Djúp spor er byggt á “sönnum atburðum” og fjallar um ölvunarakstur. Sagt er frá kærustuparinu Alex og Selmu sem urðu fyrir því óláni að hún ekur heim úr partíi og sækir í leiðinni að beiðni Alexar mágkonu sína, systur hans. Ferðin endar utan vegar á banaslysi og mágkonan deyr. Sambandi þeirra Alexar og Selmu lýkur þar með og þau halda hvort í sína áttina til að vinna úr sorg og sekt. Sýningin hefst á því að þau hittast fyrir tilviljun í kirkjugarðinum til að leggja blóm á leiðið.
Þetta er hreint ekkert ósnotur umgjörð utanum sögu af dómgreindarleysi, svikum við mikilvæg gildi og svo auðvitað sektarkenndinni yfir því að hafa orðið mannsbani. Hér ganga á víxl ásakanir og sjálfsásakanir og það er nú ekki eins og íslenskur áhorfandi kannist ekki við það. Leikritið er alvarlegs eðlis, það fer lítið fyrir kómíkinni en það er vissulega brýnt að leikhúsið taki einnig alvarleg málefni til meðferðar á leiksviði samtímans. Ölvun við akstur er nú einu sinni nokkurt samfélagsmein og hvert óhapp af völdum ölvunaraksturs, svo ekki sé talað um banaslys, er einu of mikið.
Leiksýning Artik með Jennýju Láru Arnórsdóttur og Jóel Sæmundssyni í hlutverkum Selmu og Alexar er einnig um margt haganlega samin; þau sjálf eru skrifuð fyrir texta og mega eiga að margt er vel gert. Sýningin er sett saman úr aragrúa styttri atriða, svipmynda og augnablika úr æfi þeirra, skiptingar liprar og smekklegar og vel byggður upp aðdragandinn að slysinu og að eftirmála þess. Þó er eins og vanti herslumun – það er eins og hefði mátt ganga ennþá lengra, kafa ennþá dýpra í tilfinningalíf persónanna þegar um ræðir spurningar á borð við ásökun, sektarkennd og fyrirgefningu; það er eins og rétt sé dreypt á þeim bragðsterka kaleik í lokin en án þess að nokkur von sé eygjanleg. Er það virkilega svo? Á sá, sem valdið hefur dauða annars sakir dómgreindarleysis, raunverulega enga von um neina lífsins sátt til að byggja á áframhaldið? Er hið ysta myrkur hans eilífa heimavist? Dapurlegt, ef satt er.
Það má nefnilega skilja það á verki þeirra Jennýjar og Jóels – og vissulega er örugglega nóg til af dæmum um það. Harmsögur af þessu tagi gerast í raun og veru og það er venjulegt fólk í aðalhlutverkum í þeim og sjálfsagt er mörgum þeirra sem syrgja og sakna ómögulegt að fyrirgefa fyllibyttunni, ökuníðingnum, morðingjanum. Það getur verið erfitt að fyrirgefa af minna tilefni en það.
En þótt verkið Djúp spor byggi á sönnum atburðum kemst það altént ekki undan því – sem leikhúsverk – að vera listræn útfærsla á þeim atburðum og á að mati þess sem hér skrifar að vera þess umkomið að hefja sig yfir slíka hindrun sem raunveruleikinn getur á köflum verið. Leikhús á samkvæmt eðli sínu að færa áhorfendum einhvers konar katharsis, þá hreinsun sálarinnar sem nýr skilningur veitir og getur gefið von um að lífið sé þess virði að því sé lifað. Það má vel spyrja þeirrar spurningar, hvort ekki hefði verið ástæða til að ganga enn lengra en gert er með ólíka afstöðu þeirra Selmu og Alexar – það var eins og læddist að manni sú tilfinning að höfundar væru í raun sammála um niðurstöðu verksins og þar með urðu persónur það líka. Við það tapaðist dramatísk spenna, sem sennilega hefði verið fengur að.
Hvað sem líður slíkum pælingum er sagan sem fyrr segir ágætlega sögð, ekki í tímaröð heldur í þeirri röð sem skilningur vex á eðli glæpsins og þeirri óumflýjanlegu niðurstöðu verksins að sumt verður einfaldlega ekki fyrirgefið. Alex er brennidepill sýningarinnar að þessu leyti og Jóel Sæmunarsyni tekst ágætlega að ná að tjá og túlka þá tilfinningalegu vídd sem þarf til að takast á við spurninguna hvort unnt sé að fyrirgefa: er það sjálf staðreyndin, að ástvinur hefur látið líf sitt í algerlega óþörfu slysi af völdum dómgreindarleysis, eða þá hitt, að ástin hans Selma kom þeim báðum í þá voðalegu aðstöðu að hún gæti ekki verið til staðar þegar hann þarfnaðist hennar sem mest – af því þörfin fyrir nærveru hennar skapaðist af völdum voðaverks hennar sjálfrar? Og hún þannig sek í tvennum skilningi! Jenný Lára á mun erfiðara í hlutverki Selmu; henni er á endanum afneitað, hún er dæmd til þeirrar vítisvistar þar sem menn fá ekki fyrirgefningu og á meðan Alex hefur tekist á við sína sorg er hún föst í sínum glæp. Bæði af því henni finnst það frá upphafi og af því að hann segir það. Tvöfaldur glæpur – tvöfaldur dómur tveggja samhuga dómara. Verri gerast örlögin varla. Hlutverkið gefur af þessum sökum ekki mikil tækifæri til þróunar og það er synd, því greinilegt er að í Jenný Láru býr kraftur sem leitar út.
