Nýlega ákvað Sigurður Ingi Jóhannsson að leppa ‘nýja’ ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Málefnasamningurinn er sá sami og í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Andlitin eru að mestu þau sömu en við bætist verkefnastjóri úr forsætisráðuneytinu, Lilja Alfreðsdóttir, sem utanþingsráðherra utanríkismála. Kvennablaðið tók til gamans saman bestu ummæli stjórnarþingmanna og ráðherra fyrir lesendur og úr nógu var að velja.

Stjórnarskipti? Mynd Lára Garðarsdóttir
Hrokinn lak af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, sem kenndi öllum öðrum um og lýsti sér enn einu sinni sem hugsuði langt umfram aðra. Hann hjólaði í stjórnarandstöðuna og sagði hana algjörlega röklausa. Hann sagði engan geta með „nokkru sem kallast geta rök“ haldið öðru fram en að árangur hans og ríkisstjórnar hans sé „framúrskarandi“. Hann gagnrýndi pólitík „reiði, gremju, tortryggni, heift og jafnvel haturs“ en átti ekki við sjálfan sig. Bara alla aðra …
… sjón er sögu ríkari
Nýi forsætisráðherrann, Sigurður Ingi Jóhannsson, sagði kröfu stjórnarandstöðu og mótmælenda um kosningar – ekki gjörðir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks – bera ábyrgð á óstöðugleika undanfarið.
„Þetta einstaka [afnmám hafta] mál er umfangsmikið og úrlausn þess mun hafa áhrif til langrar framtíðar. Mikill óróleiki á pólitíska sviðinu gæti grafið undan þeirri vinnu sem svo nauðsynlegt er að klára. Þótt ekki kæmi annað til tel ég óráðlegt að boða til kosninga og mér finnst í raun óábyrgt af stjórnarandstöðunni að leggja það til.“
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra í skattaskjóli, bað fólk um að hugsa um að ítrekaðar kosningar hefðu ekki skilað miklum árangri. Bjarni hefur væntanlega gleymt því að kosningar færðu okkur nú meðal annars ríkisstjórn með hann innanborðs:
„Við eigum líka að hugleiða hversu miklu það hefur skilað að ganga ítrekað til kosninga. Ég leyfi mér að benda á þá ótrúlega miklu endurnýjun sem hefur orðið hér í þingsalnum, á stóraukinn hlut kvenna — í ríkisstjórninni er jafnt hlutfall karla og kvenna, má ég koma því að — og hvers vegna það eitt og sér hefur ekki skilað okkur lengra en raun ber vitni.“
Svo eru rökin fyrir kosningum víst bara svo léttvæg.
„Menn hafa skilning á því að það sé mjög mikilvægt að ljúka verkefnum sem skipta þjóðina miklu máli og mun meira máli heldur en að fara út í mjög óvissa stöðu, að fara að kjósa hér innan 45 daga. Síðan eru aðrir sem hafa gengið hér býsna langt og haldið því fram að það sé ekki neitt annað hægt að gera en að kjósa. Þeirra rök eru léttvæg miðað við hin rökin sem hér hefur verið haldið fram. Því vil ég hvetja alla þingmenn hér í salnum að hlusta á þær raddir sem bæði hafa komið úr röðum minnnihluta og meirihluta að við getum sannarlega unnið saman að góðum málum sem varða þjóðarhag og þá fellum við báðar þær tillögur sem hér hafa verið bornar fram.“
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, ýjaði að því að læsi barna væri í hættu ef hann yrði látinn fara.
„Við höfum á undanförnum árum gert kerfisbreytingar, gert áherslubreytingar, m.a. til að tryggja að allt sé gert sem hægt er til að börnin okkar læri að lesa, það grundvallaratriði sem svo mikill brestur hefur orðið á. Ríkisstjórn sem stendur frammi fyrir vantraustsumræðu hlýtur að benda á slík verk og um leið hvert stefna skuli í mikilvægum málaflokkum.“
Sigríður Á. Andersen, þingkona Sjálfstæðisflokks, sagði enga stjórnarkrísu í landinu – bara enga!
„Hér ríkir engin stjórnarkreppa. Það ríkir ekkert það upplausnarástand í þjóðfélaginu að réttlæti kosningar strax, í þeirri þrengstu merkingu þess orðs sem hægt er að hugsa sér. Það eru engar forsendur fyrir öðru en að ríkisstjórn nú undir nýju forsæti starfi áfram og uppfylli þannig skyldur sínar sem með lýðræðislegum hætti fól þeim umboð til þess arna.“
Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingkona Framsóknarflokks, lét sjá sig á þingi og sagði almannavilja „sjaldan eða aldrei til“ og bar mótmælendur saman við fólk „sem vill takmarka mannúðarstarf og móttöku flóttamanna“. Jóhanna tók sig til og gerði mikið úr rétti fólks til að mótmæla, skrifa og dútla við lýðræðið en gerði heldur meira úr rétti hennar og félaga til að hlusta ekki.
