Stundin virðist hafa ákveðið að koma Katrínu Jakobsdóttur á framfæri sem forsetaframbjóðanda nr.1
Lagleg mynd á forsíðunni á síðasta blaði. Katrín hefur verið í sérstöku uppáhaldi hjá fjölmiðlunum – enda viðmótsgóð og vinamörg á meðal fjölmiðlafólks. Sérkennilegt þó að hugsa til þess að pólitíska umgjörð Katrínar er ákaflega langt frá því að vera úr þessu svona dæmigerða “vinsælda-umhverfi” yfirborðsfjölmiðlunarinnar.
Já; – þarna komum við kannski að því sem skýrir þetta allt saman. Framlag Katrínar Jakobsdóttur til stjórnmálanna er einmitt og einkum ekki fólgin í málflutningi hennar eða árangri við að ná fram sérstökum baráttumálum vinstri hreyfingar. Hún hefur hins vegar lagt mjög verulega að mörkum við að breyta pólitískri “ásjónu” VG – þar sem hún sker sig sterklega frá mörgum öðrum og mest áberandi framlínumönnum.
Það gildir bæði um kaffihúsmætingu og “mingl með menningarelítum” – og einnig kemur hennar mjög svo unglega andlit og einlæga upplit okkur flestum ákaflega þægilega ólíkt fyrir sjónar frá því sem þeir Ögmundur og Steingrímur sýna okkur og strigakjafturinn á Birni Val er ólíkur hennar framsetningu.
En hvað færði Katrín Jakobsdóttir til stjórnmálanna á niðurlægingartíma þjóðarinnar; – eftir Hrunið stóra?
• Katrín fékk reyndar ótrúlega góðan vinnufrið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu – allan tímann frá febrúar 2009 til og með maí 2013 – á meðan flestir aðrir stjórnmálamenn VG og SF stóðu meira og minna í ströngu með niðurskurð og hörmungar.
• Katrín Jakobsdóttir taldi að framlög til Hörpu ættu að fá sjálfsagðan forgang fram yfir fjárfestingar í sárpíndri umgjörð Háskólanna svo dæmi sé tekið (að maður minnist ekki á niðurmyglaðan Landsspítalann . . . . .)
• Katrín Jakobsdóttir lét algerlega hjá líða að lagfæra til nokkurs gagns hin hörmulegu OHF-væðingu Ríkisútvarpsins eða snúa henni til baka – né styrkja fjárhagsgrunn stofnunarinnar – þannig að Illugi Gunnarsson átti auðveldan leik að sauma að RÚV. Líklega hefur Kata haldið að þetta mundi allt vera gott og blessað með því einu að hún setti “sína flokksmenn og félaga” til stjórnarstarf í RÚV-ohf.
• Katrín setti endemislega reglugerð um löggildingu einkaskóla á grunnskólastigi – þar sem meðal annars enginn fyrirvari er gerður um starfsemi hagnaðardrifinna félaga eða takmörkun á möguleikum slíkra félaga til að taka fjármuni út úr rekstri sem kostaður er af opinberum framlögum. Ekki er nokkur leið að sjá að reglugerðin hafi verið sett af ráðherra í ríkisstjórn sem taldi sig til vinstri en ekki af ráðherra með lögheimili í Garðabæ og áskrifanda að “Silfurskeiðungnum ” eða öðrum klúbbritum forréttindastéttanna.
• Katrín setti takmörkuð fingraför á námskrárvinnu og skólaskipulag framhaldsskóla og háskólastigið; – en í fljótu bragði er ekki nokkur leið að greina að þar hafi verið neinn meginmunur á hennar framlagi og því sem t.d Björn Bjarnason áður lagði upp með; aukin miðstýring og gamaldags áherslur “elítuskólans” – samfara þröngsýnni rekstrarlegri nauðhyggju frá Excel-ráðgjöfum.
• Á ráðherratímanum stóð Katrín þétt við bakið á Steingrími J við að afhenda kröfuhöfunum endurreistu bankana – og ekki er vitað til þess að hún hafi sýnt því sérstakan áhuga að bankakerfið yrði skalað niður og yfirgangi og innheimtuhörku yrðu settar skorður.
• Þegar Icesave-samningur númer 1 (Svavarssamnningurinn) var gerður; – birtist Steingrímur J með samninginn og ætlaði að troða honum óséðum gegn um þingflokk VG og pressa stjórnarmeirihlutann til að reka hann í gegn um þingið (með hraði). Ekki varð nokkur maður var við að Katrín Jakobsdóttir legðist gegn þeim ósköpum – og gerði tilraun til að halda aftur af Steingrími; eða hvað?
• Ekki varð þess vart að Katrín Jakobsdóttir krefðist þess að þjóðin fengi tækifæri til að greiða atkvæði um Icesave nr.2 – eftir að Bretar og Hollendingar neituðu að fallast á fyrirvara Alþingis við Svavars-samninginn.
• Þegar síðan kom að því að fylgja eftir afgreiðslu frumvarps að nýrri stjórnarskrá sem hafði hlotið yfirgnævandi stuðning eða samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu – þá hikaði Katrín Jakobsdóttir ekki við að ganga í bandalagi við Árna Pál og Guðmund Steingríms til móts við Sjálfstæðisflokkinn og salta afgreiðslu stjórnarskrárfrumvarpsins – þótt ljóst mætti vera að stuðningur þriggja þingmanna Hreyfingarinnar kynni að duga til að afgreiða frumvarpið á ALþingi.
Er hún líkleg til að verða jákvæður og kjarkmikill forseti fólksins og farvegur fyrir beint lýðræði?
Er Katrín Jakobsdóttir ekki fyrst og frems eitt af fáum “andlitum stjórnmálanna” sem verður að teljast fyrst og fremst ekki “ó-geðfellt” og úfið – þótt hún bjóði kannski ekki upp á sérlega innihaldsríka og vel grundaða pólitík?
Með vísan til framlags Katrínar Jakobsdóttur til stjórnlagaumbóta og beins lýðræðis – og almennt til þess að sígildar áherslur vinstri og félagshyggju fengju framgang – þá spyr sá sem þetta ritar; – á hvaða forsendum ætti félagshyggjufólki og lýðræðissinnum að vera það eitthvert sérstakt áhugamál að koma Katrínu Jakobsdóttur í Bessastaði?