En spurningar verksins eru stórar spurningar, myndu vel hæfa grísku drama, og kannski ekki von að þeim verði svarað í einni sviphending; er það ekki einmitt þetta sem heldur leikskáldum og listamönnum við efnið í sinni daglegu iðju og smiðju, mannkyni til nokkurrar vonar og huggunar?
Þau koma að öðru leyti vel fyrir á leiksviðinu, Jenný Lára og Jóel. Það er kostur við nálgun þeirra og leikstjórans, Bjartmars Þórðarsonar, að þau vinna markvisst gegn því að fara út í melódrama og forðast hættuna á að lenda í tilfinningaklámi. Sýningin er klínískt hreinsuð af öllum slíkum tilburðum og sver sig nánast í ætt við verk Bertolds Brechts að því leyti. Það er ekki leiðum að líkjast.
En í því leynist önnur alvarleg hætta sem ekki verður hjá komist að minnast á í þessu sambandi. Replikkan – það er að segja orðin og setningarnar sem leikarinn segir, ásamt blæbrigðum, áherslum, þögnum og fleiru – skiptir máli og meðferð hennar er grundvallaratriði þegar kemur að því að tjá tilfinningalega afstöðu persónunnar og kveikja viðbrögð innra með henni og hjá öðrum karakterum verksins. Hjá bæði Jóel og Jennýju mátti greina tilhneigingu til að sterílísera replikkuna og taka burtu það sem hefði getað verið vísbendingar um tilfinningalega afstöðu persónunnar. Má vera að þetta sé meðvitað stílbragð, gert einmitt til að forðast melódramað – að minnsta kosti mátti greina talsverðan mun á meðferð hins talaða máls þegar farið var aftur í tímann, þegar allt lék í lyndi og lífið var bara fjör. Þar var replikkan mun meira lifandi og glæddi persónur og aðstæður mun meira lífi. Þar bar á blæbrigðum og áherslum sem báru hugsun og merkingu áfram til næstu replikku, mótleikarans og leikarans sjálfs. Þegar þannig er fá áhorfendur einfaldlega meira að bíta í og sagan og hvernig henni vindur fram verður áhugaverðara og áleitnara.
Blæbrigði og áherslur í talanda eru nauðsynlegar þegar um ræðir að fleyta hugsun í verki áfram, þær verða eins og vörður hugans hjá persónunni, sem hjálpa áhorfendum að átta sig á því hvert persónan stefnir, hvert sagan stefnir og hvert verið er að fara með áhorfendur. Stundum er eins og leikarar af yngri kynslóðinni vilji gera sem minnst úr þessum blæbrigðum og áherslum og það er utan við minn skilning af hverju sú tilhneiging stafar. Vilja menn beita fyrir sig eins konar “hlutleysi”, forðast að taka afstöðu og setja það algerlega í hendur áhorfandans? Eða er þetta einfaldlega vöntun í menntun leikara?
Ég leyfi mér að segja að íslenskt leikhús þurfi að taka sig á í þjálfun á meðferð málsins, því enginn saga skánar af því að leikarinn hafi ekki afstöðu í því hvernig hann beitir máli og talanda. Sú beiting segir ærið margt um persónu verksins, vilja hennar og framtíðarmöguleika. Og það er ekki gott að ræna áhorfanda þeim möguleika að spá í persónuna, velta henni fyrir sér, af því replikkan er flött út, tekin niður og í raun gerð merkingarlaus. Þá er ekkert lengur á milli texta höfundar og áhorfanda – nema sjónrænir þættir sýningarinnar og ekki skal gert lítið úr þeim – en þegar verið er að takast á við tilfinningar og gera þær sýnilegar og skiljanlegar öðrum skiptir raddblær, talandi, blæbrigði máls og áherslur einfaldlega heilmiklu máli. Þegar þetta skortir er hætt við að sá skortur smiti af sér í líkamsburð og hreyfingar leikarans, áherslur handa og svipbrigða og birtingu leikpersónunnar allrar. Í erlendum leikhúsum eru gjarnan starfandi sérstakir þjálfarar talaðs máls og kannski spurning hvort ekki ætti að bæta í þann þáttinn í íslensku leikhúsi?
Ég hef gerst óvanalega margorður um eitt tæknilegt atriði leiklistar og það skal undirstrikað hér að það er ekki eingöngu Djúp spor sem á við þessa örðugleika að stríða; en í Djúpum sporum skiptir máli að við skynjum innstu kviku persóna sögunnar frá fyrsta andartaki og það tekur einfaldlega of langan tíma hér að komast inn í söguna, að skilja persónur hennar og það er að mínu viti vegna þess að leikararnir leyfa sér ekki að nota til fulls alla möguleika blæbrigða máls og hrynjandi, tala með þeim tilfinningalegu áherslum sem hljóta að búa undir hjá fólki sem lent hefur í þeim sálrænu hremmingum sem um ræðir og sem vissulega er ástæða til að taka til umfjöllunar í okkar samfélagi.
Það er full ástæða til að taka alvarlega þegar ný, íslensk leikverk líta dagsins ljós og í Tjarnabíói er unnið merkilegt og gott starf hvað þetta varðar. Það er ekki sjálfsagt mál að slíkt leikhús sé rekið af slíkum metnaði í ekki stærri borg en Reykjavík og mikilvægt að almenningur og ráðamenn geri sér grein fyrir því að slíkt starf þarf að styðja rausnarlega.
Sýningar hópa á borð við Artik skipta máli; þær eru sprotinn sem verða að hinum sterka stofni.
Artik: Djúp spor
Höfundar: Jenný Lára Arnþórsdóttir og Jóel Sæmundsson
Leikstjóri: Bjartmar Þórðarson
Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson
Tónlist: Mark Eldred
Búningar: Sandra Hrafnhildur Harðardóttir
Leikarar: Jenný Lára Arnþórsdóttir, Jóel Sæmundsson.