Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Formaður Samtakanna ’78 hættir

$
0
0

„Ég hef af persónulegum ástæðum ákveðið, í samráði við nánustu fjölskyldu og samstarfsfólk, að draga mig í hlé frá trúnaðarstörfum í Samtökunum ’78 um ótiltekinn tíma,“ skrifar Hilmar Hildar Magnúsarson, formaður Samtakanna ’78, á Facebook í gærkvöldi. „Samstarfsfólk mitt í stjórn félagsins tekur nú yfir skyldur mínar og mun leiða áfram það nauðsynlega og mikilvæga samtal sem nú þarf að fara fram á meðal félaga. Frétta af því er að vænta mjög fljótlega.

Ég legg áherslu á að þessi ákvörðun mín er vegna heilsu minnar og persónulegra haga. Ég stend hér eftir sem hingað til fullkomlega með þeim ákvörðunum sem ég, stjórn og félagsfólk hafa tekið varðandi hagsmuni félagsins í opnu og lýðræðislegu ferli. Ég treysti öllu því kraftmikla og góða fólki sem starfar á vettvangi samtakanna til að leiða starfið og óska því velfarnaðar í áframhaldandi vinnu að heill og hamingju hinsegin fólks,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Miklar og langvarandi deilur

BDSM á Íslandi varð formlega aðildarfélag að Samtökinum ’78 á aðalfundi í mars síðastliðnum. Ákvörðunin hefur valdið miklum deilum meðal félagsmanna Samtakanna ’78. Samtökin eru í eðli sínu regnhlífasamtök hinsegin hagsmunasamtaka en þó félag með einstaklingsaðild. Formleg hagsmunasamtök fá fulltrúa í trúnaðarráði Samtakanna og frekari þátttöku í starfi félagsins. 

Félög með hagsmunaaðild að Samtökunum ’78 eru BDSM á Íslandi, FAS – Félag foreldra og aðstandenda samkynhneigðra, FAS-N, Hinsegin dagar, Hinsegin kórinn, Hin – Hinsegin Norðurland, Íþróttafélagið Styrmir, Q – Félag hinsegin stúdenta og Trans-Ísland. Þá reka samtökin fjölda starfshópa sem og ráðgjafaþjónustu og nýtilkomið listagallerý.

Ákvörðun aðalfundar um aðild BDSM á Íslandi hleypti illu blóði í hluta félagsmanna sem telja hlutverk Samtakanna ’78 og BDSM á Íslandi ekki eiga samleið. Með inngöngu félagsins sé verið að vatna út baráttuna með því að hleypa að félagasamtökum í alls ótengdri baráttu. Klofningurinn í félaginu hefur þegar leitt til stofnunar undirbúningshóps að nýjum Samtökum samkynhneigðra á Íslandi. Stofnfundi félagsins hefur þó verið frestað um óákveðinn tíma.

Þá hefur hópur félagsmanna í Samtökunum lýst vantrausti á stjórn félagsins og formann. Á Facebook má einnig finna síðu undir nafninu „Velunnarar Samtakanna 78 krefjast löglegs aðalfundar.“

Stjórn Samtakanna '78 valin á aðalfundi félagsins í mars

Stjórn Samtakanna ’78 valin á aðalfundi félagsins í mars

Ólöglegur aðalfundur

Í lögfræðiáliti sem unnið var fyrir Samtökin ’78 í kjölfar aðalfundar 5. mars síðastliðinn, eftir að deilur risu um lögmæti aðalfundar, viðurkenndi stjórn að aðalfundur telstist ólögmætur vegna hefðar sem myndast hefði við boðun aðalfundar en væri í andstöðu við lög félagsins. „Við skoðun á lögmæti aðalfundarins að öðru leyti kom í ljós formgalli á boðun fundarsins. Í lögum félagsins, ákvæði 3.1., segir að boða skuli til fundarins bréflega. Við boðun aðalfunda undanfarin ár hefur þetta ákvæði verið túlkað sem svo að tölvupóstur til þeirra félaga sem hafa skráð tölvupóstfang uppfylli kröfur. Í óformlegum ábendingum lögmanns okkar kemur fram að „bréflega“ sé almennt túlkað sem pappírspóstur. Sú lagatúlkun sé æðri hefðum félagsins.“

Á árinu 2010 var hætt að senda út bréfpóst á félagsmenn við boðun aðalfundar en kostnaður við það var rúmlega 200 þúsund á ári. Samtökin ’78 máttu eins og mörg önnur félagasamtök á Íslandi takast á við samdrátt í tekjum. Sé ársreikningur félagsins frá árinu 2010 skoðaður sést að rekstrarliður sá er bréfsendingar falla undir lækkar um rúmlega 200 þúsund það ár. Formaður það ár var Svanfríður Anna Lárusdóttir. Hún er í dag í forvarðasveit þeirra sem lýst hafa vantrausti á stjórn og telja stjórn ólöglega kjörna. Síðasti löglega kjörni formaður Samtakanna ’78 er Frosti Jónsson, formaður árið 2009, samkvæmt þeirri lagatúlkun.

Screen Shot 2016-05-06 at 08.08.11

Tvisvar kosið um BDSM á Íslandi

Í apríl var svo boðað til félagsfundar vegna þeirrar stöðu sem uppi var komin. „ Á fundinum var félagsfólki boðið að kjósa um tvær leiðir til að leysa þann ágreining sem upp kom í kjölfar aðalfundar sem haldinn var laugardaginn 5. mars sl. Ágreiningurinn lýtur m.a. að hugmyndafræðinni um tilgang, stefnu og starf samtakanna, en umsókn BDSM á Íslandi um stöðu hagsmunafélags í samtökunum er hluti af því sem rætt er um.“ Á fundinum kom fram sú krafa að stjórn segði af sér og boðað yrði til nýs aðalfundar.

