Hvað er orka á leiksviði? Hvað er orka í mannlegum samskiptum? Og hvað er eiginlega líkamleg nærvera á sviði? Nærvera í mannlegum samskiptum? Þetta eru spurningar sem eiga fullan rétt á sér, ekki síst í samfélagi þar sem samskipti á milli okkar mannanna taka örum breytingum og þeim gildum sem kristallast í samskiptum manna á milli er snúið á haus. Sumir framtíðarfræðingar, til dæmis hinn sænski Åke E. Andersson, vilja meina að við séum óðum að yfirgefa iðnaðarsamfélagið, þar sem hugsað er í línulegum tíma og stefnum hratt og örugglega að samfélagi sem mótast af öðrum gildum en kapítalískum framleiðsluháttum iðnaðar. Framundan ku vera samfélag sem einkennist af síbreytilegri þekkingu, hreyfanleika og hreyfingu, nýbreytni í lausnum, vaxandi áherslu á menningu og mannlegri reynslu og – síðast, en ekki síst! – kvenlægum gildum og hringrásartíma.
Auðvitað kalla slíkar breytingar á að manneskjan sé skoðuð, orka hennar og nærvera. Orkan er það afl sem kemur þessum breytingum af stað, nærveran varðar fókusinn og staðfestuna sem manneskjan sýnir af sér, einurðinni við að breyta til hins betra og varanlega – hvaða listform er betur til þess fallið að fara í slíka rannsókn en einmitt dansinn? Athygli áhorfenda er þá óskipt á sjálfum líkamanum og þeim möguleikum sem hann býr yfir í hreyfingum, stöðum og samspili við aðra líkama.
KVIKAÁ MORGUN. #kvika #kvikadansverk #almostthere #milliondollarmoves #frumsýningarvika #þjóðleikhúsið #kassinnMiðapantanir á www.leikhusid.is & í síma 551-1200
Posted by Katrín Gunnarsdóttir on Wednesday, 2 March 2016
Katrín Gunnarsdóttir er ekki einasta dansari og danshöfundur, hún er líka hagfræðingur og það er spennandi blanda. Hún hefur einkum samið og sýnt sólóverk eða tveggjamannaverk og Kvika mun vera fyrsta sýning hennar með svo stórum hóp dansara og raun ber vitni, eða fimm alls. Og danshópurinn er reyndar ekki eingöngu samansettur af dönsurum: þarna er að finna Hilmi Jensson, leikara og Kristinn Gunnarsson, myndlistarmenn, báðir þó dansarar og dansmenntaðir, en með bakgrunn, reynslu, menntun og þjálfun úr öðrum listgreinum. Snædís Lilja Ingadóttir, Una Björg Bjarnadóttir og Védís Kjartansdóttir eru menntaðar úr mismunandi dansskólum á Íslandi og erlendis, atvinnudansarar.
Svo gefin sé stuttleg yfirsýn yfir byggingu verksins, skiptast þar á hópatriði, þar sem mest fer fyrir samstillingu hreyfinga og sólóatriði, þar sem hver dansari fær að njóta sín og vinna með sín einstöku tjáningartilbrigði. Verkið skiptist í margs konar líkamlegar byggingar þar sem hver tekur við af annarri, hreyfingarnar endurteknar í sífellu og dansararnir koma saman, snertast, fjarlægjast hvor annan og sambandið rofnar – þetta má segja að sé leiðarstef og þráður verksins.
Einkennandi fyrir Kviku er að það er mínímalistískt sem gefur jafnvel hinum smæstu hreyfingum aukið vægi og það er satt að segja ákaflega spennandi að fylgjast með þeirri þróun sem á sér stað á sviðinu – frá alls kyns tilbrigðum fótataks og stamps yfir í fíngerðar og nánast þöglar hreyfingar þar sem samkennd hópsins nær út yfir sviðsbrún og til áhorfenda.
Leikmyndin er einnig ákaflega mínímalistísk og er Eva Signý Berger höfundur hennar sem og hönnuður búninga. Hvort tveggja einkar vandað og vel unnið – leikmyndin nánast eins og fylgdi dönsurunum eftir í hreyfingum þeirra og þótt nær engar breytingar væru gerðar á leikmyndinni var eins og rýmið tæki á sig mismunandi myndir, breyttist í samræmi við athafnir dansaranna. Búningarnir voru sömuleiðis góðir eins og við má búast af Evu Signýju – hver búningur styrkti einstaklingseinkenni hvers dansara og gaf tjáningunni-hreyfingunni-stöðunni spennu og kraft en búningarnir unnu einnig skemmtilega saman sem heild og sköpuðu athyglisverð sjónræn tilbrigði.
Nánast þöglar hreyfingar, segi ég og já, þetta er ákaflega þögul sýning. Samt ekki alveg – í gegnum alla sýninguna heyrum við fimm einstaklinga anda og það er hreinlega þakkarvert að öndunin fær svo mikið og elskulegt rými í sýningunni. Er ekki öndunin uppruni alls, sem kvikt er? Þá heyrist fótatak dansaranna – hátt eða lágt eftir atvikum. Og það er ekki fyrr en í lokin að hljóðmyndin bætist við og verður líkt og punkturinn yfir i-ið þar sem dansinn er i-ið, nær hámarki sem verður bæði frelsandi upplifun og uppgötvun. Baldvin Þór Magnússon er skrifaður fyrir tónlist og hljóðmynd og hefur unnið í fallegu samræmi við dansinn. Hvort tveggja verður voldugur hluti af lokastemningu sýningarinnar.
Þá er reyndar ógetið þess hluta höfundarverks Katrínar sem vakti mesta aðdáun undirritaðs, og það er hversu bráðfyndin hreyfing líkamans getur orðið. Þetta þekkjum við vissulega af list látbragðsleikara, en fátíðara er að nútímadans bregði fyrir sig húmor. En hér það gert á ósvikinn hátt og svo vel að húmorinn birtist manni óvænt og skyndilega en hefur þó verið í mótun og undirbúningi alldrjúga stund – maður bara sá það ekki fyrr en lokahnykkurinn er rekinn í röð hreyfinga og þá verður húmorinn ljós.
Yfirleitt hefur sá, sem hér skrifar ekki séð ástæðu til að stíga sjálfur á svið og dansa, enda kannski ekki sérlega danslega vaxinn (ég veit, fordómar!) en hér langaði mig virkilega að ganga í lið með dönsurunum, fara upp á svið og taka þátt í því ritúali sem þar var framið. Reyndar er ritúal ekki rétt orð, því ritúalið byggir á endurtekningu, en hér var hver hreyfing ný og kvik, ókunn og þó ekki, á köflum óvænt og fyndin en alltaf spennandi og eftirsóknarverð.
Þjóðleikhúsið: Kvika
Danshöfundur og leikstjóri: Katrín Gunnarsdóttir
Dramatúrg: Símon Birgisson
Tónlist og hljóðmynd: Baldvin Þór Magnússon
Búningar: Eva Signý Berger
Lýsing: Aðalsteinn Stefánsson
Dansarar: Hilmir Jensson, Kristinn Guðmundsson, Snædís Lilja Ingadóttir, Una Björg Bjarnadóttir, Védís Kjartansdóttir