„Börn tekjulágra foreldra og börn sem eiga foreldra sem eru örorkulífeyrisþegar búa við mestan skort. Ef þú vilt mótmæla þessu ástandi – ef þú vilt breyta þessu, gakktu þá eða rúllaðu með okkur þann 1. maí.“
Svona hefst tilkynning Öryrkjabandalagsins til félaga sinna á Facebook síðu ÖBÍ í tilefni af 1. maí 2016 sem ber upp á sunnudaginn kemur.
Öryrkjabandalagið hefur látið útbúa myndband í tilefni af fyrsta maí og var myndbandið unnið af ENNEMM auglýsingastofu í samstarfi við Sagafilm og Kontrast. Haukur Björgvinsson og Hörður Sveinsson leikstýrðu.
„6.100 börn á Íslandi líða skort og eiga einungis eitt skópar sem passar, fái hvorki kjöt né grænmetismáltið daglega eða búa í viðunandi húsnæði. Þetta eru þættir sem okkur þykja ólíðandi í íslensku samfélagi.“
Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) eru heildarsamtök félaga fatlaðs fólks og hefur það hlutverk að kom fram fyrir hönd öryrkja og fatlaðs fólks í hagsmunamálum svo sem varðandi löggjöf og framkvæmd hennar. Þann 1. maí stendur Öryrkjabandalagið fyrir kröfugöngu fyrir sína aðildarfélaga og eru slagorðin í ár Fæði, klæði, húsnæði fyrir alla!
Gangan hefst kl 13:00 við Hlemm þann 1. maí. Viðburðurinn er skráður hér á Facebook.
Á síðu Öryrkjabandalagsins segir:
„Við hvetjum ykkur sem flest til að mæta og bjóðið með vinum og fjölskyldu – börn eru sérstaklega velkomin. Við munu dreifa buffum í ár líkt og síðastliðin ár, þau verða með litríkum barnateikningum af fæði, klæði og húsnæði líkt og sést hér á mynd viðburðarins. Krafan okkar í ár er, líkt og slagorðin gefa til kynna, að allir eigi klæði, nóg að bíta og brenna og hafi þak yfir höfuðið.“