Í salnum í Kópavogi klukkan 14:00 í dag tilkynnti Guðni Th. Jóhannesson að hann gæfi kost á sér til embættis forseta Íslands. Guðni var þar ásamt fjölskyldu sinni, eiginkonunni Elizu Reed sem er kanadísk og fimm börnum þeirra.
Hann sagði meðal annars í ávarpi sínu að það væri mikilvægt að ráðamenn væru heiðarlegir, stæðu við orð sín og hefðu ekkert að fela og uppskar hann mikið lófatak úr sal fyrir. Hann bætti jafnframt við að þetta væru þau gildi sem hann væri alinn upp við.
Guðni sagði að forseti ætti að vera í nánum tengslum við alla landsmenn og oft ætti hann frekar að hlusta heldur en tala.
“Forseti getur þurft að taka óvinsælar ákvarðanir en samt á hann að stefna að því að vera málsvari allra landsmanna, sérstaklega þeirra sem minna mega sín.“
Guðni gerði stjórnarskrána að umtalsefni og sagði:
„Forseti hlýtur að láta sig varða endurskoðun stjórnarskrár. Í hana þarf að koma það ákvæði að tilskilinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um umdeild mál. Beint lýðræði á ekki að felast í því að við þurfum að æða til Bessastaða með bænaskjal í annarri hendi og blys í hinni og biðja um að fá að kjósa um – það sem okkur varðar. Aðrar breytingar þarf líka að ræða og leiða til lykta. Ágreiningur er í raun aðalsmerki þróaðs samfélags.
…
En svo er það þannig að stjórnarskrárbreytingar skipta engu máli ef valdhafar bregðast trausti og trúnaði fólksins.“
Guðni kynnti fjölskyldu sína til leiks og sagði að næði hann kjöri í sumar myndi hann að sjálfsögðu áfram rækja föðurlegar skyldur sínar og hjóla með börnum sínum í skólann. Hann sagði ennfremur að framtíðin væri björt, það væri ekkert að óttast.
„Við þurfum ekki að ganga til hvílu að kvöldi, hrædd um það sem mun gerast að morgni. Auðvitað vitum við aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér, en einmitt í því felst hin fagra óvissa lífsins.“
Guðni sagði að það væru forréttindi að búa á Íslandi en við þyrftum ekki að stæra okkur og þykjast vera betri en aðrir.
„Fólk með sjálfstraust, það er fólk sem hefur hógværð í hjarta sínu.“
Hér má heyra ávarp Guðna:
Hér má lesa Meginstefnu Guðna af vefsíðu forsetaframboðs hans.
Meginstefna
Ég býð mig fram til forseta Íslands vegna þess að ég hef ákveðnar hugmyndir um embættið sem ég vil fylgja eftir. Forseti á að vera fastur fyrir þegar á þarf að halda. Hann á að leiða erfið mál til lykta og tryggja að þjóðin eigi alltaf síðasta orðið í stærstu málum sem hana varðar. Um leið á forseti að standa utan og ofan við fylkingar í samfélaginu. Fólkið í landinu á að finna að hann sé ekki í liði með einum á móti öðrum.
Forseti Íslands er málsvari landsins á alþjóðavettvangi, andlit okkar í augum heimsins. Hann á að styðja við menningu landsins og listir, atvinnu- og viðskiptalíf. Í atbeina sínum fyrir Íslands hönd á forseti að vera stoltur en hógvær, kappsamur án drambs.
Í anda þeirra hugmynda sem ríktu þegar lýðveldið Ísland var stofnað 1944 á forseti að vera sameiningartákn þjóðarinnar, eini embættismaðurinn sem kjörinn er í beinum kosningum. Fyrri forsetar hafa mótað embættið eftir sínu höfði en innan þess ramma sem lög og hefðir skapa. Næsti forseti á að fylgja þessu fordæmi forvera sinna, læra bæði af því sem vel var gert og því sem miður fór. Fyrst og fremst á forseti vera öllum óháður, hlýða eigin samvisku og þjóna öllum jafnt í landinu.
Guðni Th. Jóhannesson