Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Shakti dans – fullkomið flæði

$
0
0

Guðrún Arnalds Darshan skrifar:

Durgahof1„Þetta er eins og að dansa í gegnum jógatíma. Fullkomið flæði! Flæði sálar og líkama. Samspil sem leiðir inn í djúpa hugleiðslu og jafnvel hálfgerðan trans. Hvert skipti sem ég hef tekið þátt í Shakti dansi, hef ég fundið fyrir djúpum breytingum á sjálfinu,“ segir Hugrún Fjóla Hafsteinsdóttir sem hefur stundað shakti dans en hver er þessi dans?

Hvað er Shakti dans?

Á undanförnum árum hafa sprottið upp ýmsar aðferðir sem spegla leit okkar að kjarnanum í okkur sjálfum – mitt í öllu því áreiti og álagi sem við búum við. Við þurfum á því að halda að safna okkur saman og slaka á og um leið að gefa sköpunarkraftinum okkar lausan tauminn. Shakti dans er form af dansi og jóga sem hefur notið vaxandi vinsælda víða um heim. Jóga sem hægt er að dansa við. Þetta form af dansjóga leiðir saman visku jógafræðanna annars vegar og skapandi dansflæði. Með því að umbreyta dansi í jóga varð til form af jógaiðkun sem er full af skapandi lífsorku.

Dans fyrr og nú

Á Vesturlöndum hefur dans aðallega verið stundaður sem afþreying og skemmtun, en í gegnum söguna hefur dans verið stundaður sem leið til að tengja við okkur sjálf og við hvert annað. Og til að leiða saman samfélagið, fagna og njóta samvista hvert við annað. Í shakti dansi er hægt að snúa aftur til þessara djúpu samskipta og gleðinni yfir að dansa. Hver tími er einstakur og þróast á sinn eigin hátt í skapandi flæði. Shakti dans eykur jafnvægi á milli sálar og líkama í gegnum flæðandi jógastöður og dans og hjálpar okkur að þróa vitund okkar og skilning á líkama, huga og tilfinningum.

Shakti dans á Íslandi

Við erum svo heppin að eiga von á shakti danskennara frá Spáni í byrjun mars. Aragyua Simran Pal Kaur sem starfar ásamt því að kenna kundalini jóga og shakti dans sem dansari og „líkamsmálari“.

Shakti dans var þróaður af Avtar Kaur sem er þjálfaður dansari og hefur kennt kundalini jóga í yfir 20 ár. Hún er auk þess söng- og leikkona og segist hafa dansað allt sitt líf. Hún hefur hlotið þjálfun í fimleikum, tai chi, chi gung, ballett, jassballett, salsa, austrænum -, indverskum og afrískum dansi og shakti dans nærist á þessum ólíku hefðum hreyfingar. Hún er búsett í Róm.

Shakti – táknmynd sköpunarkraftsins

Shakti er táknmynd kvenorkunnar í jógafræðunum. Shakti stendur fyrir sköpunarorkuna í heiminum – frumsköpunarkraft sálarinnar. Shakti þýðir orka, kraftur, hreyfing, breyting, náttúra. Öll sköpunin verður til í gegnum helgan andardrátt hennar. Hún tjáir sig í gegnum sálina okkar og í gegnum hin mörgu mismunandi form lífsins. Shiva er hliðstæða hennar í formi karlorku. Shiva er hin tæra vitund sem ekki breytist. Óendanleg, ósveigjanleg, vitni alls sem við upplifum.

Í fornum vedískum ritum er talað um tvö form af Shakti. Maya shakti – sem er blæja blekkingarinnar og fær okkur til að týnast í dansi heimsins svo við gleymum uppruna okkar og uppsprettu. Við það týnum við líka sambandinu við okkur sjálf, tilganginn í lífinu og uppsprettu lífsorkunnar. Hin hliðin á Shakti er Cit Shakti – ljós viskunnar, kraftur meðvitundarinnar sem býr í hjörtum okkar allra og hvetur okkur til þroska og andlegrar vakningar.

Að koma jafnvægi á orkubrautir í gegnum dans

Shakti dans hefur eins og kundalini jóga þann fókus að vekja og víkka út vitundina til þess að sálin nái að skína í gegn (Kundalini shakti) í daglegu lífi. Shakti dans fléttar saman austrænan og vestrænan dansstíl, bæði klassískan dans og nútímadans og um leið hvílir fókusinn á undirliggjandi lögmálum forms og hreyfingar. Mismunandi tjáning á “geði” eða “innra veðri” (bhavas) og mismunandi form af dansi urðu þannig að aðgengilegum “verkfærum” til þess að velja á milli og skapa þannig nákvæma og jafnvægisgefandi örvun á innri orku. Shakti dans opnar og kemur jafnvægi á fíngerðar orkubrautir líkamans í gegnum hreyfingu í takti við andardráttinn – í flæðandi jógastöðum. Dansarinn öðlast hækkaða líkamsvitund og hugleiðsluástand ásamt tilfinningu fyrir léttleika, tærum huga og vellíðan.

Dans er eitt af tjáningarformum verundar okkar og getur verið eitt af hennar tærustu formum. Sálin skín í gegn þegar við erum mest í náinni snertingu við okkur sjálf. Þegar flæði líkamans er opnað í gegnum hreyfingu og vakandi athygli, þá verður dansinn að jóga. Þegar við losum um líkamlega spennu þá víkkar hugurinn sig út handan líkamans. Sofandi líkamshlutar vakna í krafti meðvitundar og orka tónlistar og tilfinninga flæðir á skapandi hátt í gegnum okkur. Með því að dýpka samband okkar við orkustöðvarnar vaknar hjá okkur næmni og fínleiki á hærri tíðni en áður. Líkaminn verður þannig hljóðfæri sem guðlega sjálfið okkar tjáir sig í gegnum.

Námskeið í Reykjavík

Helgina 5.–6. mars verður í boði helgarnámskeið í Shakti dansi í jógastöðinni Andartak. Hægt er að koma annan daginn ef vill. Kynningartími / masterclass föstudagskvöld – 4. mars kl. 19.45–21.45 (innifalinn fyrir þá sem fara á námskeiðið)

Shakti-dans-Simran-Pal

Araygua Simran Pal

Hver kennir:

Sara Atvar Kaur er Kúndalini kennari, heilari og dansari. Hún segir dansinn hafa alla tíð verið mikilvægan þátt í lífi sínu, og á unglingsárum kynnist hún Kundalini jóga og gerist síðar kennari um 19 ára aldur. Eftir því sem hún þróaðist sem kennari fór hún að taka dans-hreyfingar meir og meir inn í jógatímana sem vakti mikinn áhuga og forvitni hjá þeim sem þá sóttu. Hún fékk blessun sína frá Yogi Bhajan sjálfum á þessa nýju og áhugaverðu leið og hann hvatti hana til að þróa áfram dans sem byggðist á Kúndalini-jógafræðunum.
Atvar gerði það og til varð shakti dansinn. Hún ferðast víða og heldur reglulega námskeið í shakti dansi. Atvar er einnig mjög hæfileikaríkur söngvari og hefur gefið út CDs t.d. Shakti Lila og Mantric Grooves.

Shakti_dance_A5_270116_web


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283