Skrifað á Facebook 24. mars 2016
Þær eru blendnar þær tilfinningar og hugsanir sem sitja í mér eftir lestur sýknudóms héraðsdóms Suðurlands gagnvart þeim Berki Birgissyni og Annþóri Kristjáni Karlssyni. Annþór og Börkur voru ákærðir fyrir að ráðist á samfanga sinn, Sigurð Hólm Sigurðsson, með þeim afleiðingum að Sigurður lést.
Við Atli Þór Fanndal höfum rannsakað þetta mál saman í rétt rúmlega ár. Við vorum lengi að skrifa fyrstu greinina okkar því við trúðum eiginlega ekki að Annþór og Börkur hefðu raunverulega haft stöðu grunaðra á jafn veikum grunni og rannsóknargögn málsins báru vitni um. Og það í heil þrjú ár þegar þarna er við sögu komið. Það hlyti að vera eitthvað í gögnum málsins sem okkur hafði yfirsést, það hlyti að vera eitthvað meira. Við skoðuðum gögnin í bak og fyrir og fengum ekki séð hvernig ákæruvaldið gæti raunverulega álitið sem svo að líklegt væri að ákæra myndi leiða til sakfellingar.
Varfærnin hélt þó áfram aftur af okkur um stund. Við vissum að það yrði ekki endilega auðvelt að skrifa greinar þess efnis að Annþóri og Berki, dæmdum ofbeldismönnum, sætu undir þungum ásökunum um alvarlegan glæp án haldbærra sönnunargagna fyrir sekt þeirra. Við vissum að fyrir flestum voru þeir nú þegar sekir.
Við ákváðum því að stíga varlega til jarðar og segja fyrst frá því sem við gátum verið alveg viss um. Þannig hefðum við meiri tíma til þess að fínkemba málsgögnin sem við höfðum undir höndum til þess að tryggja að okkur hefði ekki yfirsést neitt í sönnunarfærslu lögreglunnar og ákæruvaldsins. Þangað til hefðum við úr nógu að vinna einfaldlega með því að segja frá þeirri meðferð er Annþór og Börkur þurftu að sæta allt frá því að þeir losnuðu úr gæsluvarðhaldi, þremur vikum eftir andlát Sigurðar í maí árið 2012.
Áður en lengra var haldið fannst mér þó mikilvægt að skrifa almenna grein um réttarríkið áður en við hæfum umfjöllun um mál þeirra Annþórs og Barkar. Ég hafði það á tilfinningunni að margir myndu ekki skilja hvers vegna við kysum að eyða tíma okkar og orku að skrifa um réttindi dæmdra brotamanna. Margir gætu jafnvel orðið okkur reiðir og litið svo á að þar með værum við að líta framhjá þeim brotum sem þeir höfðu þegar verið dæmdir fyrir. Með greininni langaði mig að koma því til skila að tíma okkar Atla og orku var eytt í góðan málstað: Réttarríkið okkar.
Úr greininni:
„Réttarríkið er samofið sögu þess að mennirnir hófu að setja lög til þess að stjórna samfélögum sínum. Það mætti líta á hugmyndafræði réttarríkisins sem ákveðið verkfæri til þess að beita gegn valdníðslu stjórnvalda. Verkfæri sem mannskepnan hefur þróað með sér í árþúsundir.
Til þess að lög hafi gildi, til þess að réttlæta tilvist þeirra og að þeim sé fylgt eftir í samfélagi manna þurfa þau að vera birt opinberlega, framfylgd þeirra má ekki fara í manngreinarálit og ágreining um þau skal leysa fyrir hlutlausum og sjálfstæðum dómstólum. Þar að auki þurfa lögin sem um ræðir að vera í samræmi við alþjóðleg mannréttindi og staðla sem þeim tengjast.“
Til þess að réttarríkið okkar sé einhvers virði verður það að halda utan um alla borgarana sína án mismununar. Líka dæmda brotamenn. Reyndar verður það að halda alveg sérstaklega vel utan um dæmda brotamenn sem sitja í fangelsi. Frelsissviptir einstaklingar hafa mjög takmarkaða getu til þess að standa vörð um réttindi sín gagnvart ríkinu til jafns við þá sem strokið geta um frjálst höfuð.
Ef við viljum búa í heilbrigðu réttarríki er nauðsynlegt að allir njóti sanngjarnrar málsmeðferðar, sama hvaðan þeir koma, hverjir þeir eru eða hvað þeir eru ásakaðir um að hafa gert. Ríki sem refsar borgurum sínum fyrir að brjóta af sér en brýtur svo á þeim í sinni vörslu er ekki réttarríki og slík fyrirkomulag er ekki líklegt til þess að leiða af sér að hinn brotlegi sjái að sér að refsingu lokinni. Ég vil ekki búa í slíku samfélagi.
Við skoðun okkar Atla á meðferð stjórnvalda á þeim Berki og Annþóri varð ljósara með hverjum deginum að þeir voru ekki borgarar í réttarríkinu okkar. Þeir nytu ekki réttarverndar til jafns við aðra, til þess væru þeir ekki álitnir nógu góðir menn, að því er virtist allavega.
