Kæru vinir,
Saman búum við hér, rúmlega 300.000 manneskjur á eyju sem margir utan landsteinanna álíta frjálslynda útópíu á jörð. Ef marka má erlenda fjölmiðla þá er Ísland fyrirmynd annarra þjóða í einu og öllu. Hér hafa allir það hrikalega gott, kreppan var leyst í einu allsherjar hópfaðmlagi sem lauk með nýrri stjórnarskrá og fangelsuðum fjárglæframönnum. Lögreglan okkar samanstendur af kettlingaknúsandi krúttsprengjum sem borða ís í öll mál. Íslendingar eru gullfallegir, náttúruelskandi, álfatrúað fólk með þrjár háskólagráður í vasanum.
Við vitum þó sem hér stöndum að þessi ímynd okkar á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Atburðir síðustu vikna sýndu svo ekki verður um villst að útópían Nýja Ísland er ekki orðin að veruleika.
Rétt eins og mörg ykkar hér þá er ég reið. Ég er reið út af ástandinu hér á Fróni. Ég er reið yfir veruleikafirringu og hroka sitjandi ríkisstjórnar og ráðandi afla. Þegar ég horfði á Bjarna Benediktsson lýsa því yfir að hann væri meirihlutinn og hann ráði kraumaði í mér reiðin. Bjarni telur sig eiga 38 þingsæti og þar við situr. Fólk verði bara að gjöra svo vel og sætta sig við það að ríkisstjórn sem rúin er trausti ætli sér að sitja sem fastast.
Vonleysið helltist yfir mig þegar leikritið hélt áfram. Þegar hver stjórnarþingmaðurinn á fætur öðrum steig í pontu á Alþingi og lýsti trausti sínu á ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar. Þegar þau lýstu sjálfu sér sem ómissandi fólki sem yrði að klára leynilegan lista mikilvægra mála fyrir kosningar.
Þegar nýsleginn forsætisráðherra kallaði stjórnarandstöðuna óábyrga fyrir að leggja fram tillögu um að boða skyldi til kosninga. Þegar Eygló Harðardóttir varði afstöðu sína með því að vísa í fólkið sem hefur beðið hana um að tryggja sér öruggt húsaskjól, – öll þrjú árin sem hún hefur verið ráðherra húsnæðismála.
Þegar Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra og sérstakur húmoristi Framsóknarflokksins, lýsti mótmælendum sem óþekkum og heimtufrekum börnum.
Þegar við bættist að forseti vor hætti enn eina ferðina við að hætta missti ég kúlið. Ísland er hringleikahús fáránleikans, hugsaði ég – og mér féllust hendur. Hugleiddi að gefast bara upp og flýja land.
En svo vaknaði ég úr doðanum og mér snerist hugur.
Mér snerist hugur, því ég veit að það erum ekki við sem hér stöndum sem erum heimtufrek og óþekk. Nei!
Það eru Sigrún og Bjarni og Ólafur og Sigmundur og Sigurður og allir hinir sem ríghalda í völdin sem eru óþekk. Það eru þau en ekki við, sem eru að farast úr frekju, og við erum fullfær um að setja þeim mörk og senda þau í skammakrókinn!
Þess vegna ákvað ég að kasta vonleysinu og virkja reiðina. Virkja reiðina til góðra verka. Því ég trúi enn að við getum skapað okkur nýtt Ísland. Ég trúi að nýtt Ísland sé raunhæfara og skemmra undan en margir þora að vona. Ég trúi því að frekjan í Bjarna og félögum sé aðeins lítil lykkja á leið okkar að betra samfélagi.
Við erum svo lánsöm að eiga fallega eyju á Atlantshafi sem býr yfir margvíslegum auðæfum og auðlindum. Hér býr alls konar fólk með alls konar hæfileika. Náttúran gefur okkur orku, hita, fisk og fleira gott. Af þessum ástæðum trúi ég því að allir á Íslandi eigi að geta lifað góðu lífi.
Við lifum á öld upplýsinga, mannréttinda og stórkostlegra tækniframfara. Smæð samfélagsins okkar gerir það að verkum að það er auðvelt fyrir okkur að innleiða stórar samfélagslegar breytingar á tiltölulega stuttum tíma. Þess vegna trúi ég því að við höfum sögulegt tækifæri akkúrat núna til að skapa sanngjarnt samfélag fyrir alla.
Samfélag sem getur verið raunveruleg fyrirmynd annarra þjóða.
Ég trúi á nýtt Ísland þar sem lýðræðislegur réttur allra til þess að hafa áhrif á samfélagið sitt er virtur. Tækniframfarir síðustu áratuga gera það að verkum að beint lýðræði er ekki lengur draumsýn heldur raunhæfur möguleiki.
En til þess að geta tekið þátt í lýðræðinu þurfum við að vera upplýst. Við þurfum orku, tíma og skilning á kerfinu. Við þurfum að þekkja réttindi okkar og hafa heilsu til að njóta þeirra. Þess vegna finnst mér mikilvægt að nútímavæða menntakerfið okkar í takt við breytta tíma. Þess vegna þurfum við að stórefla heilbrigðiskerfið okkar. Þess vegna þurfum við að setja mannréttindavernd og fræðslu í algjöran forgang.
