Halldór Bjarnason skrifar:
Uppvexti mínum í Eyhildarholti í Skagafirði fylgdi mikið sull í Héraðsvötnum. Nábýli við vötnin hefur sannarlega mótað mig og kennt mér. Ein af þessum kennslustundum, þar sem tekin var fyrir ákvörðunartaka, afleiðing og ábyrgð, fór fram í miðjum Héraðsvötnum eitt vorið. Þá var ég líklega á ellefta eða tólfta aldursári. Reið ég Héraðsvötnin ásamt nú látnum föðurbróður mínum, Kolbeini Gíslasyni. Vorum við að fara að líta til lambfjár á Borgareyju svokallaðri sem liggur í hjarta eylendis Skagafjarðar. Kolli reið Glóa og ég reið Skildi, báðir alvanir vatnahestar.
Þegar nálgast er suðurbakkann skiptir engum togum að bæði Kolli og Glói hverfa mér sjónum. Lenda þeir í svo magnaðri sandbleytu að þeir fara á bólakaf. Sú stund sem maður og hestur voru á kafi í mórauðu jökulvatninu virtist mér heil eilífð en þó varla meira en fimm til sjö sekúndur. Svo skaut þeim upp aftur og börðust þeir áfram gegnum vatnið og sandbleytuna í átt að landi. Við gífurleg átök ná þeir félagar landi.
Þarna sit ég á Skildi gamla, úti í miðjum vötnum, því Kolli tók vaðið, og verð að taka ákvörðun. Ekki get ég farið sömu leið og Kolli, það er klárt. Á ég að leitast við að fara ofar og vona að ég sleppi við sandbleytuna með því að sundríða? Eða ætti ég að fara neðar, á meiri grynningum og hætta á ennþá meiri sandbleytu? Eitt veit ég, ekki er hægt að sitja á hestinum í allan dag úti í miðjum vötnum. Skjálfandi á beinunum verð ég að gera eitthvað. Bregðast við, sýna viðbrögð og taka ákvörðun. Taka svo afleiðingunum.
Öllum ákvörðunum fylgja afleiðingar. Afleiðingum fylgir ábyrgð. Þrátt fyrir að hægt sé að leita á vit ráðgjafa og ýmissa sérfræðinga, þá er það alltaf einstaklingurinn sjálfur sem að lokum verður að taka ákvörðunina. Lifa með ákvörðuninni. Því aðeins sá sem tekur ákvörðunina er ábyrgur fyrir henni.
Ég hef tekið eftir að fleiri forsetaframbjóðendur segjast munu kalla á ráðgjafa og sérfræðinga til að hjálpa sér við að kljást við erfið mál. Það er vel. Sérstaklega ef samróma álit álitsgjafa liggur fyrir, en vandast að sama skapi ef svo er ekki. Þó er ekki algilt að álitsgjafar hafi rétt fyrir sér. Þar af leiðir að forseti verður að vera tryggur á sjálfum sér til að geta tekið erfiðar ákvarðanir á eigin forsendum. Þær ákvarðanir gætu hæglega gengið gegn ráðum álitsgjafa. Forsetaefni verða að sýna þessu skilning. Erfið mál verða ekki endilega leidd til lykta með aðkomu almannatengla, ráðgjafa, fræðimanna eða annarra leikmanna, Þó sannarlega geti slíkt hjálpað.
Þegar upp er staðið verður forseti að taka sjálfstæðar ákvarðanir út frá sjálfinu og taka afleiðingunum. Þrátt fyrir öll góð ráð. Verðandi forseti verður að hafa burði í það. Það getur verið einmanalegt á toppnum.
Hvað söguna varðar, þá náði ég landi þennan vordag. Ég fór ofar og lenti á sundi. En mikið asskoti var ég hræddur þarna í vötnunum …