Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Opið bréf til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra Íslands

$
0
0

Hafsteinn Sverrisson viðskiptalögfræðingur skrifar:

Opið bréf til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra Íslands

Háttvirtur forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þetta bréf varðar þá ágætu samantekt sem þú birtir nú fyrir stuttu hvað varðar umdeild fjárhagsmál ykkar hjóna á bloggsíðu þinni. Sú lesning er ágæt, en þó tel ég vert að benda þér á nokkur atriði.

Þér átti að vera það fullljóst strax í upphafi að skyldur ráðherra snúa að mun fleiri atriðum en lög og reglur segja til um. Það hlýtur að vera sanngjörn krafa landsmanna að forsætisráðherra leggi ákveðnar línur hvað hegðun ráðherra og þingmanna varðar.

Hvað varðar mál sem ráðherrar og þingmenn vinna að er illfært að ætla að þeir komi ekki að einhverjum málum þar sem þeir eiga einhverra hagsmuna að gæta. Þó hlýtur það að liggja ljóst fyrir þegar kemur að fjárhagslegum hagsmunum þingmanna og ráðherra, þá ætti það að vera lágmarkskrafa landsmanna allra að tryggt sé að þeir séu ekki aðilar að málum er varða mikla hagsmuni þeirra sjálfra eða náinna ættingja. Hvort sem þeir hagsmunir eru fjárhaglegir eða í öðru formi. Það liggur í mannlegu eðli að hugsa umfram allt um sína hagsmuni og þeirra sem næst manni standa. Hvert mál yrði að sjálfsögðu að meta sérstaklega, þ.e. hversu miklir hagsmunir liggja undir. Nánar tiltekið, hvaða hagsmuni þingmenn og ráðherrar eiga og hvert vægi þeirra er.

Þú berð ekki saman hagsmuni lífeyrisréttinda og hagsmuni fjármuna sem liggja í þessum svokölluðu skattaskjólum. Eitt er að vinna að málum er snúa að landsmönnum öllum og annað að vinna að málum er snúa að fámennum hópi eða einum einstakling. Þér ber skylda sem ráðherra að vinna að hagsmunum allrar þjóðarinnar, en þú virðist vanhæfur til að koma að málum er snúa að hagsmunum náinna fjölskyldumeðlima, sbr. lífeyrisréttindi snúa að allri þjóðinni (og þar með fjölskyldu þinni) en öll þjóðin á ekki fjármuni í skattaskjólum. Einnig eru lífeyrisréttindi lögbundin, en það eru bankareikningar erlendis ekki.

Fórnir þinnar fjölskyldu koma þessu máli ekkert við. Hér snýst málið um þá skyldu sem þér bar að uppfylla gagnvart kjósendum. Rétt hefði verið, hvernig sem á það er litið, að þú upplýstir þjóð og þing um þá hagsmuni sem þú hafðir tengdum eignum eiginkonu þinnar.

Hvað sem lög og reglur segja til um, þá veist þú jafn vel og allir aðrir að maður sem ætlar sér að fara að vinna að hagsmunum heillar þjóðar, skal koma hreint fram við þá þjóð. Það er svo í hennar höndum að ákveða hvort traustið sé til staðar eða ekki. Það er ekki þitt að ákveða.

Þú nefnir að það hefði orkað mjög tvímælis siðferðislega ef þú hefðir farið að gera sérstaklega grein fyrir því að eiginkona sín ætti inni pening hjá föllnu bönkunum, þ.e. að leyna hagsmunum forsætisráðherra í þessum málum. Orkaði það þá mögulega mjög tvímælis að leyna þessum upplýsingum fyrir kjósendum?

Fram kemur í samantekt þinni hvort lagabreytingar varðandi “svo kallaðan afdráttarskatt” dragi úr tapi Önnu. Þarna kemur fram meðal annars að þessi breyting hafi verið gerð til að tryggja jafnræði kröfuhafa. Hér kemur ein mjög svo áhugaverð spurning, hvað er átt við með að tryggja jafnræði kröfuhafa?

Ert þú sem ráðherra að gefa í skyn að farið var í þessar breytingar til að bæta hag kröfuhafa til jafns við hag þjóðarbúsins hér á landi? Ég ætla rétt að vona að hérna sé mikill misskilningur í gangi hjá mér, því ef ekki þá er ekki annað að sjá en að þarna hafi hagur þjóðarinnar ekki verið settur framar öllu öðru.

Þrátt fyrir þau rök sem lögð eru fram þá tel ég það vera meginforsendu málsins vera að þú, Sigmundur Davíð, forsætisráðherra Íslands, átt hagsmuni að gæta í gegnum eiginkonu þína. Þetta vissir þú og því er ekkert vafamál að þú komst ekki hreint fram, hvorki gegn kjósendum né kröfuhöfum.

Hver sem tilgangur þinn var með að leyna þessum upplýsingum tel ég það ekki aðalatriðið á þessu stigi málsins. Það má vel vera að þú hafir haft góða og gilda ástæðu fyrir því persónulega. Þér hlýtur þó að vera ljóst að maður í þinni stöðu getur ekki firrt sig ábyrgð, yppt öxlum og haldið því fram að staða þín sem forsætisráðherra sé sterkari fyrir vikið.

Öll gerum við mistök og tel ég að það eigi ekki að dæma fólk út frá þeim. Það verður hins vegar ekki hjá því komist að við verðum dæmd af því hvernig við bergðumst við þeim mistökum sem við gerum og á hvaða hátt við öxlum ábyrgð á þeim gagnvart öðrum.

Ég vil vera bjartsýnn og trúa því að þjóðfélagið muni ekki dæma þig fyrir að vera mannlegur og að hafa gert mistök, svo lengi sem þú axlar ábyrgð á þinni háttsemi. Það gerir þú, kæri Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, með því að segja af þér sem forsætisráðherra Íslands.

Með slíku setur þú langþráð fordæmi í íslenskri stjórnmálasögu, stendur uppi sterkari að lokum og mætir til leiks að nýju hafandi sýnt og sannað að þú ert mannlegur, gerðir mistök, tókst fulla ábyrgð á þínum mistökum og sýndir þjóðinni að þú ert traustsins verður.

Teljir þú hins vegar að þú getir staðið fyrir framan landsmenn og haldið því fram að staða þín sem forsætisráðherra sé sterkari nú en nokkru sinni fyrr, eftir að upp hefur komist að þú, Sigmundur Davíð, leyndir kjósendum mikilvægum upplýsingum sem hefði án efa gefið allt aðra niðurstöðu úr síðustu alþingiskosningum. Þá mátt þú fastlega gera ráð fyrir því að þínum ferli í stjórnmálum, ásamt aðildar þíns flokks, að störfum Alþingis muni ljúka þegar kemur að næstu alþingiskosningum.

Þú hefur hér gullið tækifæri til að sýna hvaða mann þú hefur að geyma. Sýndu þjóð þinni að þú sért sá maður sem viðurkennir mistök sín, axlir þá ábyrgð sem þér ber og tekur þeim afleiðingum sem því fylgir.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283