.

Töskur: Charles De Gaulle-flugvöllurinn í París hefur gjarnan verið nefndur versti flugvöllur í heimi af ýmsum ástæðum. Töskur virðast týnast þar oftar en annars staðar og starfsmenn vallarins eru duglegir við að fara í verkfall, eins og Frakkar almennt reyndar. Ég tók því eftir að ansi margir í vélinni, sem voru greinilega á leið í stutta helgarferð, voru bara með handfarangur og gengu beint út á meðan ég beið eftir að mínir 18 alklæðnaðir kæmu skoppandi á bandinu. Það gekk án vandræða en á heimleiðinni var annað mál. Nánast hver einasti farþegi var látinn opna töskurnar sínar og færa á milli en hver taska má alls ekki fara yfir leyfilega þyngd. Þótt það séu bara nokkuð hundruð grömm munu þeir biðja þig að færa á milli. Því skaltu passa að taskan sé ekki yfir leyfilegri þyngd. Ég hef ítrekað lent í þessu á frönskum flugvöllum.


Þið sem þekkið París vel megið gjarnan skrifa ábendingar hér að neðan. Sharing is caring!


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283