Mér finnst oft gaman að elda í hægum takti, dunda mér við undirbúning og láta matinn malla lengi í potti eða ofni. En það getur líka verið gaman að breyta einföldu hráefni í góðan mat á svipstundu (og nei, það er ekki gert með töfrasprota og Abrakadabra eins og ég var að tuða yfir á Facebook í dag vegna þess að ég er orðin hundleið á að sjá að einhver hafi „töfrað fram“ eitthvert góðgæti. Það eru engar töfrakúnstir i eldamennsku).
Eins og ég hef oft sagt er einn af mörgum kostum við fisk hvað hann er fljóteldaður, það tekur enga stund að matreiða einfaldan en ljúffengan fiskrétt og setja á borðið. Á laugardaginn var dótturdóttir mín í heimsókn, hún kom beint af æfingu í Mjölni og var glorsoltin og það var ég eiginlega líka.
Ég átti flak af Klausturbleikju sem kannski hefði ekki dugað fyrir tvo ef ég hefði bara haft salat með því eins og ég ætlaði reyndar upphaflega að gera, þegar það átti bara að vera handa mér. Það var frekar fátæklegt um að litast í ísskápnum, ég var ekki búin að gera helgarinnkaupin, en ég fann þó einn kúrbít og vorlauksbúnt. Og svo var til slatti í rjómafernu. Og ýmsar tegundir af pasta í eldhússkápnum.
Ég byrjaði á að hita saltvatn að suðu í potti og setja svona 150-200 g af tagliatelle út í. Stillti klukkuna á 11 mínútur.
Svo hitaði ég 1 msk af ólífuolíu á pönnu. Skar einn kúrbít í tæplega sentímetersþykkar sneiðar, setti á pönnuna, kryddaði þær með pipar, salti og óreganói og steikti þær við nokkuð góðan hita í 2-3 mínútur. Þá sneri ég þeim við og kryddaði þær á hinni hliðinni.
Svo ýtti ég þeim út til hliðanna, roðfletti bleikjuflakið og kryddaði það (með pipar, salti og óreganói), setti það á pönnuna og steikti áfram í 2 mínútur.
Ég var búin að skera niður þrjá vorlauka og saxa einn hvítlauksgeira smátt og þegar ég var búin að snúa bleikjunni stráði ég þessu á pönnuna á milli kúrbítssneiðanna og lét krauma áfram í 2-3 mínútur, eða þar til bleikjan var rétt steikt í gegn. Þá renndi ég pönnukökuspaða undir hana, tók hana af pönnunni og setti á disk en lét grænmetið vera kyrrt.
Ég hellti svo 175 ml af rjóma á pönnuna og lét sjóða niður í 1-2 mínútur.
Pastað var akkúrat soðið og ég hellti því í sigti og lét renna af því og hvolfdi því svo út í sósuna á pönnunni.
Blandaði þessu vel saman, lét krauma í 1 mínútu í viðbót, smakkaði og kryddaði aðeins meira.
Svo setti ég pastað á disk og lagði bleikjuflakið ofan á.
Flóknara var það nú ekki. Þetta tók allt saman 14 mínútur (tíminn sem fór í að hita pastavatnið að suðu ekki meðtalinn). Og var bara alveg ljómandi gott, um það vorum við dótturdóttirin sammála.
Bleikja með kúrbíts-tagliatelle
bleikjuflak, um 250 g
150-200 g tagliatelle
salt
1 msk ólífuolía
1 kúrbítur, meðalstór
óreganó
pipar
2-3 vorlaukar
1 hvítlauksgeiri
175 ml rjómi