Quantcast
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ísland þarf ferska vinda – hugsað heim

Hulda Karen Ólafsdóttir skrifar frá Noregi:

Nú er farið að vora hér í Noregi þar sem ég bý. Margir keppast við að taka til í görðum. Og blómabeðin í bænum mínum eru komin í sumarbúninginn. Og ekki hægt annað en dást af fegurð lyngrósanna sem nú hafa tútnað út og fara senn að opna sig. Enda fögur sjón að sjá þegar rauði og hvíti litur blómanna kemur í ljós. Ég tel mig lánsama að búa hér í þessum fallega bæ, Ålgård. Þar sem uppbygging og bjartsýni ríkir. Bæjarbúar eru flestir brosmildir og una glaðir við sitt, þótt auðvitað sé undantekning á því eins og gengur.

Image may be NSFW.
Clik here to view.
13090872_10209412977825309_326636198_o.png

Bærinn hefur tekið breytingum á þessu eina ári síðan ég flutti hingað. Vegatenging frá aðalbrautinni E39 og inn í bæinn hefur gert það að verkum að nú rennur bílaumferðin auðveldara inn í bæinn. Síðan var byggð göngu- og hjólabrú fyrir ofan veginn sem gerir mönnum kleift að fara yfir hann, óhræddir um að ekið verði á þá.

Á dögunum var opnaður stór verslunarkjarni og dró hann til sín fyrstu vikuna hvorki meira né minna en 30 þúsund manns. Bæjaryfirvöld eru því hæstánægð með allt það fólk sem hingað streymir til þess að opna budduna sína.

Bærinn hefur einnig verið þátttakandi í flóttamannaverkefni ríkisstjórnarinnar og tekið á móti töluverðum fjölda af flóttamönnum. Og þó svo að margir Norðmenn séu ekki ánægðir með þá þróun mála, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hér í Noregi.

Nú bíða bæjaryfirvalda ærin verkefni við að hlúa að fólkinu, bæði félagslega og ekki síður andlega, eftir allar þær hörmungar sem fólkið hefur þurft að ganga í gegnum. Og margir hafa lagt hönd á plóginn til þess að aðstoða fólkið, bæði með peningagjöfum til Rauða krossins eða í öflugri sjálfboðavinnu.

Nú sitja flóttamenn í bænum á skólabekk og læra tungumál innfæddra og finna sig vonandi á nýjum slóðum eins og svo margir Íslendingar hafa gert hér í Noregi. Þótt auðvitað sé þessu ekki saman að líkja – því að vera flóttamaður frá hörmungum stríðsátaka eða Íslendingur í leit að betri lífsafkomu.

Óneitanlega leitar á hugann bæði sorg og bjartsýni þegar fylgst er með fréttum af málefnum flóttamanna. Sorg yfir þeim hörmungum sem fólkið hefur þurft að reyna og bjartsýni um að fólk geti sest að í nýju landi og lifað mannsæmandi lífi þar sem ríkir öryggi og friður. Í viðtölum sem ég hef séð í fjölmiðlum við flóttamennina er það eina hugsun þeirra að hafa í sig og á, geta tekið þátt í daglegu lífi og búið við öryggi og frið.

Norðmenn sem ég umgengst hafa sífellt verið að spyrja mig um ástandið heima og hvort ég sé ánægð með að búa í Noregi, ef miðað er við ástandið heima. Enda hefur Ísland verið á milli tannanna á fólki vegna Panamaskjalanna svokölluðu.

Og eftir að fjölmiðlar upplýstu um eignir fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs, í skattaskjólum hefur Ísland verið stöðugt í fjölmiðlum hér í Noregi. Brennipunkt – sjónvarpsþáttur sem er mjög vinsæll og vandaður – rakti málið lið fyrir lið og fyrrverandi forsætisráðherra var þar í aðalhlutverki. Það var sorglegt að sjá landið mitt dregið niður í svaðið og ég varð sorgmædd yfir ástandinu.

Image may be NSFW.
Clik here to view.
13090381_10209413036466775_462190919_n

Ég fylgist auðvitað vel með umræðunni og ekki síður fréttum að heiman. Síðustu dagar hafa verið skrautlegir svo ekki sé meira sagt. Og maður skammaðist sín alveg ofan í tær! Við erum engum lík.

Norðmenn eru taldir miklir regluverksmenn. En hér finnast auðvitað breyskir menn eins og annars staðar. En Norðmenn eru sennilega miklu sterkari en við, þegar kemur að siðferði. Þá á ég við að þeir séu frekar á þeirri línu að líta á að siðferði sé æðra stjórnmálum og lögum og það að pólitískt vald ráði engu um hvað sé réttlátt og hvað ranglátt þegar kemur að því hvernig fólk hagar sér. Hér er yfirleitt ekki hægt að komast upp með neitt múður.

Ef þú ert uppvís að broti í starfi, hvort sem það er hinn almenni borgari eða embættismenn, þá ertu í slæmum málum.

Ég er ansi hrædd um að fleiri hefðu orðið að fjúka ef málið sem við höfum verið að glíma við heima á Íslandi hefði komið upp hér í Noregi. En hér er ekki allt slétt og fellt því eins og komið hefur fram í fréttum hafa Panamaskjölin teygt anga sína hingað. Og Norðmenn líta það mjög alvarlegum augum. Þeir krefjast rannsóknar og ætla sér að taka á málinu föstum tökum.

