Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Elsku vinkona

$
0
0

Höfundur vill ekki láta nafns síns getið.

Hvernig enduðum við hér? Hvað gerðist? Þetta er búið að vera svo dásamlegur tími. Aldrei hefði mig grunað að ég myndi eiga vinkonu eins og þig. Vinátta sem spannar næstum áratug, lífslíkur hennar í upphafi voru ekki miklar. Held að engan hefði grunað hversu sterkum böndum við ættum eftir að tengjast. Og þvílík bönd sem þetta eru. Þú hefur eitthvert heljartak á mér, ég vil ekki sleppa.

Elsku vinkona.

Þú hefur alltaf verið mér við hlið frá því þessi vinátta okkar hófst. Við höfum gengið í gegnum allt mögulegt saman og enn stöndum við sterkar. Hlið við hlið. Þrátt fyrir allt. Ég á þér svo margt að þakka. Hvað ætli við höfum hlegið mikið þessi ár? Ferðalögin okkar saman og þessi smitandi fíflaskapur. Þú átt mig skuldlaust.

En elsku vinkona.

Nú stöndum við á krossgötum. Þú ert að feta einhverja braut sem ég treysti mér ekki til að ganga með þér. Ég stend því við þröskuldinn og rígheld í þig. Því ég vil ekki sleppa. Ég vil ekki horfa á eftir þér hverfa. Þessi braut er svo hættuleg. Og þú veist það sjálf. Þú veist bara ekki hvernig þú átt að tækla þetta. Og djöflarnir sem standa í vegkantinum toga þig til sín. Þeir eru sterkari en ég. Þetta eru öfl sem við ráðum ekki við.

Elsku vinkona.

Þér líður svo illa. Þú setur upp þessa grímu. Ekki halda að ég taki ekki eftir því. Ég þekki þig betur en þetta. Þú platar mig ekki. Og þú reynir það heldur ekki. Þú reynir ekki að plata mig. En þú reynir það við alla aðra. Þessi gríma. Þú ert að flýja sjálfa þig. Þú heldur að þetta gleðiefni sé málið.

Elsku vinkona.

Þú ert svo hæfileikarík. Þú getur svo margt. Og þú hefur ætlað þér svo margt. En þetta gleðiefni er að stoppa þig. Það er að skemma svo margt og þú kemst ekkert áfram. Djöflarnir eru að ná þér. Þessi bönd okkar sem umlykja mig alla eru að slitna. Og ég græt. Þetta er svo sárt. Það er svo sárt að horfa upp á þig núna, elskan mín. Og geta ekkert gert. Þessir djöflar eru sterkari en ég. Fyrirgefðu mér.

Elsku vinkona.

Þú veist að ég elska þig. Og ég mun alltaf gera það. En líf mitt stefnir í aðra átt en þitt. Og ég hef reynt. Það veistu. Þú ert týnd. Djöflarnir mata þig á þeirri tálsýn að þetta gleðiefni sé málið. Aftur og aftur. Sérðu ekki? Sérðu ekki hvað er að gerast? Þú ert að hverfa. Lygin er að heltaka þig.

En elsku vinkona.

Það er enn þá ekki of seint að snúa við. Líttu við. Sjáðu mig. Horfðu í augu mín. Og taktu þá ákvörðun að snúa við og koma með mér til baka. Líf mitt stefnir í aðra átt, frá þessu. Komdu með mér. Ekki láta djöflana ná þér.

Elsku vinkona.

Þú ert mér allt. Göngum saman í burtu frá þessu. Við getum komist í gegnum þetta eins og allt hitt. Treystu mér.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283