Það gætu sumir sagt að búið sé að skrifa nóg um Ólaf Ragnar í bili. Það eru ekki þeir sömu og segja að nú sé komið nóg af Ólafi sjálfum í bili. En það er bara ekki hægt að hætta að skrifa um forsetann.
Það er mörgum furðulega mikið hjartans mál að land og þjóð líti ekki út eins og hópur aumingja sem aðeins hefur einn einstakling innan sinna raða sem hæfur er til að vera forseti. Að því leyti hefur Ólafi Ragnari tekist að breyta manni í hann sjálfan, maður bara getur ekki hætt, látið staðar numið og snúið sér að öðru.
Andstæðingar núverandi forseta eru furðu samhentir í afstöðu sinni til þess sem þeim finnst vera vandamálið við hann. Hann er í 17. sæti yfir þá kjörnu þjóðarleiðtoga sem setið hafa lengst, fer alveg að ná herra Yahya Jammeh, leiðtoga Gambíu, og okkur finnst ekkert eðlilegt við það að sami maður sitji í tugi ára. Slíkt þekkist allavega ekki í löndunum í kringum okkur og eins og svo oft áður þá eigum við þarna meira sameiginlegt með Afríkuríkjunum en Norðurlöndunum.
Stuðningsmenn forsetans eru hins vegar af margvíslegum toga. Það eru hlustendur Útvarps Sögu sem eru útlendingafælnir, heilaþvegnir og óttast breytingar. Það eru framsóknarmenn sem eru tækifærissinnaðir, heilaþvegnir og óttast breytingar. Þeir sem eru á móti nýrri stjórnarskrá því þeir eru heilaþvegnir og óttast breytingar og svo loks þeir sem vilja ekki breyta neinu því þeir óttast breytingar.
Línurnar eru því: Þeir sem vilja breytingar VS þeir sem vilja þær ekki.
Það er sem betur fer hægt að sjá svona frekar auðveldlega hversu vel núverandi kerfi hefur gagnast okkur og hvort breytinga sé þörf eða þær óþarfi.
Hér hefur fámennur hópur auðgast verulega á meðan aðrir, jafnvel mestur hluti þjóðarinnar, er í sífelldu fjárhagslegu basli. Bankakerfið okkar hrundi og traust á Alþingi og stjórnmálamönnum er í algjöru lágmarki. Íslendingar eru fjölmennasta þjóðin miðað við höfðatölu í skattaskjólum með fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi fjármálaráðherra í fararbroddi.
Heilbrigðiskerfið stendur með öndina í hálsinum og reynir að garga á hjálp, leigumarkaðurinn er eins og villta vestrið og húsnæðisverð hækkar og hækkar. Það hefur fyrir löngu náð því að kaup á fasteign er eins og að fá að borga fyrir sitt eigið skuldafangelsi.
Sífellt fleira háskólafólk horfir til útlanda og hefur lítinn áhuga á að búa hérna, innviðir ferðaþjónustunnar ná varla að anna ferðamönnunum svo mörg svæði liggja undir skemmdum og verið er að vinna að því að selja eignir ríkisins sem fyrst. Sömu menn sjá um það og hafa þegar selt aðrar eignir ríkisins langt undir eðlilegu verði.
Við verðum að spyrja okkur, getur þetta versnað?
Myndi nýr forseti, ný stjórnarskrá og jafnvel nýir flokkar stofna þessu glæsilega kerfi okkar eins og við höfum þekkt það undanfarin ár í voða?
Já, vonandi.