Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Elsta fangelsi landsins lýkur hlutverki sínu

$
0
0

Hegningarhúsið við Skólavörðustíg lauk hlutverki sínu sem fangelsi í dag og nutu þessir þrír fangaverðir veðurblíðunnar með kaffibolla í hönd snemma í morgun. Að sögn fangavarðar gistu tveir fangar fangageymslur hegningarhússins síðustu nótt og sváfu víst vel og voru leystir úr haldi á hádegi.

Á vefnum fangelsi.is má finna eftirfarandi fróðleik um sögu hússins sem brátt mun gegna nýju hlutverki:

 

„Hegningarhúsið var tekið í notkun árið 1874 og er elsta fangelsið á landinu. Í húsakynnum fangelsisins er erfitt að koma fyrir ýmsu því sem í dag þykir tilheyra nútíma fangelsisrekstri. Þar er engin vinnuaðstaða fyrir fanga, enginn matsalur, fábreytileg íþróttaaðstaða og nánast engin tómstunda- eða sameiginleg aðstaða. Allstór útivistargarður er norðanmegin við fangelsið og er hann mikið notaður. Segja má að afþreying fanga í fangelsum beinist mest að tölvunotkun og sjónvarpsáhorfi inni á klefum. Erfitt er að gera breytingar á húsinu, enda er stór hluti þess friðaður af Húsafriðunarnefnd ríkisins.

Í Hegningarhúsinu er enn til staðar gamla Bæjarþingstofan í Reykjavík og fyrr á árum, kringum 1920, hafði Hæstiréttur aðsetur í fangelsinu þar sem nú eru skrifstofur á efri hæðinni. Áður fyrr var pláss fyrir mun fleiri fanga í húsinu enda voru sumir klefanna fyrir allt að fjóra fanga í senn. Núna eru fangarýmin samtals 16, þar af eru 5 tveggja manna klefar og tveir einangrunarklefar sem m.a. eru notaðir ef gæsluvarðhaldsfangar eru úrskurðaðir í einangrun í stuttan tíma. Hegningarhúsið er í dag aðallega notað sem móttökufangelsi fyrir fanga sem eru að hefja afplánun fangelsisrefsingar. Flestir fangar dvelja skamman tíma í Hegningarhúsinu, fara í læknisskoðun og í viðtal við starfsmann Fangelsismálastofnunar og eru síðan sendir í það fangelsi sem þeir eiga að afplána refsingu sína í samkvæmt ákvörðun Fangelsismálastofnunar. Fangar með mjög stutta dóma afplána í Hegningarhúsinu.“

 

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283