Dæmi um þetta viðhorf gagnvart þeim Annþóri og Berki mátti sjá á framkomu Páls Winkel, forstjóra Fangelsismálastofnunar þegar ljóst var að lögregla hafi sóst eftir gæsluvarðhaldsúrskurði gegn þeim vegna málsins. Forstjórinn brást við með hraði og mætti galvaskur í fjölmiðla til þess að upplýsa land og þjóð um að ekki tæki betra við þegar verðandi vörslu lyki.
Í viðtali við Vísi þann 25. maí 2012 lét Páll meðal annars þessi orð falla um áform sín gagnvart Annþóri og Berki:
„Það tekur okkur einhvern tíma að tæma þennan öryggisgang, en það verður klárt þegar nýting hans verður nauðsynleg og öll réttindi manna sem þar verða vistaðir verða í löglegu lágmarki.“ Um leið og Annþór og Börkur losna úr einangrun munu þeir fara á öryggisganginn. „Það er frágengið,“ segir Páll. „Þar verða engir aðrir en þeir og ef aðrir fangar hegða sér með einhverju svipuðu móti þá fara þeir þangað inn líka.“ Þá bætir Páll við: „Við verðum bara að athuga það út frá þeim lagalega ramma sem við vinnum eftir hversu mikið við getum lokað þessa menn inni.“
Páll stóð við orð sín og úr varð að Annþór og Börkur voru umsvifalaust vistaðir í einangrun á svokölluðum öryggisgangi Fangelsisins á Litla-Hrauni. Þar máttu þeir dúsa saman tveir í 18 mánuði án þess að lagaheimild væri fyrir tilvist öryggisgangs yfirhöfuð, hvað þá vistun þeirra þar. Fangelsisyfirvöld beittu síðan lagaklækjum til þess að komast hjá því að Annþór og Börkur hefðu raunverulegan möguleika á því að áfrýja ákvörðun fangelsismálayfirvalda um vistunina til æðra stjórnsýslustigs. Á ganginum var þeim síðan gert að fylgja óbirtum og þar með ógildum reglum, þar sem 27. gr. stjórnarskrárinnnar segir fyrir um að öll lög verði að birta opinberlega til þess að þau öðlist gildi.
Reyndar voru réttindi Annþórs og Barkar á öryggisganginum ekki í „löglegu lágmarki“ eins og Páll komst svo óþægilega að orði í viðtalinu. Núverandi formaður Ungra Pírata og laganördinn Hafþór Sævarsson, sem aðstoðaði okkur reglulega við heimildarvinnu í málinu, komst að því að þær réttindaskerðingar sem óbirtu reglurnar sögðu fyrir um innihéldu skerðingu á réttindum þeirra langt umfram það sem lög leyfðu. Svo best sem ég veit er Umboðsmaður Alþingis enn með málið í skoðun vegna ótrúlegra tafa á svörum frá Innanríkisráðuneytinu til Umboðsmannsins vegna vistunarinnar.
Fyrir áhugasama má finna töluvert ítarlegri úttekt á trúnaðarbroti forstjóra Fangelsismálastofnunar gagnvart skjólstæðingum sínum, ólöglegri vistun þeirra á öryggisgangi og þeirra mannréttindabrota sem þeir þurftu að sæta á meðan dvölinni stóð í greinunum „Öryggisgangur án Lagaheimildar“ og „Umboðsmaður athugar lögmæti vistunar Annþórs og Barkar á öryggisgangi“ í Kvennablaðinu.
Þessi póstur er orðinn töluvert lengri en ég ætlaði mér í fyrstu og því bíður það betri tíma að segja svo vel sé frá hringleikhúsi fáránleikans og óréttlætisins sem opinberaðist okkur Atla þegar við fórum að vinna greinar úr öllum þeim gögnum sem við höfðum um málaferlin gegn þeim Annþóri og Berki. Afskipti lögreglu af framburði vitna, vitnisburður fjölda aðila undir nafndleynd án málefnalegra sjónarmiða og hið undarlega mál dularfulla lögreglumannsins sem hafði ótrúlega sögu að segja dómara eru allt atriði sem finna má í greinasafni okkar Atla um mál þeirra Annþórs og Barkar .
Annþór og Börkur hafa nú verið sýknaðir í héraði, ef sýknu má kalla (nánar um það síðar) rétt tæpum fjórum árum eftir að þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna gruns um aðild þeirra að láti samfanga þeirra, manns að nafni Sigurður Hólm. Allan þennan tíma hafa þeir þurft að sæta viðtækum skerðingum og brotum á réttindum sínum af hálfu stjórnvalda sem og dómstóla.
Vararíkissaksóknari, Helgi Magnús Gunnarsson hefur nú einhverjar vikur til þess að ákveða hvort hann áfrýji málinu til Hæstaréttar. Hver dagur sem líður þar sem Annþór og Börkur þurfa að upplifa áframhaldandi réttaróvissu og frelsissviptingu án sakfellingar er refsistig á hendur stjórnvöldum í þykjustu leik þeirra um að hér á Íslandi sé raunverulegt réttarríki. Við Atli erum ekki hætt að fylgjast með framvindu mála.
Ég hvet þig lesandi kær til þess að gera slíkt hið sama. Ef ekki fyrir réttarríkið okkar, þá vonandi fyrir réttarríkið þitt.