„Þeir háværustu hafa ekki endilega rétt fyrir sér. Engin er þjóðin og almannaviljinn er sjaldan eða aldrei til. Það að kallað sé eftir kosningum á Austurvelli þýðir ekki endilega að það eigi að verða kosningar. Það er t.d. líka hávær hluti þjóðarinnar sem vill takmarka mannúðarstarf og móttöku flóttamanna. Kannski mætir það fólk á Austurvöll einhvern tímann – þó ég voni ekki – en það er sama hvað þau henda mörgum eggjum í Alþingishúsið þau hafa ekki rétt fyrir sér.“
… því eins og allir auðvitað vita þá eru framsóknarmenn efst eggjagrýtingarlista íslenskra rasista vegna ósérhlífinnar baráttu flokksins og þingmanna gegn hatri og útlendingaandúð.
Þorsteinn Sæmundsson, framsóknarþingmaður á gólfi, vitnaði í skuggaher fólks á Facebook og af förnum vegi sem nánast félli á hné og grátbæði hann um að boða ekki til kosninga til að tryggja leppstjórninni völd. Þessir mótmælendur eru svo greinilega ‘ekkiþjóðin’.
„Við erum ekki fólk sem hleypur frá ókláruðu verki bara af því við nennum ekki að hafa þau hangandi yfir hausunum á okkur. Við viljum klára þau verkefni sem okkur var trúað fyrir. Undanfarið hef ég hitt fullt af fólki, eins og við gerum öll, á förnum vegi, í gegnum samfélagsmiðla og allir hafa sömu óskina sem þeir hafa borið upp: Í öllum bænum ekki hætta að starfa saman, í öllum bænum klárið málin sem þið eruð að vinna að, í öllum bænum klárið þetta kjörtímabil saman.“
Sjálfstæðiskonan Elín Hirst vildi meina að friður fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að velja á framboðslista skipti meira máli en að aftengja ekki lýðræðið með pólitískum vanþroska.
„Ég tel einnig skynsamlegt að vandað sé til verka þegar gengið er til kosninga. Ef vantrauststillaga verður samþykkt í dag verður að kjósa innan 45 daga. Í fyrsta lagi mundu slíkar kosningar trufla nauðsynlega lýðræðislega umgjörð, svigrúm og umræður sem þjóðin þarf til að velja sér forseta 25. júní. Auk þess er mjög mikilvægt fyrir stjórnmálaflokkana, miðað við það rauða spjald sem þeir hafa fengið frá kjósendum með kröfum um siðvæðingu, gagnsæi og lýðræðislega opin ferli o.s.frv., að þeir fái svigrúm og tíma til að velja fólk á framboðslista sína. Það tekur ekki langan tíma en það tekur samt tíma. Til dæmis í mínum flokki, Sjálfstæðisflokknum, sem og í öðrum flokkum tel ég mjög mikilvægt að við stöndum að vali á frambjóðendum á framboðslistum með opnum hætti, með opnum prófkjörum sem víðast en neyðumst ekki til að fara í svokallaða uppstillingu á framboðslistum vegna þess að ekki gefist tími til að halda prófkjör. Það er ekki lýðræðisleg aðferð, síst af öllu eins og staðan er núna í stjórnmálunum.“
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður og skapandi styrkjasafnari, talaði um hentistefnu annarra í sömu andrá og hann varði ríkisstjórn skattaskjóla falli og tryggði Ólöfu Dooley Nordal og Bjarna Falson & co. áframhaldandi setu í ríkisstjórn.
„Það lyktar svolítið, virðulegi forseti, ég vona að hv. þingmenn taki því ekki illa, en það lyktar svolítið af hentistefnu þegar hv. þingmenn koma síðan og heimta að sá aðili sem tók við hæstv. forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem tók við í gær, segi af sér í kjölfarið. Ég sé ekki málefnaleg rök fyrir því. Ég segi nei við þessari tillögu.“
Unnur Brá Konráðsdóttir, metnaðarfull þingkona Sjálfstæðisflokksins, notaði vantrauststillöguna til að mála sjálfa sig sem sanngjarna og réttsýna manneskju sem vilji kosningar en varði ríkisstjórn falli sem sett er saman til þess eins að tefja kosningar. Þá kallaði hún eftir breytingu í forustu flokksins. Tilviljun eða tákn? Nei, bara gamaldags hræsni og tækifærismennska. Hver ætli komi til greina sem nýr leiðtogi? Unnur Brá kannski?
