Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Af hverju ertu alltaf svona reiður?

$
0
0

Einar Áskelsson skrifar:

Spurningin sem ég fékk oft en gat aldrei svarað. Ég var reiður og gramur. Banvænt „eitur“ fyrir huga og sál. Öll verðum við reið og gröm en flestir hafa stjórn á þeim tilfinningum. Ég var ekki einn af þeim. En í dag hef ég lært að hafa stjórn undir eðlilegum kringumstæðum.

Er hægt að réttlæta reiði? Hvernig er að lifa reiður? Hvernig get ég losnað við reiðina? Hvernig get ég lifað á meðan aðrir eru reiðir mér? Ætla taka smá „glímu“ við þessar spurningar í pistlinum. Skoða þær út frá minni reynslu og almennri þekkingu.

Af hverju varð ég svona reiður!?

Ég fæddist ekki reiður. Reiði er ekki arfgengur andskoti. Reiði er mitt viðbragð við því sem er sagt eða gert við mig, það sem ég geri eða segi, og atburðum og aðstæðum. Viðbragð er lykilorðið. Ég tek ákvörðun um að vera reiður. En lengi kenndi ég öllum öðrum um! Ó já!

Ég ólst upp á ágætu heimili en þar voru ákveðin vandamál sem sköpuðu andrúmsloft sem orsökuðu mikinn kvíða og ótta í mér sem barn. það stóð nógu lengi yfir til að ég yrði „krónískt“ kvíðinn og óttasleginn og að auki meðvirkur. Nauðugur viljugur mótaðist ég af því sem ég upplifði líkt og önnur börn. Að verða kvíðinn, með ótta við höfnun og meðvirkur var ekkert val. Kvíði og ótti urðu mínar „default“ tilfinningar. Voru ekki allir þannig?

Hvernig mótaðist reiðin í mér?

Ég átti í basli með allt í lífinu sem unglingur. Sjálfsálitið og sjálfsvirðingin var svo léleg að öll unglingsárin reif ég mig niður. Fór sífellt lengra „inn í mig“. Ég gat ekki, þorði ekki og vissi ekki hvort eða hvað væri að. Hvað þá að tala við einhvern? Skilaboðin þá voru líka að „vera ekki að þessu helvítis væli drengur“!

Í dag, með öllum greiningum í skólakerfinu, hefði ég að lágmarki verið greindur með ADHD. Ofvirkni og athyglisbrest. Það var ekki skimað eftir líðan barna svo ég muni. Í íþróttum fékk ég útrás fyrir tilfinningarnar mínar. Reiðin nýttist þar á jákvæðan hátt í keppni! Þar gat ég stjórnað reiðinni. Oftast. Ég valdi fótboltann sem aðalíþrótt. Ég var efnilegur í mörgum greinum. Íslandsmeistari í handbolta í 4. flokki. Valinn í unglingalandslið í körfubolta 15 ára (áður en ég hætti að stækka!). Fótboltinn togaði mest. Nýkominn upp úr 3. flokki er ég kominn í hóp með úrvalsdeildarliði og í unglingalandslið. Ég var á hröðu flugi upp að láta æskudrauminn rætast.

„Default“ kvíða og höfnunarótti sem barn, breyttist í reiði sem unglingur. Lífið var ekki alltaf harmleikur og voru líka skemmtilegu stundir. Ég gat ekki umgengist fólk, verandi flakandi sár. Ég bjó til varnargrímur og lék hlutverk eftir aðstæðum. Líkt og ég gerði sem barn. Alla karaktera nema sjálfan mig! Reiðin mótaðist í hrokafulla framkomu. Hún varð mitt „vopn“ í mannlegum samskiptum án þess ég gerði mér grein fyrir því.

Deyfing. Himnasæla þegar ég drakk alkóhól í fyrsta sinn. Leið eins og Tarzan sem fór að leita að sinni Jane! Ég þurfti alltaf „efni“ til að upplifa mig glaðan og öruggan. Ekki síst til að nálgast hitt kynið sem ég var mjög „dugegur“ í. Því miður. Ég var inn í mér eitt stórt sár. Reiðin var plástur á sárið. Svo fór mér að blæða út! Með alls konar afleiðingum.


Hvaða afleiðingar hafði stjórnlaus reiði á mitt líf?

Ef ég er reiður er ég líka neikvæður. Frá u.þ.b. 17 ára aldri var ég „default“ reiður og neikvæður. Ég gekk ekki um og lamdi fólk. Ég notaði „verri“ vopn. Orð og gjörðir.

Langar að taka týpískt dæmi um stjórnleysið í mér sem lýsir vel hugarástandinu og jafnvægisleysi mínu. Ég hafði verið í viku á ferðalagi unglingalandsliðinu í fótbolta. Kom heim seint á föstudegi. Það var leikur hjá liðinu mínu í efstu deild daginn eftir. Ég náði ekki síðustu æfingu fyrir leik og gekk út frá því að ég væri ekki í hópnum. Ég var orðinn þurfi og fór á djammið sama kvöld. Fór á leikinn daginn eftir sem áhorfandi. Dauðbrá því ég átti að mæta og spila leikinn! Gat ekki vitað það og pældi ekki meira í því. Næsta mánudag mæti ég á æfingu. Það var svolítið málglaður enskumælandi maður sem þjálfaði liðið. Byrjar hann ekki þá að messa yfir mér fyrir framan hópinn. „..I know your story this weekend Einar..I was not happy to hear..o.s.frv.“. Hvernig brást ég við? Ég varð svo brjálaður að ég skipti um félag daginn eftir! Þvílík viðbrögð. Dauðsá eftir þessu þegar reiðin brá af mér! Ég var 17 ára þarna!

