Image may be NSFW.
Clik here to view.Þessa stundina er íslenskt samfélag ekki að kikna undan umburðarlyndi fyrir auðkýfingum og lætur það pirra sig töluvert að bilið milli þeirra sem eiga og þeirra sem eiga ekki sé sífellt að aukast. Guði sé lof. Bilið er með öllu óásættanlegt. Það fer sérstaklega í taugarnar á þjóðinni að sumir landsmanna skuli geyma eigur sínar í útlöndum þótt löglegt sé og finnst eðlilegt að það sé gengið úr skugga um að þeirra hafi verið aflað á heiðarlegan hátt og af þeim séu greidd opinber gjöld á Íslandi.
Þjóðin krefst þess líka að kjörnir fulltrúar hennar veiti upplýsingar um það hvar fjárhagslegir hagsmunir þeirra liggi þannig að aðrir en þeir sjálfir geti metið hvort þeir stangist á við hagsmuni umbjóðenda þeirra. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hraktist úr embætti forsætisráðherra fyrir nokkrum dögum af því að þjóðinni fannst að hann hefði ekki upplýst hana sem skyldi um fjárhagslega hagsmuni sína, sem stönguðust á við hagsmuni þjóðarinnar.
Nú standa fyrir dyrum forsetakosningar og þjóðin mun krefjast þess að þeir sem bjóða sig fram veiti tæmandi upplýsingar um fjárhagslega hagmuni sína og á það jafnt við um sitjandi forseta sem aðra. Það á meira að segja sérstaklega við um sitjandi forseta vegna þess að í Icesavemálinu sýndi hann okkur fram á hvernig forsetinn getur beitt því takmarkaða valdi sem hann hefur til þess að hafa bein áhrif á fjárhagslega hagsmuni þjóðarinnar.
Ég vil taka það fram að fyrir framgang sinn í því máli á hann bæði virðingu og þökk skilið. Það breytir því hins vegar ekki að ef hann vill sitja enn eitt kjörtímabilið ber honum að upplýsa þjóðina um það hvar fjárhagslegir hagsmunir hans liggja þannig að hún geti metið hvort þeir stangist á við hennar.
Meðal fjárhagslegra hagsmuna hans teljast eignir sem eru skráðar á eiginkonu hans og fjölskyldu hennar. Sú röksemd að þetta séu eignir hennar en ekki hans virkar ekki. Hún virkaði ekki fyrir Sigmund Davíð og hún mun ekki virka fyrir Ólaf Ragnar. Hverjar eru eignir þeirra? Hvernig og hvar eru þær geymdar? Hafa þau hjón fjárfest í einhverju sem gæti leitt til þess að þjóðin liti svo á að hagsmunir þeirra stangist á við hagsmuni hennar. Eiga þau til dæmis kröfur í föllnu bankana íslensku eða hafa þau tekið stöðu gegn krónunni?
Ég er handviss um að svarið við þessum spurningum er nei og að Ólafur Ragnar myndi fullyrða að svo sé, en það er hvorki mitt að giska né Ólafs Ragnars að staðhæfa heldur þjóðarinnar að ákvarða eftir að henni hefur verið veittur eðlilegur aðgangur að upplýsingum um fjármál þeirra hjóna.
Ég reikna með því að Ólafi Ragnari verði ljúft að veita allar þessar upplýsingar og það er í rauninni furðulegt að hann sé ekki nú þegar búinn að gera það, af því að hann lét hafa það eftir sér í viðtali við CNN á föstudaginn um Panamaskjölin að krafan um gegnsæi í íslensku samfélagi sé eðlileg og réttlát.
Það er líka mikilvægt að hann útskýri fyrir þjóðinni hvers vegna sú ákvörðun var tekin að greiða ekki opinber gjöld á Íslandi af þeim eigum sem þau hjón eiga í útlöndum. Þær raddir eru nefnilega háværar sem halda því fram að hún hafi ekki verið tekin með hagsmuni þjóðarinnar í huga heldur hagsmuni Ólafs Ragnar og konu hans. Það hlýtur að teljast grábölvað að menn hafi það á tilfinningunni að forseti lýðveldisins sé að reyna að koma sér undan því að greiða keisaranum það sem keisarans er.
Það er skringilegt með tímann að þótt hann sjáist ekki og það sé hvorki af honum lykt né bragð og hann vegi ekkert þá breytir hann öllu. Til dæmis má rifja upp að þegar LBJ var forseti Bandaríkjanna hafði hann það fyrir sið að fara með fagrar konur upp í Airforce One og láta flugvélina hnita hringa um Washingtonborg meðan hann gamnaði sér við þær. Þetta var á allra vitorði og gladdi menn vegna þess að þetta þótti benda til þess að forseti þeirra væri bæði við góða heilsu og kraftmikill. Síðan liðu nokkur ár sem breyttu heiminum töluvert og Clinton þáverandi forseti Bandaríkjanna varð uppvís af því að hafa átt í kynferðislegu sambandi við lærling í Hvítahúsinu og hraktist næstum úr embætti fyrir vikið.
Heimur versnandi fer fyrir þá sem vilja forréttindi í okkar samfélagi.
Það sem Ólafur Ragnar komst upp með þegar hann og Dorrit rugluðu saman reitum sínum er með öllu óásættanlegt í dag. Samfélagið hefur hreyft sig úr stað og ef Ólafur Ragnar vill vera forsteti í enn eitt kjörtímabilið er eins gott fyrir hann að fylgja því. Samfélagið mun krefjast þess að fá nákvæmar upplýsingar um eigur þeirra hjóna og hvernig þau hafa fjárfest. Það mun einnig krefjast þess að þau greiði opinber gjöld af heila gúmmelaðinu á Íslandi í stað þess að borga af eigum sínum annars staðar.
Þetta er rúllugjaldið sem sitjandi forseti verður að borga til þess að fá að vera með. Ég vona að Ólafur Ragnar sjái hag sinn í því að fara að þessu, vegna þess að annars mun það reynast næsta ómögulegt fyrir okkur aðdáendur hans, fjölmarga, að hjálpa honum við að breyta Bessastöðum í elliheimili.