Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

DV ekki með í „gullpottinum“

$
0
0

Skotið er á Reykjavík Media í DV í dag en blaðið og ritstjórinn Eggert Skúlason hafa ekki getað leynt óánægju sinni með að fá ekki aðgang að Panamaskjölunum líkt og nokkrir íslenskir miðlar í samstarfi við RME.

Góðum árangri fjársöfnunar Reykjavík Media á Karolina fund eru gerð skil í Sandkornsdálki blaðsins í dag. Sandkornshöfundur virðist fyrst og fremst hafa að markmiði að ýta undir vantraust og hugmyndir um að fégræðgi, ekki fréttanef, sé drifkraftur umfjöllunar um Panamaskjölin. „Reykjavík Media, félag Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, Sigmundarbana, tilkynnti í gær að búið væri að safna hundrað þúsund evrum, eða fjórtán milljónum króna, á Karolina Fund. Upphaflegt markmið var 40 þúsund evrur en svo mikil ánægja ríkir með störf RME að söfnunin fór langt fram úr björtustu vonum,“ segir í Sandkorni DV sem er á ábyrgð ritstjóra. „Í ljósi þess þarf engan að undra að þeir félagar, Jóhannes og Aðalsteinn Kjartansson, hafi haldið spilunum þétt að sér og ekki hleypt nema örfáum að gullpottinum.“

Reykjavík Media hefur aðgang að gögnum frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca vegna samstarfs við þýska blaðið Süddeutsche Zeitung og alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna ICIJ. Upplýsingunum var lekið til þýska blaðsins. Eggert Skúlason, ritstjóri blaðsins, hefur sjálfur viðurkennt að hann sé í gögnunum. DV fjallaði raunar um málið en Eggert er nefndur ásamt Finni Ingólfssyni, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, Róberti Wessmann og Boga Pálssyni, mági Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra.

Í umfjöllun DV er farið heldur frjálslega með staðreyndir enda fær Eggert að fegra sinn þátt. „Ég vitna í yfirlýsingu mína frá því í maí í fyrra, þar sem ég opinberaði þetta. Það vekur hins vegar athygli mína að í þessu skjali er ég tengdur við félag sem ég átti ekki. Það vekur upp spurningar. Ég greiddi skatta og skyldur af tekjum og málið hefur verið full rannsakað af þar til bærum yfirvöldum,“ sagði Eggert í samtali við blaðamann DV í apríl síðastliðnum.

Hið rétta er að Eggert sendi yfirlýsingu í kjölfar þess að blaðamaður Stundarinnar hafði samband við hann í maí árið 2015 til að spyrjast fyrir um rannsókn sérstaks saksóknara á hans málum. Yfirlýsingin tilgreinir aðeins „félög erlendis“ en ekki var tekið fram að um félög í skattaskjóli væri að ræða. „Í ársbyrjun 2011 hóf skattrannsóknarstjóri rannsókn á skattskilum mínum frá árinu 2005. Ég hafði greitt mér arð úr félögum erlendis frá á árunum 2006 til 2008. Nam upphæðin samtals um sjö milljónum króna. Ég gerði grein fyrir þessum arðgreiðslum á skattframtali mínu og greiddi fjármagnstekjuskatt af arðgreiðslunum,“ segir í yfirlýsingunni.

Eggert var til rannsóknar þegar hann skrifaði bókina Andersen skjölin en meginþema bókarinnar er að rannsóknir sérstaks saksóknara á efnahagsbrotum í kjölfar hrunsins séu ofsóknir.

Jóhannes Kr. Kristjánsson og Aðalsteinn Kjartansson hjá Reykjavík media. Rúmlega 100 þúsund evrur söfnuðust fyrir RME á fjármögnunarsíðunni Karolina fund.

Jóhannes Kr. Kristjánsson og Aðalsteinn Kjartansson hjá Reykjavík media. Rúmlega 100 þúsund evrur söfnuðust fyrir RME á fjármögnunarsíðunni Karolina fund.

