Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingkona VG, segir á Facebook rétt í þessu að nú þurfi að koma fram vantraust á Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins. Bjarkey hlekkir í nýjasta tölublað Stundarinnar þar sem fjallað er um aflandseyjafléttur Benedikts Sveinssonar, föðurs fjármálaráðherra, fjármálaráðherra sjálfs og fjölskyldu ráðherra.
Fyrirtæki Benedikts á Tortólu heitir Greenlight Holding Luxembourg S.A. Benedikt sat sjálfur í stjórn þess ásamt eiginkonu sinni og móður fjármálaráðherra, Guðríði Jónsdóttur. „Félagið var stofnað árið 2000 og var hætt að greiða umsýslugjöld af því til Mossack Fonseca árið 2010. Félagið var því virkt þar til eftir hrunið árið 2008,“ segir í Stundinni.
Þá fjallar Stundin um andstöðu Bjarna við kaup á skattaskjólsupplýsingum fyrir skattrannsóknarstjóra. Sú andstaða er nú sett í annað og nýtt samhengi. „Auðvitað getur það ekki komið til greina að við ætlum að fara að greiða fyrir gögn af þessum toga með ferðatöskum af seðlum til einhverra huldumanna,“ sagði Bjarni Benediktsson þegar skattrannsóknarstjóra bauðst að kaupa gögn um a andsfélög Íslendinga. Stundin bendir á að fjármálaráherra hafi gert atlögu að skattrannsóknarstjóra í gegnum fjölmiðla og gagnrýnt embættið fyrir að láta málið „þvælast“ hjá embættinu of lengi. „Þegar ráðherra lét orðin falla er hins vegar ljóst að skattrannsóknarstjóri var í biðstöðu; bréf embættisins til ráðuneytisins, þar sem farið var fram á skýrari afstöðu til kaupa á skattaskjólsgögnunum, hafði ekki verið svarað,“ segir í umfjöllun Stundarinnar.
Sjá einnig: Fjölskylda Bjarna á kafi í aflandseyjabraski umfjöllun Kvennablaðsins, þar sem vitnað er í Stundina, frá því í morgun.
Lögregla tryggði Bjarna grið frá grillveislu, umfjöllun um mótmæli fyrir utan heimili Bjarna Benediktssonar í kjölfar frétta byggða á upplýsingum úr Panamaskjölunum.