Erling Ingvason skrifar:
Um daginn reyndi ég að útskýra gjafakvótakerfið fyrir þér þannig að þú gætir skilið það, núna ætla ég að reyna að skýra fyrir þér hvað gerðist í þessu svokallaða Hruni með bankana og allt það og þetta sem er alltaf í sjónvarpinu með Panamaskjölin.
Árið 2002, þegar þú varst minni en þú ert núna, skiptu svokallaðir helmingaskiptaflokkar (xB og xD) ríkisbönkunum Landsbankanum og Búnaðarbankanum á milli vina sinna.
Þeir þurftu varla að borga neitt, létu bara hinn bankann lána sér.
Þegar þú átt banka geturðu búið til pening úr engu og lánað hann, ef banki lánar pening án veða er það eins og þú fáir visakort frá honum sem þú þarft aldrei að borga og það voru þessir vinir xB og xD og nokkrir vildarvinir þeirra sem fengu svona kort, við skulum kalla þau Vildarvinavisakort.
Þeir eyddu miklum pening í allskonar vitleysu eins og maður getur ímyndað sér, ef maður ætti svona kort, fóru til dæmis aldrei neitt nema á einkaþotu. Þeir gátu líka tekið út pening á þessi Vildarvinavisakort og flestir lögðu hann inn á reikning á Tortóla sem er eyja, eins og Ísland en langt í burtu.
Árið 2008 fór allt í klessu af því að þessir bankar höfðu tekið lán en gátu ekki borgað þau og þá þurfti íslenska ríkið að borga, það þýðir við öll hin. Íslenska krónan féll sem kallað er um helming.
Það þýddi að allt varð dýrara á Íslandi og enginn gat keypt sér neitt eða farið í útlandaferð.
Það þýddi líka að þeir sem voru með Vildarvinavisakortin og voru búnir að leggja inn á Tortóla áttu tvöfalt meiri pening, mælt í íslenskum krónum, fattaru? Hún féll um helming þannig að dollarinn sem gaf þér 60 krónur fyrir, gaf þér 120 krónur á eftir. Þeir sem skulduðu venjuleg visakort þurftu að borga allt tvöfalt til baka og mörgum fannst það ósanngjarnt en alls ekki öllum, sérstaklega ekki þessum með Vildarvinavisakortin en eins og þú manst þurftu þeir ekki að borga neitt til baka, ekki neitt.
Svo byrjuðu þeir að koma með peninginn heim frá Tortóla og kaupa allt sem þeim fannst flott, þá fannst Seðlabankanum, sem skipti peningnum yfir í íslenskan fyrir þá, þeir eiga að fá svona Bónustölu-lottóvinning eftir allt saman og gaf þeim 20 prósent ofan á peninginn.
20 prósent er eins og þú sért með þúsundkall og biðjir um 5 Bounty sem kosta 200 kall stykkið en búðarkonan láti þig hafa 6 Bounty… sem eru í rauninni 12, því það eru tvö í hverju – en þú skilur.
Núna er fólkið að rífast um þetta allt saman, sumir láta eins og ekkert hafi í skorist, sumir eru hættir í vinnunni hjá ríkisstjórninni og sumir vilja að þeir sem fengu svona Vildarvinavisakort þurfi að borga eitthvað, sérstaklega þessir sem voru á Tortóla með peninginn, eyjunni sem ég sagði þér frá, manstu?
Þú spyrð hvað mér finnist, mér finnst allavega ekki góð hugmynd að xB og xD láti vini sína aftur fá bankana svo þeir geti aftur farið að láta vini sína fá svona Vildarvinavisakort, mér finnst það alveg geðveikt vond hugmynd en hvað finnst þér?