Lög Samtakanna ’78 er þó þannig úr garði gerð að aðalfundur skal fara fram í marsmánuði hvers árs. Nýr aðalfundur yrði því ekki löglegur heldur sé horft á lagabókstafinn einn. Á félagafundinum í apríl var aðild BDSM á Íslandi að Samtökunum ’78 samþykkt öðru sinni. Þá hefur verið sett á fót lagabreytinganefnd sem ætlað er að endurskoða lög félagsins. Tillaga um boðun aukaaðlafundar var um leið felld á félagafundi. Aðild BDSM á Íslandi hlaut um 55% atkvæða en alls greiddu rétt tæplega 130 félagsmenn atkvæði á fundinum. Mótfallnir inngöngu BDSM á Íslandi voru um 45% fundargesta.

Á sama fundi var ákvörðun aðalfundar um inngöngu HIN Hinsegin Norðurland sem aðildarfélags Samtakanna ´78 tekin fyrir. Aðild HIN að Samtökunum ’78 hefur ekki vakið sömu viðbrögð og BDSM á Íslandi. Átta af tíu fundargestum samþykktu þá aðild. Vert er að benda á að kallað var til umræðufundar um stöðuna nokkrum dögum eftir aðalfundinn – það er 10. mars – þar sem óánægja félagsmanna með aðild BDSM var rædd. Lesa má fundagerð samræðufundarins hér.


 

Sjá einnig: Sagan endurtekur sig, pistill um hræringar innan Samtakanna ’78, í kjölfar aðildar BDSM á Íslandi.

„Fólk hefur ekkert að óttast – Samtökin eru enn þau sömu“, yfirlýsing frá formanni S’78, í kjölfar óánægju vegna inngöngu BDSM á Íslandi. 

Undir regnhlífinni, aðsend grein Jódísar Skúladóttur, félaga í Samtökunum ’78, vegna inngöngu BDSM á Íslandi.

Kynhegðun, vald og vörumerki, aðsend grein Auðar Magndísar Auðardóttur, framkvæmdastýru Samtakanna ’78 í kjölfar umræðu um aðild BDSM á Íslandi að samtökunum.


 

BDSM á Íslandi sækir um aðild

„Þann 4. september 2015 barst stjórn formleg aðildarumsókn BDSM á Íslandi að Samtökunum ´78 en sú umsókn hafði þá einróma verið samþykkt á aukaaðalfundi þess félags,“ segir á í tilkynningu stjórnar S’78 sem birt var eftir aðalfundinn í mars. „Umsóknin á sér nokkuð lengri aðdraganda en BDSM á Íslandi hafði áður óskað eftir samtali við samtökin og höfðu tvær fyrri stjórnir samtakanna hitt stjórn BDSM á Íslandi til að fá upplýsingar og fræðslu um hvað vekti fyrir félagsfólki BDSM á Íslandi með því að óska eftir aðild að Samtökunum ‘78. Félagið hafði áður verið í startholunum með að sækja um aðild að samtökunum en ákveðið að bíða með það þar til frekari kynning og umræða hefði farið fram á félaginu í hinsegin samfélaginu.

Síðan þá hefur m.a. farið fram kynning á Hinsegin dögum 2015, ásamt talsverðri umræðu í fjölmiðlum, bæði í prenti, á vef og í ljósvakamiðlum,“ segir á vef S’78. Umsókn BDSM á Íslandi í renghlífasamtök hinsegin fólks á sér erlenda fyrirmynd en um er að ræða breytingu sem átt hefur sér stað í hinsegin félagstarfi um víða veröld.

Í tilfelli BDSM á Íslandi virðist fyrirmyndin fyrst og fremst sótt til Noregs. Auk kynningar og fræðslustarfs í BDSM á Íslandi sem og samþykkt á aðalfundi félagsins um að leitað yrði aðildar að Samtökunum ’78 stóðu samtökin fyrir kynningaferli á umsókninni. Í nóvember árið 2015 var boðað til félagafundar í Samtökunum ’78 vegna aðildarumsóknarinnar. Í aðalfundarboði sem sent var á póstlista félagsins, birt á heimasíðu félagsins og á Facebook síðu kom fram að kosið yrði um aðild BDSM á Íslandi á fundinum. Var þetta ítrekað nokkrum sinnum í aðdraganda aðalfundarins. Þá var boðað til kynningarfundar í lok febrúar, skömmu fyrir aðalfund Samtakanna ’78.

Úrsagnir

Í kjölfar aðalfundar hefur mikill fjöldi sagt sig úr Samtökunum ’78. Fjallað var um úrsagnir á RÚV í apríl. Þar kemur fram að milli 40 og 50 hafi sagt sig úr félaginu. „Þeirra á meðal er Margrét Pála Ólafsdóttir stofnandi Hjallastefnunnar. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökunum nú í morgun hafa 40 til 45 sagt sig úr Samtökunum frá aðalfundinum þar af 16 manns eftir félagsfundinn á laugardaginn.

Álíka margir hafa gengið í Samtökin á sama tíma. Í Samtökunum ´78 eru nú 1184 félagar,“ segir í frétt RÚV.

Höfundur er meðlimur í Samtökunum ’78 og starfaði með Hilmari Hildar Magnúsarsyni í skamma stund árið 2010 og árið 2011.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283