Ég er að reyna að átta mig á atburðarás síðustu daga. Óheilindi stjórnarherrans Sigmundar Davíðs og þær varnir sem liðsmenn hans hafa gripið til vekja ugg og sú tilætlunarsemi að almenningur láti sér fátt um finnast og sætti sig við þokukenndar eftiráskýringarnar er óbærileg.
Það er eðlilegt að fólk sé undrandi og reitt. Það er ekki skrýtið að fólki sé misboðið.
Fátt er verra en að láta ljúga að sér. Maður er auðmýktur og upplifir fyrirlitningu þess sem lýgur að manni og eftir situr í manni tilfinningin: Nújá, þér finnst ég ekki meira virði.
Í spuna þeirra hjóna Sigmundar og Önnu Stellu undanfarna sólarhringa felst sú staðreynd að þeim finnst við ekki vera mikils virði. Með spunanum sýna þau óhugnanlega djúpstæða fyrirlitningu á íslenskum almenningi.
Og undarlegast af öllu er svo að vera vændur um dónaskap þegar maður andmælir því að sólin komi upp í vestri.
Óttarr Proppé þingmaður Bjartrar framtíðar talaði á Alþingi í fyrradag. Hann spurði einfaldlega: „Hvað varð um hið nýja Ísland?“ – og gerði Rannsóknarskýrslu Alþingis, nánar til tekið siðferðiskaflann, að umtalsefni. Óttarr er ekki átakapólitíkus en hann er heiðarlegur maður og í orðum hans fólust djúp vonbrigði og örvænting. Þá örvæntingu tel ég að margir upplifi núna. Ætluðum við ekki að læra af Hruninu? Ætluðum við ekki að svipta burt leyndarhjúpnum og taka hér til?
Vinstri græn kölluðu strax eftir stjórnarslitum, greinilega án samráðs við aðra stjórnarandstöðuflokka, og maður spyr sig hvort stjórnarandstaðan tali hreint ekkert saman. Svandís Svavarsdóttir þráspurði eftir forsætisráðherra á Alþingi í gær og það duldist engum hvers máli hún talar, hún talar óhrædd máli þeirra sem eiga heimtingu á svörum. Íslensku þjóðarinnar.
Hvers vegna þegir Samfylkingin þunnu hljóði? Er þeim ekkert misboðið? Getur þessi flokkur ekki einu sinni á svona stundum talað máli venjulegs fólks, fólks sem vill búa í samfélagi þar sem gerð er krafa til stjórnmálamanna um heiðarleika? (Mér er reyndar kunnugt um að Árni Páll muldraði eitthvað). – Hvar er réttlætiskennd Samfylkingarinnar? Hvenær segir þetta fólk: Nú er nóg komið! – Hvað þarf eiginlega til?
Það er öllum nákvæmlega sama hver leiðir flokk þar sem það er á huldu hvenær siðferði stjórnmálamanna skiptir máli og hvenær ekki. Samfylkingin er svo sérhlífinn og ógestrisinn flokkur að þar vill enginn búa.
Framsóknarflokkurinn er í bullandi kosningabaráttu með laskaðan forsætisráðherra sem gefur ráðherrum sínum engan vinnufrið. Flokkurinn hefur ítrekað sýnt og sannað að hægt er að etja fólki saman um smátt og stórt, skapa glundroða og tryggja sér atkvæði ringlaðra og óupplýstra. Það eru ekki góð stjórnmál.
Ýmsar framsóknarfrúr hafa reynt að vernda sína vinkonu en við þær segi ég: Ekki óhreinka ykkur á þessu. Leyfið fólkinu að súrsa sína fölsku héra eitt og óstutt, það er ekki víst þegar upp er staðið að hérastappan verði ykkur til heilsubótar. Frosti, sem er nú frekar manneskjulegur alla jafna, missti kúlið og trúverðugleikann í dag. Þetta voru sannarlega þín vikulok, Frosti, og okkur er öllum lokið.
