Kristjana Sveinsdóttir skrifar:
Vikan hefur verið með ólíkindum. Ég bjóst alls ekki við að bloggið sem ég skrifaði „Í fjötrum ofbeldis“ myndi vekja svona mikla athygli. Tilfinningarnar sem bærðust innra með mér við að opinbera þennan glæp sem ég hef burðast með í næstum tvo áratugi voru samt blendnar.
Daginn eftir að skrifin birtust í Kvennablaðinu leið mér svolítið eins og ég væri nakin í vinnunni. Ég var berskjölduð og skömmin var enn til staðar þótt dómgreindin segði mér að ég hefði ekkert til að skammast mín fyrir.
Daginn eftir birtist greinin í fleiri fjölmiðlum og ég upplifði áfram leifar af skömm og þreytu, en á sama tíma var ég líka sátt við að hafa þorað. Um kvöldið átti ég svo samtal við manneskju sem ég treysti mjög vel og þá kom allt í einu frelsið frá skömminni. Því laust skyndilega niður í huga mér. Af hverju ætti það að vera erfiðara að koma fram í fjölmiðlum og segja frá nauðgunarglæp heldur en t.d. hnífstungu?
Er ofbeldi ekki alltaf ofbeldi, sama af hvaða toga það er? Segjum sem svo að ég hefði verið stungin með hníf þessa nótt en ekki nauðgað. Hefði ég hikað við að koma fram í fjölmiðlum eftir það? Upplifir fólk skömmina sterkar í sambandi við nauðganir af því það tengir hugsanlega nauðganir við kynlíf?
Sennilega er styttra í blygðunarkenndina þegar kemur að kynferðisglæpum en öðrum glæpum vegna þeirra líkamsparta sem verða fyrir ofbeldinu í kynferðisafbrotum.
Það er samt algjörlega ljóst að nauðgun á ekkert skylt við kynlíf og tengist því á engan hátt. Grundvallarmunurinn liggur í veittu samþykki beggja aðila sem er aldrei fyrir hendi þegar um nauðgun er að ræða.
Mér finnast afleiðingarnar af ofbeldinu sýna þetta svo skýrt.
Í mínu tilfelli voru líkamlegu afleiðingarnar ekki verstar nema í þau skipti sem ég gekk í gegnum barnsfæðingar, en ég tengi afleiðingarnar sterkt við fæðingar barnanna minna sem voru mjög erfiðar. Rannsóknir hafa líka staðfest þetta og sýnt að neikvæð upplifun af barnsfæðingum sé mun algengari hjá þolendum nauðgana.
Afleiðingarnar hjá mér voru annars fyrst og fremst af sálfræðilegum toga. Sú afleiðing sem situr hvað fastast ásamt sjálfshöfnuninni er sjálfsefinn en hann lét líka á sér kræla í vikunni þegar ég las pistilinn minn aftur.
Þá kom ég auga á ákveðna staðreyndavillu sem ég hafði gert í sambandi við árafjöldann sem hafði liðið frá árásinni. Það hafði verið erfitt að rifja þetta atriði upp í skrifunum, ég var í hálfgerðri leiðslu og þegar ég var að reyna að rifja upp hvaða ár árásin hafði átt sér stað virðist ég hafa talið öfugt.
Það sem svo hjálpaði mér við að muna hvenær þetta hefði gerst var að dóttir mín var þarna á þriðja aldursári en hún verður tvítug í haust. Einhvern veginn fékk ég það út þegar ég var að skrifa að það hefðu verið 22 ár síðan.
Það hversu erfiðlega gekk að rifja ákveðin atriði upp sýnir í raun mjög vel hversu kirfilega atburðinum var komið fyrir í skúffunni „góðu“.
Ég þurfti líka að rifja upp hvar ég bjó, að ég var í miðjum prófum og reyna að muna hvernig allar aðstæður mínar voru á þessum tíma. Þá fyrst gat ég leyft minningunum að streyma fram og það reyndist mér auðveldara með því að skrifa þær niður um leið.
Eftir allar þær hugleiðingar sem ég hef eytt í vikunni um þennan atburð er ég sannfærð um að ég er búin að velta risastórum steini í úrvinnslunni á þessu máli.
Í morgun leið mér eins og nýrri manneskju, var endurnærð eftir óvanalega góðan nætursvefn og óskaplega SÁTT við að hafa leyft þessari reynslu að líta dagsins ljós.
Ég hef líka fengið fregnir af því að hún er farin að hafa áhrif til góðs fyrir fleiri og fyrir utan ávinninginn fyrir mig persónulega er það gjöf sem er ómetanleg í mínum huga.