Hermann Stefánsson skrifar:
Orðin skipta máli. Orð eru lúmsk. Þau eiga það til að breiða yfir veruleikann án þess að neinn taki eftir því, göfga hlutina, villa okkur sýn.
Hver ætli hafi fundið upp orðið „kostnaðarþátttaka“? Og „greiðsluþátttaka“? Hvað merkja þessi orð? Jú, þau eru nánast eingöngu notuð í tengslum við heilbrigðiskerfið og merkja að sjúklingurinn borgi, prívat og persónulega. Orðið „kostnaðarþátttaka“ lætur þá staðreynd að sjúklingurinn er rukkaður fyrir að fara á sjúkrahús hljóma eins og það sé sérstakur heiður fyrir sjúklinginn, samfélagsleg skylda hans. Sjúklingurinn fær að taka þátt, vera með, standa saman, málið er jú ekki hvort maður vinnur, það er fyrir öllu að vera með, og fólk hlýtur að vera alveg hreint ljónheppið að vera ekki skilið út undan.
Reyndar gæti „kostnaðarþátttakan“ miklu fremur átt við um þátttöku sjúklingsins í samfélaginu sem hann greiðir skatta til, skatta sem fara í að reka heilbrigðiskerfið. Raunar mætti alveg eins segja að „þátttaka“ sé annaðhvort villandi tvítekning eða hrein merkingarleysa. Í versta og líklegasta falli er orðið lygi. Fyrst borga allir saman, það er þátttaka, en síðan borgar sjúklingurinn meira, einn, bara af því að hann er veikur. Í því er engin þátttaka fólgin. Sá sem notar orðið „kostnaðarþátttaka“ aðhyllist þá pólitísku sýn að veikindi séu ekki sameiginlegt þátttökumál heldur einkamál.
Það er hægt að snúa öllum orðum á hvolf.
Orð eru tortryggileg. Þátttaka er grunsamlegt fyrirbæri. Þátttökuslagorð eru varasöm. Maður skyldi aldrei taka þátt í einu eða neinu að óathuguðu máli.
Hvað ætli orðið „kosningaþátttaka“ merki ef grannt er skoðað? Hvað merkir sú þátttaka að mæta á kjörstað til að kjósa forseta? Og af hverju er þetta orð, „kosningaþátttaka“, smám saman að ryðja gamla orðinu úr vegi? Kosningaþátttaka í forsetakosningum merkir að einhver slæðingur fólks, sífellt færri, fer á kjörstað og Ólafur Ragnar Grímsson er kosinn forseti. Það er þátttakan. Ólafur Ragnar vinnur þótt stundum fái einhverjir aðrir að vera með.
Í forsetakosningabaráttu gildir að allt sem sagt er gegn Ólafi Ragnari verður honum vindur í seglin (það þarf engan sérstakan bóg til að koma auga á augljósar staðreyndir) en sjálfur kemst hann ljómandi vel upp með að vega að andstæðingum sínum, hversu ómerkilega sem hann gerir það. Þetta finnst mörgum sniðugt.
Mönnum finnst sniðugt að hann hafi neitað að skrifa undir lög um eignarhald á fjölmiðlum þótt flestir viðurkenni, þegar á þá er gengið, að það kann ekki góðri lukku að stýra að of fáir ríkir kallar eigi of marga fjölmiðla og stýri þannig umræðu í landinu. Mönnum finnst sniðugt að forseti neiti að skrifa undir óbilgjarna Icesave-samninga þótt flestir viðurkenni að það var nú faktískt ekki hann sem kaus gegn lögunum heldur fólkið í landinu og að til eru aðrar og skilvirkari aðferðir til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Mönnum finnst sniðugt að hann neiti forsætisráðherra um þingrof þótt óneitanlega hafi það nú faktískt leitt til þess að bjarga ríkisstjórninni sem þorri fólks hyggst kjósa frá í haust.
Það getur verið margt í þessu, hverju og einu. En mönnum finnst Ólafur Ragnar einfaldlega sniðugur. Af því að hann tekur svo mikinn þátt.
Við hin tökum líka þátt, þátturinn endar á að hann er kosinn forseti.
Kostnaðarþátttaka okkar í heilbrigðiskerfinu felst ekki í öðru en að við erum rukkuð. Kostnaðarþátttaka okkar í forsetaembættinu er líklega varla önnur en sú að þjóðkjörinn forseti veitti fjárglæframönnum sem settu þjóðina á hausinn fálkaorðuna.
Ég er að hugsa um að taka ekki þátt í komandi forsetakosningum. Kosningaþátttaka hlýtur enda með réttu í mesta lagi að merkja: Að bjóða sig fram til forseta. Það hefur ekki hvarflað að mér. Hitt, að mæta á kjörstað og kjósa, það heitir með réttu „kjörsókn“. Ég ætla að sækja fram af fullu afli og mæta á kjörstað.
Ég ætla að kjósa einhvern annan en Ólaf Ragnar. Alveg sama hvern. Ég held að nánast hver sem er gæti sinnt forsetaembættinu jafn vel eða betur.
Það knýr ekki einu sinni fram í mér geispa að hlusta á óútreiknanleg sniðugheitin sem forseti Íslands viðhefur svo títt.
Sami söngurinn verður hundhelvíti leiðigjarn til lengdar. Sama lag og sama lag, tilbreytingarsnautt og eintóna, ár eftir ár, áratug eftir áratug, og þátttaka áhorfenda felst í að klappa söngvarann alltaf upp. Jafnvel mestu prímadonnur óperunnar eru ekki klappaðar upp í 24 ár samfleytt.
Ég vil að við hættum þessari þátttöku.
Það er kominn tími á sókn.