Allir eru velkomnir til Pírata: frjálslyndir, anarkistar, íhaldssamir, jafnréttissinnaðir, vinstrisinnaðir, bleikir, bláir, röndóttir, byltingarsinnaðir – allir bara – og þeir eru allavega sammála um að kalla sig pírata og að skilja píratisma og ef maður skilur ekki eitthvað í framsögu þeirra þá er maður ekki pírati og skilur ekki píratisma. Afsakið meðan ég handfjatla hænu.
En þeir mega eiga það að þeir rífast innbyrðis opinberlega, fara ekki í manngreinarálit og eru virkilega að reyna að byggja pólitískan samastað fyrir fólk. Þeir vilja að almenningur hugsi og skilji stjórnmál og taki þátt í því að móta sitt eigið samfélag. Ég veit ekki hvort þeim tekst það, ég er hrædd um að fólki finnist þeir ekki hafa bolmagn til breytinga, sér í lagi ekki þegar það verður trekk í trekk ljóst að hér ríkir ekkert gagnsæi, að íslensk pólitík byggist enn á aldagömlum átökum hagsmunaafla sem spinna eitraðan þráð sinn um allt samfélagið, um allar sveitir eins og ódrepandi myglusveppur.
Helgi Hrafn pírati er uggandi og telur ástandið grafalvarlegt en píratar hafa ekki enn viljað leggja fram vantrauststillögu. Hvar er kjarkurinn þegar á reynir? Er það taktík að bíða og vill þá einhver útskýra þá herkænsku fyrir mér? Trúa þeir ekki að fylgið sem þeir fá í öllum könnunum sé raunhæft, eru ekki kröfur þeirra gagnsæi, gagnsæi og enn meira gagnsæi?
Núna eigum við heimtingu á gagnsæi og að sá flokkur sem fyrir því talar sýni það í verki.
Er ég að kalla eftir afdrifaríkum uppákomum á Alþingi, að stjórnarandstaðan hefði átt að taka SDG í gíslingu og krefja hann svara á föstudaginn þegar hann mætti til að ræða hugðarefni sín, minjamál, en lét svo ekkert sjá sig og faldi sig í húsinu? Nei, ekkert endilega, og þó, ég viðurkenni að ég er dálítið fyrir uppákomur og óeirðir.
Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé ófínt og hallærislegt að mótmæla þegar fólki er misboðið. Ég er afturámóti klárlega þeirrar skoðunar að það sé ófínt og hallærislegt að láta bara aðra um það.
Ég skil greinilega illa þingsköp og það leikrit sem sýnt var við lítinn fögnuð þátttakenda og áhorfanda í þingsal síðasta vinnudag fyrir páska. Forseti Alþingis er slakasti leikstjóri sem ég held að finnist á byggðu bóli. Aðalleikarinn er í húsinu, í jakkafötum sem passa, aukapersónurnar kalla á hann, en hann felur sig bara í kúlissunum, kvalin af sviðsskrekk og neitar að koma á svið. Skyndilega er leikritið honum ekki samboðið, leikrit sem hann samdi þó sjálfur og þröngvaði frímiðum upp á þjóðina. Af hverju stendur leikstjórinn ekki á fætur og nær í manninn!
Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðismanna var nógu heiðarlegur í Vikulokunum í dag til að tala eins og honum býr í brjósti og skóf ekkert utan af því. Það ber að meta nú þegar fáir treysta sér til að segja sannleikann. Ég trúi Bjarna Benediktssyni þegar hann segist ekki hafa vitað um ráðahag Wintris-hjónanna og ég get ekki ímyndað mér annað en að staða fjármálaráðherra með þennan forsætisráðherra sé alveg skelfileg. Ég geri ráð fyrir því líka að umræða um fjárreiður ráðherra sé ekkert þægileg fyrir Bjarna. En það stendur upp á hann að slíta stjórnarsamstarfinu núna. Ef hann gerir það ekki þá verður stjórnarandstaðan að taka sig saman og losa okkur undan þessu oki. Við þetta verður ekki unað.