Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Áhugalausir og ábyrgðarlausir nemendur

$
0
0

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir skrifaði eftirfarandi pistil á vefsvæði Eyjunnar og gaf okkur leyfi fyrir birtingu hér:

10623576_10206574808635035_8579529958119507551_o

Síðastliðið haust hóf ég nám mitt til kennsluréttinda á framhaldsskólastigi í stjórnmálafræði. Námið er ný námsleið til meistarprófs í fagi nemandans. Fyrir hef ég BA gráðu í stjórnmálafræði og diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu. Eftir námið í stjórnmálfræðinni starfaði ég við Háskóla Íslands í nokkur ár m.a. sem verkefnisstjóri rannsóknar á íbúalýðræði. Ég hef tekið þátt í stjórnmálum í Hafnarfirði, hef lengi haft áhuga á menntamálum og sat í fræðsluráði Hafnarfjarðar á síðasta kjörtímabili. Valdefling ungs fólks og þátttaka er sérstakt áhugasvið mitt. Námið til kennsluréttinda hefur verið mjög skemmtilegt, fróðlegt og gefandi.

Í vetur hef ég verið í vettvangsnámi í framhaldsskóla hér í borg. Í því felst að fylgjast með kennslu kennara skólans og kenna sjálf ákveðinn fjölda kennslustunda yfir veturinn.

Ég á sjálf tvær dætur, önnur er útskrifuð úr framhaldskóla og hin er að innritast í haust.

Áður en ég hóf námið hafði ég óljósa hugmynd um að ungt fólk væri í einhverjum mæli áhugalaust um nám sitt og samfélag. Ég taldi víst að ef ég væri nægilega áhugasamur kennari gæti ég glætt áhuga þeirra á náminu og samfélaginu.

Það kom mér mjög á óvart að nemendur eru miklu áhugalausari um nám sitt og samfélag en mig óraði fyrir. Svo áhugalausir að þeir eru næstum meðvitundarlausir upp til hópa.

Mæting nemenda í tíma er sérstakt vandamál. Til þess að laga mætingarskráningu röfla nemendur í sífellu við kennara. Símanotkun er annað vandamál. Nemandi sem er í símanum (á netinu) er ekki í tíma, hann er andlega fjarverandi. Símanotkun er bönnuð en er engu að síður viðvarandi vandamál.

Í hverri kennslustund sem ég hef kennt í vetur hef ég beðið nemendur að lesa heima eða gera lítil verkefni fyrir næsta tíma. Það er alger undantekning ef því er sinnt, 98% nemenda gera ekkert milli tíma. Ég bað þau að horfa á fréttir í eina viku um daginn. Tveir nemendur horfðu í eitt skipti á fréttatíma (af 30 nemendum).

Þegar brjóta á upp kennslustund með hópavinnu eða öðrum verkefnum malda nemendur iðulega í móinn.

Ég hef reynt að eiga samtöl við nemendur um hin ýmsu málefni. Í einstaka tilfellum gengur það vel sérstaklega ef um eldri nemendur er að ræða. Ekki þýðir að ræða við þau um námsefnið því það hafa þau ekki lesið. Á þessu eru auðvitað undantekningar sem vekja bjartsýni en þær eru svo fáar að það tekur því næstum ekki að nefna þær.

Eftir þessa upplifun mína er ég mjög hugsi og velti því fyrir mér hvort þetta hafi alltaf verið svona eða hvað hafi eiginlega gerst??

Undanfarnar 2 vikur hef ég verið í Bandaríkjunum og heimsótti þar 3 skóla sem hafa lýðræðislega uppbyggingu í skólastarfinu. Það var mjög áhugaverð upplifun sem ég ætla að reyna að skrifa um hér fljótlega.

Sigurlaug Anna er stjórnmálafræðingur, kennaranemi, Hafnfirðingur, Garðbæingur og hestakona.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283