Þökk sé fólkinu heima og þeirri samstöðu sem þar myndaðist.

Ágætur Norðmaður notaði orðið lýðræði þegar hann horfði á fréttir frá Íslandi þar sem mörg þúsund manns voru saman komin við Alþingishúsið til þess að mótmæla. Hugtakið hefur ef til vill víða merkingu og oft verið ofnotað en þarna kom lýðræðið í ljós. Lýðræðið er sterkt afl.

Ég hef ætíð litið svo á að fólk eigi að taka virkan þátt í stjórnmálum og fylgjast vel með því sem er að gerast. Með því að vera fullgildur þátttakandi ertu að gæta þess að lýðræðið sé ekki fótum troðið og að kökunni sé réttlátlega skipt á milli fólks.

En fréttunum að heiman var ekki lokið og til þess að bæta gráu ofan á svart, þá komu þær á færibandi. Ný stjórn var skipuð. Útskýringar mínar á atburðunum heima voru orðnar svo skrautlegar að vinur minn starði á mig orðlaus.

Forsetinn, taskan, umræðan um leynigestinn, stigamennirnir, allt þetta var eins og skrípaleikur í hans augum og mínum. Hann hló ofsahlátri og sagði: „Hvernig er eiginlega með embættismenn þarna á Íslandi, hafa þeir enga samvisku eða siðferðismat á gjörðum sínum og athöfnum?!“

Ég var orðlaus.

Nokkrum dögum seinna kom svo önnur bomba. Forsetinn ætlaði að hætta við að hætta. Ég ákvað að forðast vin minn. En það kom auðvitað að því að ég mætti honum. Hann brosti og sagði:

„Þetta er orðin besta skemmtun að fylgjast með fréttum frá Íslandi.“

Ég gat auðvitað ekki annað en brosað með honum þegar ég reyndi að útskýra hvers vegna forsetinn teldi sig þurfa enn á ný að gefa kost á sér til embættisins. Og við veltum því fyrir okkur hvort þetta væri óstjórnleg löngun í völd eða þá maður sem teldi sig ómissandi í þessu starfi. En að lokum komumst við að þeirri niðurstöðu að eitthvað annað lægi þar að baki. Og óneitanlega kom upp í huga minn stjórnarskráin.

Þegar ég var lítil þótti mér hrikalega spennandi að lesa ævintýrabókmenntir þar sem prinsinn bjargaði prinsessunni, fannst þetta allt svo spennandi. Og að vissu leyti er það ákveðin skemmtun í dag að fylgjast með athöfnum norræna kóngafólksins. Hér í Noregi hefur Haraldur konungur ríkt í 25 ár og í tilefni af því hefur sjónvarpið tekið saman þátt þar sem tekin eru viðtöl við konungsfjölskylduna. Þessi þáttur hefur örugglega verið endursýndur hundrað sinnum og þykir mörgum nóg um. Enda eru skiptar skoðanir um konungsríkið eins og önnur málefni.

Image may be NSFW.
Clik here to view.
13090121_10209413033666705_2138457128_n

Um daginn varð uppi fótur og fit þegar Stórþingið setti fram þá tillögu að konungsdæmið væri úrelt form og bæri að afnema. Tillögunni var hafnað. Og í kjölfarið hafa menn einnig verið að horfa til þess hvað þetta allt saman kostar norska ríkið. Dagblöðin hafa komist að því að uppgefinn kostnaður, 232 milljónir, sé ekki rétt tala. Fremur sé kostnaðurinn nálægt 460 milljónum norskra króna því ekki sé allt sett inn í reikningsdæmið. Þetta er auðvitað dágóður peningur sem hægt væri að nýta í annað.

Nú þegar ganga á til kosninga heima og velja forseta rifjar maður upp. En ég er svo lánsöm að hafa getað fylgst með fjórum forsetum á Íslandi. Að vísu var ég ung að árum síðustu ár Ásgeirs Ásgeirssonar en tók síðan þátt í að kjósa Kristján Eldjárn 1968. Hann var minn maður. Síðan kom Vigdís Finnbogadóttir sem markaði djúp spor fyrir jafnréttisbaráttuna.

Ólafur Ragnar Grímsson var síðan kjörinn forseti árið 1996. Hann hefur því setið á forsetastóli í 20 ár og finnst mörgum nóg um. Telja að lýðræðinu sé ógnað ef hann nær kjöri enn á ný og ég tek undir þá skoðun.

Ég ætla rétt að vona að Ísland beri þá gæfu að nýir og ferskir vindar komi fram með sumarvindinum. Einnig að landið okkar komist upp úr þeirri stjórnarkrísu sem þar ríkir um þessar mundir og tekist verði á um að koma fram með nýja stjórnarskrá.

Stjórnarskrá þar sem segir að fólkið í landinu fái að velja einstaklinga en ekki gamla valdaflokka sem skila okkur einungis ákveðnum valdastrúktúr krydduðum með gamaldags hugsunarhætti.

Vona að vindurinn blási gleðilegu sumri til ykkar allra og baráttukveðja heim.

Hulda Karen


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283