Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Leigumarkaður í lamasessi

$
0
0

Síðustu ár hef ég verið ein af þeim ljónheppnu Íslendingum sem fá að njóta þess að vera á íslenskum leigumarkaði. Þeir sem þekkja mig vita að þessi fyrsta setning var kaldhæðni og fyrir ykkur sem þekkið mig ekki – þá vitið þið það núna.

Ég er með stóra fjölskyldu, á fimm börn á mismunandi aldri, og þar af börn sem ættu í raun að vera að feta sín fyrstu fótspor í að flytja að heiman. Staðan er samt þannig á húsnæðismarkaðinum í dag að það er þeim illmögulegt og þar af leiðandi búa þau með mér. Það í sjálfu sér er allt í lagi þegar allir leggjast á eitt og leggja sitt af mörkum sem hefur verið tilfellið hjá okkur.

Það að við séum stór fjölskylda á leigumarkaði hefur samt vissa annmarka í för með sér. Númer eitt þá erum við háð því að fá nokkuð stórt húsnæði til að rúma okkur öll, númer tvö þá er leiga fyrir slíkt húsnæði himinhá, eins og allt annað leiguhúsnæði reyndar líka, og númer þrjú, yfirleitt er um að ræða húsnæði þar sem eigendur fara tímabundið eitthvað annað og koma svo aftur heim til sín, sem myndi teljast eðlilegt þegar maður á húsnæði.

4436789909_5a9e33706f_b

Þannig að leigan er eitt ár til kannski tvö ef heppnin er með. Þetta hefur haft í för með sér tíða flutninga okkar og er svo komið að fimmti flutningurinn á fimm árum liggur handan við hornið.

Svona rót er ekki gott fyrir neinn, síst af öllu börn sem þurfa að hafa visst öryggi í lífi sínu hvað varðar búsetu, skóla, vini og fjölskyldu. Já, ég skrifa líka fjölskyldu því að þó að maður reyni að halda andliti og redda hlutunum þá hefur þetta rót sín áhrif á mann persónulega og eins og við vitum öll þá eru börn ákaflega nösk á að finna þegar mömmu eða pabba líður ekki sem best.

Nú hef ég verið mjög aktív varðandi umbætur húsnæðismála á Íslandi, er í leigjendasamtökum og hef þar af leiðandi verið í nefnd inn í Velferðaráðuneyti um framtíðaskipan í húsnæðismálum á Íslandi. Eins og þeir sem hafa fylgst með þá er ljóst að lítið sem ekkert hefur komist gang í þeim málum og er staðan á markaðinum í ólíðandi þegar þetta er ritað.

Leigumarkaðurinn er enn í lamasessi og lítið virðist eiga að gera í því í bráð. Nú þegar kjörtímabilið er hálfnað er enn ekki farið að byggja að neinu viti eða gera einhverja aðra hluti sem gætu stemmt stigu við hækkandi húsaleigu og óöryggi á leigumarkaði. Þetta sinnuleysi gagnvart húsnæðismarkaðnumi er samt ekki einsdæmi fyrir þessa ríkisstjórn því það virðist vera að húsnæðismál á Íslandi lúti geðþótta ákvörðunum og áhuga ráðherra hverju sinni og hingað til hefur sá áhugi ekki verið almenningi í vil.

Þá er ekkert eftir í stöðunni nema kaupa og það er illmögulegt fyrir marga. Greiðslumat bankanna gerir ráð fyrir að einstaklingur sé með um 500.000 útborgað eftir skatt til þess að hann hafi einhverja greiðslugetu og eigi helst ekki bíl. Þar fyrir utan hefur lánshlutfall til húsnæðiskaupa verið lækkað í 80%, sem væri alveg í lagi ef það hefði gerst á einhverjum árum því fólk eignast ekki 20% á móti yfir nótt.

Þegar horft er yfir sviðið þá er algjör pattstaða í gangi þegar það kemur að húsnæðismarkaðinum á Íslandi. Fjölskyldur og einstaklingar sitja fastir í óöryggi leigumarkaðar sem hefur ekki verið bættur síðan verkamannaíbúðarkerfið var og hét með meðfylgjandi félagslegu og fjárhagslegu óöryggi barna og fullorðinna. Kerfið gerir fjölmörgum einstaklingum erfitt fyrir með kaup þar sem það gerir ráð fyrir ráðstöfunartekjum til greiðslumats sem stenst ekki skoðun nema ef vera skildi einhvers meðaltals sem segir ekki neitt um raunstöðu fólks.

Að lokum hef ég bara þetta að segja og biðst afsökunar á orðavalinu fyrirfram en biðlundin er því miður búin. Það er komin tími til að girða í fokking brók, hætta að tala og byrja að gera í húsnæðismálum á Íslandi. Fólk getur ekki endalaust verið á vergangi, inn á öðrum og í allt of dýru húsnæði með öllu því félagslega og fjárhagslega óöryggi sem því fylgir.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283