Í línulegri fylgni við aukna vímuefnaneyslu með meiri sársauka, varð ég reiðari og gramari. Stjórnlaus reiður, neikvæður og helst alltaf vímaður. Fótboltinn klúðraðist. Allt lífið klúðraðist. Var líkt og lekur stjórnlaus fleki út á ballarhafi. Með vaxandi vanlíðan varð ég hrokafyllri og „aggresívari“ í framkomu.

Á milli tvítugs og þrítugs tekst mér að spyrna við fótunum og takast á við reiðina og gremjuna. Um leið við lífið. Ég náði að lifa lífinu að mestu leyti án þess að reiði og gremja höfðu slæmar afleiðingar. En þær blunduðu í mér og grunnt á þeim ef mér leið t.d. ekki vel eða fór ekki vel með mig.

Þessi réttláta reiði…

Ég heyri fólk tala um að réttlát reiði sé eðlileg. Ef gert er á minn hlut eða mér nákomnum, er eðlilegt að upplifa reiði. En hvað geri ég svo? Hefni ég mín? Lifi ég áfram í reiðinni? Mín reynsla er að því verr sem mér líður, því reiðari verð ég. Og gramur eftir því.

Reiðin er ótrúlega algengt vopn í mannlegum samskiptum. Er eins og vírus sem smitast manna á milli. Eitrar samskipti og veldur fólki fyrst og fremst sársauka. Hverjum líður vel að vera stöðugt reiður út í einhverja manneskjur? Ef sá sem reiðin beinist að, er búinn að vinna úr sínu og sáttur, þá stjórnar þín reiði ekki lífi viðkomandi.

En…þú situr uppi með þína reiði! Snúum þessu við.

Versta upplifun mín í dag er að valda sárindum. Ég tek það nærri mér og það bítur samviskuna. Mér finnst erfitt ef einhver er reiður út í mig. Ef ég hef sært og er heiðarlegur í afsökuninni og iðrast, þá er ég búinn að gera það sem í mínu valdi stendur. Ég get ekki ætlast til að fá fyrirgefningu. Erfitt að sætta sig við en ég get bara hugsað um mig og mína sátt en ekki hvernig aðrir meðhöndla sína reiði. Ég „smitaði“ fullt af fólki með minni reiði. Sérstaklega mína nánustu. Þannig náði ég stjórn á fólki í kringum mig. Hvernig ætli því fólki hafi liðið? Jafnilla og mér líður í dag ef ég „smitast“ af reiði annarra. En ég hef val! Skoðum það..

Ef ég verð reiður og gramur í dag, hvað þá?

Frá því ég hóf bataferli upp úr alvarlegum veikindum haustið 2015, hef ég lært heilmikið um sjálfan mig sem manneskju, um samskipti og lífið almennt. Í fyrsta tímanum hjá sálfræðingnum mínum hreinlega sprakk ég af reiði þegar ég áttaði mig á að hversu lengi ég hafði verið veikur og hvaða áhrif það hafði haft á mig um langt skeið.
Batinn minn hefur snúist um að ná hugarró og jafnvægi. Það tekst ekki stútfullur af reiði. Sálfræðingurinn sagði eitt sinn við mig að ef ég ætlaði að hanga í reiðinni skyldi ég gera það og koma þegar ég væri búinn að því. Annars gæti hann ekki hjálpað mér! það sat í mér.

Hvernig get ég losnað við reiðina og gremjuna?

Ég hef ekki fundið betri leið til að vinna á reiðinni en að fyrirgefa. Besta leiðin er að setja sig í spor hins aðilans. Ef ég særi einhvern sem veldur reiði þá geri ég það ekki með ásetningi. Viðkomandi veit það ekki nema ég útskýri mitt mál og biðst afsökunar. Ef ég geri það ekki sit ég uppi með reiðina. Ég ber ábyrgð á minni líðan. Ég ber því ábyrgð á að vinna úr minni reiði. Óháð öðrum.

Ég nefndi hrokann minn sem grímu reiðinnar. Til að fyrirgefa og vinna úr reiðinni þarf hið andstæða. Auðmýkt. Horfa út fyrir eigin nafla. Ég ætla ekki að koma með „stóra sannleikinn“ um að meðhöndla reiði og gremju í þessum pistli. Er enginn sérfræðingur. Nema þá í sjálfum mér. Er svo heppinn að fá endalaust tækifæri að skoða mig sem manneskju, fara í gegnum sárindi en nýta þau sem tækifæri til þroskast.

Reiður maður þroskast ekki. Sá sem getur ekki viðurkennt mistök eða telur sig hafa alltaf rétt fyrir sér, líður ekki vel og nær ekki að þroskast. Mín reynsla. Mín upplifun. Mín skoðun. Lengra nær það ekki.
Ég kýs að vera auðmjúkur. Einn dag í einu. Góðar stundir kæra fólk.

Einar Áskelsson


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283