Sameinuðu þjóðirnar vinna þessa dagana að undirbúningi sérstakrar ráðstefnu um átak gegn HIV og alnæmi í heiminum. Liður í þeim undirbúningi er gerð stefnumarkandi ályktunar UNAIDS, sem þjóðarleiðtogar, sérfræðingar í forvörnum og lækningu smitaðra og fulltrúar almannasamtaka vinna að baki brotnu.
Afstaða Íslands, sem kom fram á fundi í New York í síðustu viku, vakti athygli og umræður svo ekki sé dýpra tekið í árinni. Fulltrúi Íslands krafðist þess að orðalagið “sex work” og “sex workers” yrði fjarlægt út úr ályktunardrögunum, en í þess stað kæmi orðalagið “People that sell sex”.
Þessi afstaða gengur í berhögg við viðurkennda málnotkun hjá alþjóðasamtökum á borð við UNAIDS, UNDP, ILO, WHO, UN Women, Amnesty International og Human Rights Watch, auk þess sem samtök kynlífsstarfsfólks um allan heim krefjast þess að skilgreina sjálf hvernig um þau er rætt.
Eins og áður sagði vakti afstaða Íslands hörð viðbrögð og nú hafa tvöhundruð og fimmtíu samtök af ýmsu tagi og úr öllum heimshornum sameinast um áskorun til íslenskra stjórnvalda um að leggja hugmyndafræðilega afstöðu til hliðar og styðja það sameiginlega markmið sem skiptir máli – að uppræta alnæmi með virkum stuðningi við jaðarhópa.

Pye Jakobsson
Sænsku samtökin Rose Alliance, undir stjórn Pye Jakobsson, sömdu opna bréfið og söfnuðu undirskriftunum á þremur dögum. Íslenskir skaðaminnkunarsinnar og talsmenn borgaralegra réttinda hafa lagt málinu lið á Íslandi. Hefur verið óskað eftir fundi með utanríkisráðherra og er beðið svara.
Undir bréfið hafa skrifað yfir 250 alþjóðleg samtök. Þeirra á meðal eru öll helstu samtök kynlífsstarfólks, skaðaminnkunarsamtök af ýmsu tagi og mörg öflugustu samtök heimsins í baráttunni gegn HIV og alnæmi. Óhætt er að fullyrða að afstaða Íslands hefur sjaldan eða aldrei vakið jafn víðtæka athygli um allan heim.
Íslensk samtök sem skrifað hafa undir opna bréfið eru:
Frú Laufey, skaðaminnkunarsamtök Íslands
HIV-Ísland
Afstaða – félag fanga á Íslandi
Snarrótin – samtök um borgaraleg réttindi
Hér má sjá bréfið í heild sinni.
Opið-bréf-til-íslenskra-stjórnvalda-íslensk-þýðing-með-undirskriftum.