Kristjana Sveinsdóttir:
Stundum velti ég því fyrir mér hvort ég sé yfir höfuð barngóð. Ekki misskilja mig, ég elska börn en verð að játa að mér leiðist samt óstjórnlega sumt „krakkastöff“. T.d. að púsla, kubba, leira, föndra, lita, spila lúdó og svoleiðis barnaviðfangsefni. Ég er búin að reyna aðferðina „fake it till you make it“ og hef beitt mig hörðu í svona leikstundum í gegnum tíðina. Hef mætt samviskusamlega í flestar skólaföndurstundirnar og reynt ýmislegt til þess að fá raunverulegan áhuga eða ánægju af þessu, en allt án árangurs.
Ég hef líka pínt mig í að leika þessa leiki með börnunum bara fyrir þau, af því þau njóta þessara stunda oft svo vel. Einhvern veginn finnst mér samt eins og þau sjái alveg í gegnum hvað mér finnst þetta í raun hrútleiðinlegt (þótt ég sé nú alveg ágætis leikkona). Það sama á við um útileikina. Það að fara með krakka út á róló og leika með þeim vekur með mér eirðarleysi og næstum kvíða, en sundferð, gönguferðir og grúsk úti í náttúrunni með grislingum hefur alltaf verið einlægt tilhlökkunarefni.
Bestu stundirnar með afkvæmunum hafa aftur á móti verið í samræðum um heima og geima, í söng, lestrar- og bullsögustundum. Eins finnst mér allt í lagi að rúlla bolta, verpa eggjum og alls konar dans- og hreyfileikir geta verið skemmtilegir.
Auðvitað veit ég að það að vera barngóður er ekkert endilega að hafa gaman af öllu því sem börnum finnst skemmtilegt. En það er áhugavert að pæla í þessu og svo er sagt að hollt sé að tengjast barninu í sjálfum sér. Trúlegast sitja börnin bara uppi með áhugasvið, persónuleika, kosti og galla foreldra sinna í þessu eins og öllu öðru.
Fjögurra og fimm ára aldurinn er í svolitlu uppáhaldi hjá mér þegar kemur að samræðum við litla fólkið. Á þessum aldri koma flest gullkornin því forvitnin er svo mikil og málgleðin, pælingarnar og spurningarnar í hámarki. Yngsta dóttir mín sem er á fimmta ári kætir okkur fjölskylduna með sínum frábæru tilsvörum, heimspekilegu vangaveltum og dásamlegum spurningum á hverjum degi. Hún er t.d. mikið að velta fyrir sér tilvist mannanna þessa dagana. Við morgunverðarborðið í morgun heyrðist upp úr tómu hljóði: „Á ég að segja þér hver gefur okkur hárið, mamma?“ Já, hver heldurðu að geri það, Viktoria mín?
„Það er guð, mamma, hann er líka dýr eins og við. Við erum dýr sem kunna að tala, svona manneskjudýr, en guð kann ekki að tala. Hann er svolítið öðruvísi dýr en við.“
Sú stutta er líka farin að velta fyrir sér framtíðinni. Hún gladdi mömmu sína um daginn með því að segja bílstjóra þjónustubílanna hjá Toyota frá lífsáformum sínum þegar við vorum á leiðinni að sækja burrann í viðgerð. Hún sagði honum (og hún hefur sagt þetta nokkrum sinnum) að hún ætlaði sko bara að verða venjuleg mamma þegar hún yrði stór. Bara ósköp venjuleg kona eins og mamma og líka skólakennari. Og líka að kenna þýsku í MR. Það væri sko bara best. Ég er ekki frá því að hún hafi brætt bílstjórann líka.
Þessir gullmolar koma þó ekki alltaf af góðu og stundum reynir á ákveðnina þegar kemur að því að ala litla fólkið upp. Sú stutta er afar ákveðinn persónuleiki eins og stóru krakkarnir mínir og það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera sjálfum sér samkvæmur í uppeldinu. Hún er t.d. farin að reyna verulega á þolmörk móður sinnar þegar kemur að verslunarferðum, því hún skilur bara ekki af hverju ég vil ekki kaupa handa henni allt sem hana langar í. Hún vælir, suðar, setur upp fýlusvipinn og reynir að telja mér trú um nytsemi kaupanna með alls kyns fortölum og málalenginum. Fyrir stuttu var mælirinn alveg orðinn fullur í miðri innkaupaferð í Nettó og ég hastaði á hana:
„Nei, heyrðu nú Viktoria, nú verður þú bara að halda þig á mottunni og hætta þessu suði.“ „En mamma,“ horfði hún þá á mig með óborganlega ergilegum svip í sama vælutón, „HVAR ER ÞESSI MOTTA???“
… Hvernig bregst maður við svona spurningum?