„Ég tel líka að mikilvægt sé í ljósi undanfarinna daga og vikna að forusta Sjálfstæðisflokksins endurnýi umboð sitt. En ég er sjálfstæðismaður og trúi því á grunngildi sjálfstæðisstefnunnar. Ég get ekki annað en barist fyrir því að þau gildi séu við lýði í þeirri ríkisstjórn sem situr hverju sinni. Það er mikilvægt. Það er mikilvægt fyrir alla sjálfstæðismenn í landinu. Ég tel að það sé farsælast fyrir íslenska þjóð. Ég mun því ekki styðja stjórnarandstöðuna í því að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina. “
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra sagðist ríghalda í völd og verja ríkisstjórnina fyrir litla húsnæðislausa manninn.
„Af hverju ekki að hætta þessu bara og boða strax til kosninga? Svar mitt er það sama og hefur hvatt mig áfram allt þetta kjörtímabil. Það er fólkið sem biður um hjálp við að tryggja sér öruggt húsaskjól. Ungi maðurinn sem er á götunni og gistir til skiptis hjá foreldrum vina sinna, einstæði faðirinn sem býr í tíu fermetra herbergi með stöðugum músagangi og getur ekki boðið börnunum sínum í heimsókn til sín, ungi námsmaðurinn sem sér ekki fram á að hann muni nokkurn tíma hafa efni á útborgun í litla íbúð, hvað þá að komast inn á nemendagarða úr bílskúrnum sem hann leigir, eldri konan á örorkubótunum sem neyddist til að flytja inn til dóttur sinnar þar sem hún hafði ekki efni á íbúðinni sinni. Þetta er það sem hvetur mig áfram. Nánast á hverjum degi berast mér símtöl, skilaboð, tölvupóstar frá fólki, venjulegu íslensku fólki, sem býr við húsnæðisvanda. Úrlausn vanda þeirra verður að vera eitt af lykilmálunum á þessu þingi. Því fyrr sem við getum lokið þeim verkefnum, því fyrr getum við kosið.“
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hélt því fram að enginn deildi um góðan árangur ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir að deilur síðustu ára hafi einmitt ekki snúist um annað en forgangsröðun og meiningar stjórnarliða um heimsmet í árangri. Vert er að benda ráðherra á að á meðan hún fór með þessi orð mótmæltu þúsundir ríkisstjórninni, fyrir utan þinghúsið, og það ekki í fyrsta sinn. Ráðherra sló þar enn eitt heimsmetið til handa ríkisstjórninni og það í veruleikaförðun.
„Ég held að ef allrar sanngirni sé gætt og allir líti á málin með þeim gleraugum geti enginn, jafnvel ekki í þessum sal, deilt um að mikill árangur hefur náðst í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég held að við finnum það á eigin skinni. Við velflest höfum það betra nú en árið 2013 þegar við tókum við. Það er ekki bara ríkisstjórninni að þakka en við höfum unnið að og komið farsællega í höfn mörgum gríðarlega mikilvægum málum.“
Glænýr utanríkisráðherrann Lilja Alfreðsdóttir taldi sig og kollega sína færa landinu „stjórnarfarslegan stöðugleika“ með því að ríghalda í völdin.
„Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Stjórnarfarslegur stöðugleiki er kominn á í landinu eftir pólitískt umrót síðustu daga. Stjórnarflokkarnir hafa sameinast um að halda áfram að vinna að sínum góðu verkum með styrk og staðfestu til grundvallar. Markmið okkar allra er að skapa forsendur fyrir áframhaldandi hagsæld á Íslandi.“

Sigrún Magnúsdóttir.
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra er án efa stjarna umræðunnar. Hún talaði fyrir nýtni og góðri umgengni í sömu andrá og hún líkti mótmælendum og stjórnarandstöðinni við heimtufrek og óþekk börn.
„Í upphafi vikunnar voru gerðar hér kröfur, vikan er ekki liðin, um að forsætisráðherra viki, að kosningum yrði flýtt og að utanaðkomandi aðili kæmi inn í ríkisstjórn. Við þessu öllu er orðið. Því er sárt að heyra á Alþingi að um leið er talinu breytt og beint í aðrar áttir. Það minnir mig á óþekk og heimtufrek börn. En við skulum ekki dvelja við liðna viku eða fortíðina. Við horfum til framtíðar.“
Um góða umgengni: „Þegar ég tók við þessu embætti valdi ég mér tvö einkar lummó orð, mundi unglingurinn segja, nýtni og umgengni. Í þessum tveimur gömlu orðum felst þó mikið. Þau hafa verið lykilorð hjá mér í ráðuneytinu eins og ég ætlaði mér. Þau eiga einkar vel við þegar hugað er að loftslagsmálum sem og náttúrunni í heild, en þau eiga við í öllu lífinu og þau hafa öðlast gildi á nýjan leik. Við fórum frá þessum gildum. Við gleymdum þeim. Það hefur verið leiðarljós í gegnum aldirnar á Íslandi að nýta hlutina, nýta það sem við höfum í höndunum, og ganga vel um, ganga vel um allt, ganga vel um náttúruna, fjármálin, ganga bara vel um það sem hefur gildi í lífinu.“