Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Saga af hjúkrunarheimili

$
0
0

Vífilsstaðir er mjög sérstakur staður. Vífilsstaðir er hjúkrunarheimili en samt ekki hjúkrunarheimili! Þangað ferðu þegar búið er að taka ákvörðun um að ekki megi lengur búast við bata eða framförum hjá þér á öldrunardeild Landspítalans, t.d. á Landakoti. Á öldrunardeildinni á Landakoti er unnið með þér meðan batahorfur eru til staðar, þar færðu alls konar iðjuþjálfun og sjúkraþjálfun og getur verið í nokkuð þéttu prógrammi yfir daginn. Þér líður þokkalega vel og þú hefur eitthvað til að hlakka til.

Þegar útséð er um að vænta megi frekari framfara með endurhæfingu á öldrunardeildinni á Landakoti er á ákveðnum tímapunkti tekin sú ákvörðun að sækja um á hjúkrunarheimili. Ef þú ert ekki fær um að vera heima þar til þú færð inni á hjúkrunarheimili þá ertu sendur á „hjúkrunarheimilið“ Vífilsstaði.

Vífilsstaðir eru eiginlega biðstöð en ekki hjúkrunarheimili. Hvað táknar það?

Jú, allar þær endurhæfingar sem þú hefur fengið að njóta til að byggja þig upp falla niður, nú færðu hvorki iðjuþjálfun eða sjúkraþjálfun! Þeirri færni og hæfni sem þú hefur þó náð er ekki haldið við á þessum biðtíma – sem getur verið margir mánuðir og jafnvel ár.

Það er sem sagt ekkert lengur að hlakka til og engin uppbygging á líkama og sál. Þú færð að liggja í rúminu frá því að þú vaknar og horfa á veggina ef ekkert annað vekur áhuga þinn. Jú, þú ferð fram í matsal og borðar. Einu sinni í viku er boðið upp á fyrirlestur eða einhvers konar uppákomu, það er öll afþreyingin, EN þú verður að muna eftir því sjálfur, eða aðstandendur, því starfsfólk man ekki alltaf að bjóða þér á fyrirlesturinn/uppákomuna.

Biðstöð, þar gerist ekki neitt. Þar er ekkert uppbyggilegt í boði, enginn starfsmaður sem sest niður með heimilisfólki og t.d. les blöðin með þeim, spjallar um daginn og veginn. Enginn sem hvetur þig til að sauma, prjóna, mála, smíða, syngja, lifa! Nei, ekkert! Þó svo að það sé hásumar og sól skíni í heiði þá er það ekki næg ástæða til að bjóða heimilisfólki upp á hálftíma úti í sólinni. Nei, enda væri það allt of mikið mál með lyftu sem er svo hægvirk að það tæki hálfan daginn að tæma deildina, fyrir nú utan að á ákveðnum tímum yfir daginn er ekki hægt að koma hjólastól út úr lyftunni þar sem matarvagnar bíða þess að vera sóttir úr húsi eða inn á deildir. Forvitnilegt væri að sjá framkvæmd á rýmingu ef t.d. eldur kæmi upp á Vífilsstöðum!

Það er heldur ekki hugað að því hvernig fólki er raðað saman til borðs í matsalnum. Andlega heilt fólk sem hefur fengið heilablæðingu en er með málstol (málstol = málhelti) er hiklaust látið með fólki sem er langt leitt af elliglöpum eða Alzheimer, eingöngu af því að það á erfitt með að tjá sig.

Svona meðferð á fólki verður til þess að það missir lífsvonina á örfáum mánuðum. Þegar það skortir gjörsamlega alla andlega og líkamlega aðhlynningu og andlegt atlæti þá tapar fólk lífsvoninni.

Einstaklingur nákominn mér er nýbúinn að eyða sínum síðustu mánuðum á Vífilsstöðum og tapa lífsvoninni þar. Við gerðum allt sem við gátum til að berjast á móti því, vorum dugleg að sækja hann og bjóða honum heim, fara með hann á tónleika eða í bíltúra. En það dugði ekki til því þetta var framtíðin sem hann sá fyrir sér, aðbúnaðurinn á Vífilsstöðum sagði honum að lífið væri búið.

Eitt sem kom okkur aðstandendum sérlega á óvart var hve oft ástvinur okkar datt og brotnði. Ég hefði áhuga á því að sjá tölur um það hve oft skjólstæðingar Vífilsstaða brotna meðan á veru þeirra stendur í samanburði við önnur hjúkrunarheimili. Er eðlilegt að heimilisfólk brotni oft?

Getum við ekki búið betur að þessu fólki? Þau hljóta að eiga það skilið.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283