„Ég hef aldrei rætt fjárhag fjölskyldunnar minnar, eða fyrirkomulag þess, við eiginmann minn enda um einkamál foreldra minna að ræða,“ sagði Dorrit Moussaieff, forsetafrú Íslands, í tilkynningu sem send var á íslenska og erlenda fjölmiða í gær, vegna uppljóstrana um tengsl fjölskyldu hennar við aflandseyjafyrirtæki og falið fé.
Reykjavík Media greindi fyrst frá að fjölskylda Dorritar hafi átt reikninga með allt að 80 milljón dollara innistæðum í HSBC bankanum í Sviss árin 2006 og 2007. Samkvæmt upplýsingum frá HSBC tengist Dorrit félaginu Jaywick Properties Inc á Bresku Jómfrúareyjunum og var einnig skráð fyrir hlut í Moussaieff Sharon Trust.
Ítrekað hafa fjölmiðlar biðlað til Ólafar Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og Dorritar um viðtöl þar sem málið er skýrt, en án árangurs. Nú hefur forsetafrúin sent frá sér einhliða yfirlýsingu þar sem hún óskar að leiðrétta þær rangfærslur sem hún telur að fjölmiðlar hafi flutt af fjármálum fjölskyldu hennar. Þá segir í yfirlýsingu Dorritar að fjárhagur hennar hafi ávalt verið aðskilinn frá eiginmanninum.
Dorrit íslenskari en við áttum okkur á?
Forsetafrúin er með yfirlýsingu sinni orðin þátttakandi í pólitískum spuna sem nokkur hefð er orðin fyrir hér á landi. Þeirri hefð að stjórnmálamenn beiti eiginkonum sínum fyrir sig í vörn í pólitískum stormi. Ólafur er þar í hópi með ekki ómerkilegri mönnum en Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, og Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins.
Ótengdur eiginkonunni
Sigmundur Davíð sá sér leik á borði eftir að upp komst um félagið Wintris inc, sem skráð er á Tortólu, og tefldi fram eiginkonu sinni aftur og aftur í tilraunum til að bjarga eigin skinni. Það kom þó í ljós að Sigmundur hafði svo sannarlega verið með fingurna í Wintris. Þá hefur Sigmundur verið óhræddur við að ræða þann ávinning sem hann hefur sjálfur af auð konu sinnar. Samt sem áður kastaði forsætisráðherra fyrrverandi konu sinni aftur og aftur á bál umræðu sem að lokum kostaði hann forsætisráðherrastólinn.
Sigmundur Davíð er einn þeirra íslensku valdamanna sem hlotið hefur hrós á alþjóðavettvangi fyrir þátt sinn í framgangi kynjajafnréttis í femínísku útópíunni (eða helvítinu eftir því á hvernig það er horft). Það stoppaði hann þó ekki í að skýla sér bakvið eiginkonu sína í tilraunum til að afvegaleiða umræðuna um hans störf, hagsmunaárekstra og hræsni.
Konan hans Icehot1
Það tók ekki nema einn dag að fá þjóðina til að trúa að það væri sjálfsögð sú hegðun að fjármálaráðherra væri skráður á heimsþekkta síðu til framhjáhalds. Það gerði fjármálaráðherra með aðstoð eiginkonu sinnar Þóru Margrétar Baldvinsdóttur í ágúst á síðasta ári. Bjarni deildi færslunni en hafði þó vikuna áður hunsað símtöl frá fjölmiðlum vegna ótta um að fjallað yrði um Icehot1. Ráðherrann gerði málið þannig pólitískt og tafði framgang umfjöllunar um önnur efni.
„Ekki er öll vitleysan eins. Okkur hjónum hafa borist margar ábendingar um að nú sé talsvert rætt manna í milli um að gamalt netfang Bjarna tengist gögnum af Ashley Madison vefnum sem dreift hefur verið á netinu. Svona getur forvitnin leitt mann í gönur,“ skrifaði Þóra á Facebook. Þá sagði hún málið allt eitt stórt forvitnisgrín.
Í kjölfarið lagðist samfélagið í meðvirknisbylgju með Bjarna og hans einkamálum. Og málið var afgreitt sem grín með tvíti frá Svanhildi Hólm, aðstoðarkonu Bjarna, á launum hjá skattgreiðendum.
Veit einhver um gott netöryggisnámskeið? Er að spyrja fyrir vin.
— Svanhildur Hólm (@svanhildurholm) August 31, 2015
Þannig komast íslenskir stjórnmálamenn ítrekað upp með að tefla fram eiginkonum sínum og pólitískum aðstoðarmönnum samhliða því að kalla málin einkamál. Icehot1 málið náði svo nýjum hæðum í skrumi þegar Bjarni Benediktsson gantaðist með það í þætti Loga Bergmann, á Stöð 2. Logi er einmitt eiginmaður Svanhildar.
Þrátt fyrir að Ashley Madison lekinn hafi verið grafalvarlegur öryggisleki sem fjármálaráðherra Íslands varð fyrir er minna til af fréttum af því hvort og þá hvernig brugðist var við í ráðuneytinu. Málið er jú einkamál eiginkonu Bjarna.