Ég trúi því að það sé fullkomlega raunhæft að við getum búið í samfélagi þar sem mannréttindi allra eru vernduð. Samfélagi sem kemur fram við alla af virðingu og býr öllum mannsæmandi kjör. Það á ekki að skipta máli við hvað við vinnum. Öll eigum við rétt á því að lifa góðu lífi hvort sem við vinnum við að skúra gólf eða við að stjórna banka. Framlag allra skiptir máli.
Það er því gjörsamlega ólíðandi að stór hluti þjóðfélagsins hafi ekki öruggt aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu vegna lakra kjara. Það er ólíðandi að heilbrigðisstarfsfólkið okkar flýji land vegna lágra launa og mikils álags. Við vitum öll að við höfum alla burði til þess að bjóða hér upp á framúrskarandi heilbrigðisþjónustu. Við verðum að forgangsraða sameiginlegum sjóðum okkar til þess að tryggja rétt okkar allra til bestu mögulegu heilsu.
Nútímasamfélag þarfnast fólks með fjölbreytilega hæfileika og frumkvæði. Fólks sem þorir að fara ótroðnar slóðir og prófa sig áfram með nýja tækni og nýjar hugmyndir.
Þess vegna þurfum við menntakerfi þar sem hæfileikar allra fá að njóta sín – ekki bara þeirra sem passa inn í kassann. Við verðum að aðlaga menntakerfið okkar nútímasamfélagi í stað þess að aðlaga börnin okkar úr sér gengnu menntakerfi.
Kerfið sem við búum við núna er fjársvelt barn síns tíma. Skólarnir okkar leggja of mikla áherslu á færni barna til utanbókarlærdóms. Þeir leggja of mikla áherslu á próf og einkunnir. Þetta fyrirkomulag ýtir undir samkeppni og sundrungu.
Ég vil sjá kerfi þar sem kennurum jafnt sem nemendum er gefið frelsi til þess að þróa nýjar leiðir til þess að læra. Sem byggir á samvinnu í stað samkeppni, fjölbreytni í stað einsleitni. Kerfi sem ræktar lýðræðisvitund, réttlætiskennd og mannvirðingu. Ég vil sjá samfélag sem greiðir kennurum góð laun. Laun sem eru í samræmi við það mikilvæga hlutverk sem þeir gegna við að undirbúa börnin okkar fyrir þáttöku í lýðræðissamfélagi.
Ég vil að við ræktum með okkur menningu ábyrgðar og heiðarleika, æðruleysis og hugrekkis. Að við vinnum í sameiningu gegn þeirri frændhygli og spillingu sem tröllriðið hefur samfélaginu fram að þessu. Til þess verðum við að styrkja eftirlitsstofnanirnar okkar svo þær geti sinnt hlutverki sínu. Þær eiga að rannsaka spillingu ráðamanna. Þær eiga að vernda okkur borgarana gegn ágangi ríkisvaldsins. Þær eiga að tryggja að allir sitji við sama borð. Þær eiga að vernda mannréttindi allra, ekki bara sumra.
Það er ekki auðvelt að berjast fyrir betra samfélagi en það er mikilvægt og það er hægt. Við gerum það með því að trúa á rétt okkar allra til þess að hafa áhrif á samfélag okkar og áherslur þess. Með því að krefjast þess að ríkisstjórn Sigurðar Inga tilkynni ákveðna dagsetningu nýrra kosninga. Með því að láta okkur ekki nægja loðin loforð um „kannski í október ef stjórnarandstaðan verður til friðs á meðan við gerum það sem okkur sýnist.
Við gerum það með því að mótmæla áfram spillingu, valdagræðgi og sérhagsmunapoti ráðandi afla. Við gerum það með því að fylgja réttlætiskenndinni, með því halda í reiðina, með því að virkja reiðina og með því að gefa ekki upp vonina. Með því að gefast ekki upp fyrr en þau taka pokann sinn og hleypa öðrum að.
Ólafur Ragnar, Sigurður Ingi og Bjarni Ben eru ekki ómissandi menn. Þeir eru sjálftitlaðir landsfeður af gamla skólanum sem ætla sér að halda í gamla Ísland í frekjukasti. Þeir eru heimtufrekir og óþekkir menn, en þeir eru ekki ósigrandi. Og þeir eru ekki ómissandi.
Til þess að nýtt Ísland líti dagsins ljós þurfum við að taka völdin í okkar hendur og úr klóm þeirra sem ríghalda í taumana á því gamla.
Til þess þurfum við að vera opin fyrir nýju fólki og nýjum hugmyndum. Til þess þurfum við að vera opin fyrir endurnýjun og nýliðun í áhrifastöður innan samfélagsins. Við þurfum að vera óhrædd við að hleypa að öllu þessu hæfileikaríka unga fólki sem við eigum til áhrifa. Því það er svo sannarlega kominn tími á kynslóðaskipti í íslenskri pólitík!
Útópían Nýja Ísland er innan seilingar og ég fyrir mitt leyti ætla ekki að leyfa frekum óþekktarormum að stöðva mig í því að gera hana að veruleika!