 

Eggert hefur undanfarið verið duglegur að sá efa um gæði Panamaskjalanna og vinnubrögð Reykjavík Media, Stundarinnar, Kastljóss og Kjarnans en miðlarnir þrír eru í samstarfi við Reykjavik Media um úrvinnslu gagnanna. „Það er búið að einkavæða Panamaskjölin þar sem Reykjavík Media hefur valið sér vini til að birta upplýsingar og fréttir upp úr gögnunum,“ er haft eftir Eggerti í umfjöllun Hringbrautar um afstöðu ritstjóra DV til fréttaflutnings af Panamaskjölunum. Hringbraut vitnar þar í viðtal við Eggert í Bítinu á Bylgjunni, frá 19. apríl. Á Bylgjunni sagðist Eggert velta fyrir sér hvort misnota ætti valda fjölmiðla fyrir kosningabaráttuna sem senn fer í hönd. Hann spurði af hverju öllum fjölmiðlum væri ekki hleypt að borðinu? Ákveðnum miðlum sem „þættu hallir undir ákveðin öfl“ ættu að túlka skjölin eins og hentaði best. Þá krafðist hann inngrips Blaðamannafélags Íslands.

Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, höfnuðu báðir dylgjum Eggerts vegna málsins, í samtali við Hringbraut.

„Það er ekki bara ósköp eðlilegt, heldur líka nauðsynlegt, að gæta þess að þeir sem fjalli um mál séu ekki vanhæfir til þess vegna eigin hagsmuna og stöðu. Það er ein helsta grundvallarreglan í blaðamennsku. Ég þekki ekki forsendur Reykjavík Media að öllu leyti, en býst við því að þær séu eftirfarandi: Í fyrsta lagi, þeir eru of fámennir til að geta unnið úr öllum gögnunum og þurfa því annað hvort að sleppa mörgu eða hleypa öðrum að. Í öðru lagi, þeir velja þá til samstarfs sem eru ekki vanhæfir til að fjalla um málin vegna beinnar eða óbeinnar þátttöku sinnar í málunum,” sagði Jón Trausti í samtali við Hringbraut.

Samhljómur var í máli ritstjóra Kjarnans. „Mér finnst ekkert óeðlilegt við þá leið sem er farin, sérstaklega þegar við blasir að stjórnendur ákveðinna fjölmiðla eru sjálfir í skjölunum. En það er Reykjavik Media sem tekur ákvarðanir um samstarfsaðila og þeir verða að svara því af hverju þeir sem nú eru að vinna úr skjölunum voru valdir til þess. Okkar tilgangur er alltaf sá að segja fréttir og upplýsa lesendur okkar. Kjarninn er ekki hallur undir nein öfl og hefur aldrei verið,“ sagði Þórður Snær í samtali við Hringbraut.

Almannatengillinn Eggert Skúlason varð ritstjóri DV eftir hörð átök um eignarhald á blaðinu. Skömmu áður en hann var ráðinn létu eigendur félagsins fyrirtæki hans Franca ehf. vinna greiningu á DV. Skýrslan vakti mikla athygli og þótti hrákasmíð mikil. Hjálmar Jónsson, formaður blaðamannafélagsins, sagði skýrsluna innihalda æpandi mótsagnir. Jóhann Páll Jóhannsson, blaðamaður á Stundinni, var þá starfandi á DV og gerði skýrslu Eggerts að umfjöllunarefni á Facebook skömmu eftir að hún var birt. „Ólíkt öðrum starfsmönnum DV varð ég ekki þess heiðurs aðnjótandi að fá að ræða við Eggert Skúlason almannatengil, né fékk ég að svara netkönnun hans. Hins vegar er mér sagt að hann hafi nafngreint mig sérstaklega í viðtölum við starfsfólk, þráspurt leiðandi spurninga um mig og mína persónu og dylgjað um að annarlegar hvatir lægju að baki skrifum mínum á DV. Gagnrýndi hann sérstaklega skrif okkar Jóns Bjarka um lekamálið og málefni Hönnu Birnu, fréttaflutning sem við höfum hlotið blaðamannaverðlaun fyrir.“

Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi Vefpressunnar, og Eggert þekkjast úr stjórnmálastarfi hins fyrrnefnda. Árið 2006 var Björn Ingi frambjóðandi Framsóknarflokksins í Reykjavík. Grapevine sagði frá því á sínum tíma að Eggert hefði fagnað sigri Bjarna Inga í prófkjöri flokksins með ræðu sem hófst á: „Við tókum þá í rassgatið.“ Þá starfaði Eggert sem spunameistari Framsóknarflokksins á árum áður.

Screen Shot 2016-05-06 at 10.51.09Árið 2001 viðurkenndi Eggert að sem blaðamaður hafi hann skáldað fréttir til að fylla dálksentimetra. „Eggert játar það fyrir blaðamanni að þegar hann sat ungur og örvæntingafullur á NT seint á kvöldin og gekk erfiðlega að fylla síðurnar af fréttum greip hann stundum til þess örþrifaráðs að búa til fréttir,“ segir í tveggja opnu viðtali við núverandi ritstjóra DV.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283