Fréttatilkynning:
Ljóstrað verður upp um best varðveitta leyndarmál síðari ára í sjónvarpi sunnudaginn 21. febrúar. Þá verða sýndir tveir síðustu þættirnir í sjónvarpsþáttaröðinni vinsælu, Ófærð. Þar með syttist um viku biðin eftir það verði afhjúpað hver framdi morðin skelfilegu í íslenska smábænum. Þar með verður hulunni svipt af leyndarmálinu sem svo margir bæjarbúar vildu síður að liti dagsins ljós.
„Við vildum verðlauna áhorfendur fyrir frábærar viðtökur með því að stytta biðina og enda þetta með látum,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV.

Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV
„Það hefur verið alveg einstaklega gaman að fylgjast með vangaveltum við kaffivélarnar og á samfélagsmiðlum yfir ráðgátunni um hver morðinginn er og ennþá skemmtilegra verður að sjá viðbrögðin þegar því hefur verið ljóstrað upp. Það hefur verið magnað að sjá áhugann fyrir þáttaröðinni og hvetjandi fyrir RÚV en sem kunnugt er ákváðum við á síðasta ári að efla framboð á nýju leiknu efni og vonumst til að geta á næstu misserum haldið áfram að bjóða upp á leikið efni í fremstu röð.“
Allt bendir til að þessi helgi verði einhver allra mesta sjónvarpshelgin í manna minnum, því ekki einasta verður þá sýndur tvöfaldur lokaþáttur af Ófærð heldur verða úrslitin í Söngvakeppninni 2016 sýnd kvöldið áður í beinni útsendingu frá Laugardalshöll, laugardaginn 20. febrúar. Þar verður öllu tjaldað til enda verður því um leið fagnað að 30 ár eru síðan við tókum fyrst þátt í hinni vinsælu söngvakeppni, Eurosivion.
Ófærð hefur notið fádæma vinsælda síðan sýningar hófust 27. desember og að jafnaði fengið tæplega 60% áhorf, það mesta sem mælst hefur á þáttaröð, síðan rafrænar mælingar hófust árið 2008. Þá er óhætt að segja að Ófærð hafi slegið í gegn erlendis þar sem sýningar eru hafnar, í Noregi, Finnlandi og Frakklandi, og það á besta sýningartíma. Ríflega fimm milljónir manna horfðu á fyrstu fjóra þættina sem sýndir voru á mánudagskvöldið í Frakklandi. Þáttaröðin hefur að auki fengi jákvæða dóma og umsagnir í fjölmiðlum og meðal almennings á samfélagsmiðlum. Le Parisien gaf henni til að mynda fjórar af fimm stjörnum og jafnar henni við hina bresku Broadchurch að gæðum. Í Noregi hafa að jafnaði 500 þúsund manns horft í hverri viku sem er það besta gerist í norsku sjónvarpi.