Þessa dagana er ég á fullri ferð í sjálfsvinnu og fer nánast hver einasta lausa stund í hana. Eitt af því sem ég hef verið að gera er að taka eina mynd á dag út um baðherbergisgluggan hjá mér og setja á Fésbókarsíðuna. Mér finnst gott að láta uppbyggjandi texta fylgja með, bæði til að minna sjálfa mig á það góða í lífinu ásamt því að lífga aðeins upp á fréttaveituna hjá Fésbókarvinum sem annars er full af stríðsfréttum, pólitískum hatursræðum og einstaka krúttlegum kisa.
Í mánuðinum tók ég svo fyrir Geðorðin 10 sem ég kryddaði ýmist með persónulegri reynslu eða viðeigandi tilvitnunum sem ég gróf upp á netinu. Ég vil fá að deila myndunum ásamt textunum með lesendum Kvennablaðsins með von um að þær lífgi upp á daginn hjá sem flestum.
Að tala stöðugt um vandamálin sín er leiður ávani sem margir kannast við. Hvernig væri að brjóta upp vanann og reyna frekar að tala um það sem er ánægjulegt í lífinu?
Geðorð nr. 1: Hugsaðu jákvætt, það er léttara
Allt byrjar með þér.
Ef þú hlúir ekki vel að sjálfum/ri þér… Verðurðu aldrei nógu sterk/ur til að hlúa að nokkru öðru í þínu lífi. Að elska sjálfan sig er ekki merki um sjálfselsku heldur er það merki um að einstaklingur hefur lært að elska sjálfan sig nóg til að bera ástina og kærleikann áfram til annarra.
Geðorð nr. 2: Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
Að átta mig á því að það er ekkert til sem heitir heilagur sannleikur hefur drifið mig áfram í að læra.
Heimurinn er skóli þar sem allir eru kennarar og svo lengi sem maður lifir er alltaf hægt að bæta við þekkingu sína.
Að spyrja spurningar lætur þig kanski líta fáfróðan út í nokkrar mínútur en ef þú spyrð aldrei verðurðu fáfróður allt þitt líf.
Geðorð nr. 3: Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir
Ég læri aldrei eins mikið í lífinu og þegar ég geri mistök.
Að gera mistök er mannlegt og eðlilegt.
Að gleyma öllum sínum sigrum í lífinu við ein mistök er niðurbrjótandi og kennir engum neitt.
Að sætta sig við mistök, horfa á þau gagnrýnum augum og læra af þeim er eitthvað sem virkilega gott er að venja sig á.
Geðorð nr. 4: Lærðu af mistökum þínum
Að ganga úr sér vont skap eða leiða lund er dásamlegur möguleiki í lífinu.
Ég geng aldrei eins hratt eða mikið og þegar ég er reið eða pirruð en eftir labbið líður mér undantekningalaust betur.
Ef ég bara hefði vit á því að labba líka þegar ég er í góðu jafnvægi andlega … Talið er að reglubundin hreyfing bæti geðið og mótstöðu þess við t.d. þunglyndi.
Það er reyndar ekki að marka hreyfingarleysið þegar enn þá allt er á kafi í snjó. Labba örugglega helling í sumar (ekki að það sé afsökun … eða þannig)
Geðorð nr. 5: Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina
Saknarðu einhvers? Hringdu í viðkomandi!
Er einhver sem þig langar að hitta? Hafðu samband og settu niður hitting!
Langar þig til að fólk skilji þig? Útskýrðu fyrir þeim!
Langar þig að fá svar við spurningu? Spurðu þá!
Finnst þér eitthvað óþægilegt eða leiðinlegt? Segðu frá því!
Finnst þér eitthvað ánægjulegt? Hafðu orð á því!
Er eitthvað sem þig langar í eða þarft? Biddu um það!
Elskarðu einhvern? Segðu honum/henni það!
Geðorð nr. 6: Flæktu ekki líf þitt að óþörfu
Það eiga sér allir sögu og sú saga endurspeglast í viðbrögðum þeirra og framkomu. Enginn er fífl að ástæðulausu, eitthvað hefur einhvern tímann komið fyrir í lífi þess sem bregst við eins og fífl sem gerir það að verkum að hann bregst við eins og hann gerir.
Ég hef oft í lífinu brugðist við aðstæðum eins og fífl og geri það jafnvel enn þann dag í dag. Í dag er ég í stöðugri leit að ástæðum fyrir hegðun minni og þegar ástæðan er fundin er hægt að ráðast í svokallaða „endurformötun“ sem snýst út á að laga viðbrögð mín við ákveðnum aðstæðum.
Ég trúi því heitt að þessi vinna eigi eftir að gera mig að betri einstaklingi.
Geðorð nr 7: Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig
Ef einhver hefði reynt að segja mér fyrir 5 árum að árið 2016 ætti ég eftir að búa uppi í sveit með yndislegum kærasta, lyfjalaus, og umvafin elskulegum dýrum þá hefði ég talið sá hinn sama snælduvitlsusan. En í dag er ég á nákvæmlega þeim stað.
Áður fyrr setti ég mér fjöldann allan af skammtímamarkmiðum sem brugðust jafn óðan. Það skilaði sér svo í sjálfsniðurbroti og volæði.
Í dag set ég mér fá langtímamarkmið. Eitt af þeim er að verða sátt með sjálfa mig og það sem ég geri.
Geðorð nr. 8: Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup
Þegar ég sat í myndmenntartímum sem barn og horfði á verk hinna barnanna við hliðina á mínum þá hefði mig aldrei órað fyrir því að listgreinar væru þær greinar sem ættu eftir að liggja best fyrir mér sem fullorðnum einstaklingi.
Ég hef ánægju af því að skapa og mér ferst það ágætlega úr hendi þannig ég hef hugsað mér að halda því áfram svo lengi sem ég dreg andann.
Geðorð nr. 9: Finndu og ræktaðu hæfileika þína
Mig dreymdi um að flytja í sveit. Sá draumur tók sér bólfestu um 5 ára aldur. Fólk sagði að ég gæti ekkert bara flutt í sveit, það væri dýrt, ég væri ekki búfræðingur og svo fékk ég reglulega spurninguna um hvað í ósköpunum ég ætlaði að gera þar.
Í dag er ég fátækur „listamaður“ með brennandi áhuga á dýrum sem bý út í sveit. Ég flæki ekki hlutina ef ég kemst hjá því. Ef ég vil búa í sveit þá flyt ég í sveit þrátt fyrir að fólk með allt annan bakrunn en ég segi mér að það sé óraunhæfur kostur.
Geðorð nr. 10: Setttu þér markmið og láttu drauma þína rætast