Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Fæðuofnæmi barna og frumskógar mataræðisins

$
0
0

Það væri að æra óstöðugan að ætla að haga mataræði sínu í takt við allar þær síbreytilegu, ruglingslegu og stundum drepleiðinlegu leiðbeiningar um hvað sé hollast og best fyrir okkur þá stundina. Sérstaklega gildir þetta þegar koma fram rannsóknir sem einblína á einstakar fæðutegundir án þess að skoða almennt neyslumunstur og lífsstíl fólks í samhengi.

Um daginn hitti ég einn kunningja minn sem fylgist afar náið með öllum nýjustu ráðleggingum í mataræði og tekur þeim mjög hátíðlega. Hann sagði mér frá því að fyrir nokkrum árum hefði komið fram rannsókn sem sýndi fram á heilsubætandi áhrif kaffidrykkju á athygli og afkastagetu. Hann fór því að lepja kaffi í lítravís og gekk alltaf um með köflóttan brúsa sem hann fyllti á jafnfóðum.

Ef hann varð uppiskroppa með filter eða baunir átti hann alltaf neskaffi í neyðarkitti sem hann leysti upp í hitaveituvatni ef hann ekki komst í soðið vatn.

Þessi mikla koffínneysla olli honum óstöðvandi skjálfta þannig að ef hann hélt sér ekki í veggfasta hluti titraði hann einsog upptrekkt leikfangavélmenni á milli herbergja. Á næturnar lá hann andvaka með uppglennt augu og hlustaði á eigin alltof hraða hjartslátt.

Yfirleitt náði hann tveggja tíma lúr undir morgun áður en tími var kominn til að hristast aftur fram í eldhús og hella uppá. Það sem bjargaði geðheilsu hans var að skömmu síðar birtist ný grein sem hrakti niðurstöður þeirrar fyrri og sýndi fram á að kaffidrykkjumenn nái bara sömu afköstum og kaffileysingjar svo lengi sem þeir fá sitt kaffi í reglulegum skömmtum. Ef þeir þurfa að vinna kaffilausir og fá ekki skammtinn sinn verða afköstin lakari en hjá þeim sem ekki drekka kaffi. En ekki var kaffiafvötnunin langt komin þegar nýjar vísindalegar niðurstöður læknisfræðinnar tóku af honun völdin á ný.

Hann hafði fengið vinnu í sumarafleysingu á bókasafni og rak þar augun í rannsókn sem sýndi fram á verndandi áhrif rauðvínsdrykkju á hjarta- og æðakerfi. Samdægurs fór hann að brugga sitt eigið rauðvín í þvottahúsinu hjá mömmu sinni og tók heimilisiðnaðinn með sér á hverjum degi í vinnuna. Í lok sumars var hann bara farinn að fíla það vel að dotta rallhálfur með rauðvínslegnar varir innan um barna- og unglingabækurnar. En þó hjartað og æðarnar væru alsátt með rauðvínssullið var lifrinni alls ekki skemmt.

Þar að auki birtust nýjar rannsóknir sem héldu því fram að það væri ekki rauðvínið sjálft sem væri svo gott fyrir æðarnar heldur var það safinn úr vínberjunum sem hefði þessi áhrif. Þess vegna nægði alveg að drekka óáfengan vínberjasafa í sama tilgangi.

Daginn eftir enduðu brugggræjurnar á Sorpu og kunningi minn á Vogi. Eftir að hafa hlustað á þessar tvær sögur fór ég eitthvað að ráðleggja honum að líklega væri nú allt best í hófi og fjölbreytni í matarvenjum væri æskileg og manstu-ekki-eftir-fæðuhringnum- og-blablabla. Hann snaraði þá fram stóru Tupperware boxi fullu af sítrónufrómas sem hann skóflaði uppí sig. Þegar hann hóf að vitna í nýjustu rannsóknir á áhrifum sítrónufrómass á meltingarkerfið lét ég mig hverfa.

Í tugi ára var því haldið fram að fituneysla væri hættuleg því hún var talin valda hækkun á kólesteróli í bóði sem aftur var talið auka hættu á kransæðasjúkdómum. Þegar litið er til baka virðast upphaflegu rannsóknirnar, þar sem reynt var að sýna fram á þetta orsakasamband, hafa verið frekar bágbornar. Hins vegar höfðu þær gríðarleg áhrift á neysluvenjur fólks og markaðssetningu á fituskertum matvörum.

