Nýjasta könnun Gallup á fylgi flokka er merkilegur pappír. Ég verð að segja að ég varð hálf gáttaður þegar ég sá að Sjálfstæðisflokkurinn var, enn og aftur, orðinn stærsti flokkur landsins.
Enginn flokkur á nokkuð tilkall til atkvæða, en ég hélt einfaldlega að Íslendingar væru búnir að fá sig fullsadda af stjórnmálum samtíðarinnar og vildu breytingar. Ég bjó því til smá upprifjunarlista, sem og annan lista, til að setja hlutina í samhengi.
Núverandi stjórn, með áherslu á Sjálfstæðisflokkinn, á mestan heiður á eftirfarandi.
- Sjálfstæðisflokkurinn á heimsmet í fjölda ráðherra með tengsl við skattaskjól.
- Sjálfstæðisflokkurinn ráðstafaði Borgun með afar umdeildum hætti.
- Sjálfstæðisflokkurinn veitti Matorku 700 milljóna króna ívilnun til frænda Bjarna Benediktssonar
- Sjálfstæðisflokkurinn gerðist uppvís að nánast fasískum tilburðum varðandi hælisleitanda frá Nígeríu, samanber lekamálið.
- Sjálfstæðisflokkurinn lækkaði veiðigjaldið, ásamt öðrum, þrátt fyrir að hafa hvergi talað um það.
- Sjálfstæðisflokkurinn, ásamt öðrum, lofaði kosningum um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið en sveik, nánast einhliða.
- Sjálfstæðisflokkurinn sem lofaði árið 2006, að „ þegar öllu er á botninn hvolft er traust efnahagsstjórn stærsta velferðarmálið.
Ég gæti haldið áfram og áfram og áfram. Í ljósi punktanna hér að ofan ætla ég að koma með annan lista. Lista byggðan á áliti Indriða H. Þorlákssonar um umfang fjármagns sem ekki ratar í sameiginlega sjóði okkar vegna suðrænna paradísareyja hinna siðlausu. Tölurnar byggir hann á reynslu Danmerkur í þessu tilliti. Fjárhæðirnar sem hann nefnir eru a.m.k. 30 – 50ma. Árlega.
Takið eftir „Að Minnsta Kosti“ 30 – 50.000.000.000 kr.- árlega.
Annað er að þessar fjárhæðir eru það stórar að erfitt er að setja þær í samhengi við nokkuð annað, maður er nánast kominn í hrun „deja-vu“ frá árinu 2008.
Engu að síður þá er hér tilraun til þess.
- Fyrir árlega upphæð áætlaðra svika gætum við haft gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi í 8 ár.
- Fyrir árlega upphæð áætlaðra svika gætum við haft gjaldfrjálsar tannlækningar í 5 ár. *
- Fyrir árlega upphæð áætlaðra svika gætum við haft gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi
ásamt tannlækningum í 3 ár.* - Fyrir árlega upphæð áætlaðra svika gætum við reist tæpar 3 Hörpur á ári.
- Fyrir þessa árlegu upphæð væri hægt að greiða út barnabætur, hvern einasta mánuð,
tæpar 50.000 kr. öllum núlifandi börnum til 18. ára aldurs.
Grein heldur áfram eftir auglýsingu
[Nýlega vakti ÖBÍ athygli á því að 6.100 börn líða efnislegan skort á Íslandi.]
- Fyrir þessa upphæð gætum við borgað hverju einu og einasta barni á listanum tæpar 700.000 kr. eftir skatta á mánuði, allt árið, öll ár.
- Fyrir þessa fjárhæð má útrýma orðinu fátækt úr veruleika okkar Íslendinga.
Það er ein staðreynd varðandi listann sem þeir sem höfða til hægri í stjórnmálum gera sér sjaldan grein fyrir. Það er helst þaðan sem varnir koma til bjargar eigendum aflandsreikninga. En gera þeir sér grein fyrir því að ef upphæðin sem Indriði nefnir væri notuð óskipt til að lækka tekjuskatt þá mætti lækka hann um helming?
Semsagt…
- Fyrir árlega upphæð áætlaðra svika mætti lækka tekjuskatt um helming. *
Hrunið var aldrei gert upp. Rétt er að við kusum um nýtt Ísland í lýðræðislegu ferli. Ég á að sjálfsögðu við nýju stjórnarskrána. Það var hún sem endurvekja átti traust okkar á stjórnmálum sem er einfaldlega ekki til. Eins var það hún sem auðræðissinnar létu hverfa. Þeim til ævarandi minnkunar og skammar.
Mikilvægi hennar er algjört. Mér sýnist til dæmis að fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir í frumvarpi heilbrigðisráðherra hefði mátt skjóta í dóm þjóðar. Þetta er svo sorglegt að ég á erfitt meða að skrifa meira. Þessi pistill er ekki fullur af myndlíkingum eða öðrum fögrum orðum, hef einfaldlega nánast ekki geð í mér til þess að skrifa meira í bili.
Munið samt að:
Enginn ráðherra sat í þingsal þegar ræddar voru rannsóknir á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum. Þetta verðlaunar almenningur. Ég hreinlega skil þetta ekki… Traust á ekki að vera gefið, heldur áunnið.
Ákall
Kæru lesendur, það er undir ykkur komið að losa stjórnmál samtímans úr hvirfilbyl niðurfallsins. Ekki verðlauna þeim sem fara illa með okkur. Deilið skilaboðunum að við erum ekki Stokkhólmur og ættum ekki að þjást af heilkenni þeirra. Nýtið skoðanir ykkar, atkvæði og breytið.
Ekki vera hrædd, það er það sem þeir vilja!
——————————————————————–
*Heimildir um skatta, reiknað
*Heimildir Tannlækningar (m.v. að hver Íslendingur greiði 30.000 á ári)
*Barnabætur (fjöldi barna frá 0-18 deilt með upphæð skattaundanskota)
*Heimildir um fátækt barna (skýrsla UNICEF)