Fitulaus matvara bragðast einsog obbláta og því þarf að bæta kolvetnum einsog kornsýrópi í fituskertan mat svo hann verði bæði braðgbetri og söluvænlegri.

Á síðustu árum hafa komið fram rannsóknir þar sem kólesterólkenningin er dregin í efa og jafnvel talað um svik og samsæri þar sem vísindamenn með það eina markmið að „sanna“ kólesterólkenninguna eru styrktir til rannsókna, á meðan hinir, sem nálgast viðfangsefnið með opnum huga, búi við fjársvelti.

Kólesteról leikur líklega hlutverk í þróun kransæðasjúkdóma en hið einfalda orsakasamband milli neyslu á fitu, hækkaðs kólesteróls í blóði og kransæðasjúkdóma hefur verið slegið út af borðinu. Í bili að minnsta kosti.

Nú hrópa sömu læknar og áður litu á fitu nánast sem eitthvað sem var bruggað í helvíti af kölska sjálfum, að sykur sé mesta eitur sem nokkur maður getur látið inn fyrir sínar varir. Og maður spyr einsog fávís kona í ölæði: fyrst þið höfðuð svona rangt fyrir ykkur í öll þessi ár, hvernig getið þið þá verið svona sannfærðir um að núna hafið þið einmitt dottið niður á hinn eina rétta sannleika? Ég held að vísindasagan kenni að það ber að stíga varlega til jarðar og forðast að gera nýlegar vísindaniðurstöður að trúarbrögðum.

Sannleikur dagsins í dag er getur verið orðinn húmbúkk morgundagsins.

Og hvernig tengist þessi umræða svo heilsu barna? Fyrir stuttu voru gefnar út nýjar ráðleggingar varðandi fæðu ungabarna í þeim tilgangi að fyrirbyggja fæðuofnæmi, asthma og exem. Fæðuofnæmi meðal barna hefur farið vaxandi í heiminum síðustu 10-15 ár án þess að góð skýring sé á þeirri þróun. Áður fyrr var foreldrum ráðlagt að hafa börnin eingöngu á brjósti fyrstu sex mánuði ævinnar og forðast að gefa þeim ofnæmisvekjandi fæðutegundir einsog fisk, hnetur og egg þar til eftir tveggja ára aldur.

Á síðustu árum hafa hins vegar komið fram rannsóknar sem sýna fram á minni hættu á að börn, með sterka fjölskyldusögu um fæðuofnæmi, asthma eða exem, þrói með sér þessa sjúkdóma ef þau byrja að neyta þessara fæðutegunda snemma á ævinni eða milli 4-11 mánaða. Skýringin á því hvers vegna niðurstöður eldri og nýrri rannsókna stangast á er talin sú að það skiptir máli með hvaða leiðum ónæmiskerfið er kynnt fyrir hinum ofnæmisvekjandi fæðutegundum.

Það hefur nefnilega sýnt sig að ef hnetur eru á heimilinu og aðrir fjölskyldumeðlimir neyta þeirra finnast hnetuprótein í ryki t.d. í barnarúmi og á gólfi þar sem barnið leikur sér.

Þannig hafa börn sem ekki borðuðu hnetur sjálf samt sem áður verið útsett fyrir hnetupróteinum í gegnum húðina. Ónæmiskerfið virðist bregðast á ólíkan hátt við ofnæmisvöldum sem það kemst í kynni við í gegnum húðina heldur en í gegnum meltingarveginn.

Þannig virðist ofnæmisvaldur sem kemur inní líkamann í gegnum húðina frekar valda ofnæmissvari, en sé sami ofnæmisvaldur kynntur ónæmiskerfinu í gegnum meltingarveginn skapist frekar þol og ofnæmi fyrir fæðutegundinni verði ólíklegra.

Þannig er þetta nú boðað í dag sem besta ráðið til að minnka líkur á fæðuofnæmi í börnum, en hvort þessi sannleikur verði enn við lýði eftir 20 ár skal ósagt látið.

Líklegast er manni hollast að efast um allt sem sagt er því efinn er eitt sterkasta verkfæri þróunar sem til er.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283