Mörður Árnason skrifaði eftirfarandi pistil sem einnig er birtur á Eyjunni og nú hér með leyfi höfundar:
Taktík Davíðs Oddssonar forsetaframbjóðenda er tiltölulega einföld. Hún er í þremur áföngum ‒ og minnir, að breyttu breytanda, á rándýr á veiðum.
Einangra
Fyrsti þáttur: Einangra skæðasta andstæðinginn, koma hinum í burtu. Davíð hefur ekki möguleika í stöðunni ef hann er bara einn af mörgum frambjóðendum ‒ kostur fyrir harða hægrimenn á sama hátt og Sturla fyrir ákveðinn vonbrigðahóp úr hruninu, Halla fyrir mið- og hástéttarkonur til hægri við miðju, Elísabet fyrir hippa og lífskúnstnera, Andri Snær … Davíð vill útiloka aðra frambjóðendur sem ómerkinga og gera kosningabaráttuna að einvígi milli sín og þess andstæðings sem helst þarf að vinna á: Guðna Th. Jóhannessonar.
Þessi staða er að skapast, með dyggri aðstoð fjölmiðla á borð við Stöð tvö ‒ gulu og hálfgulu pressuna, Fréttastofu Ríkisútvarpsins sem hefur ákveðið að segja almenningi sem allra minnstar fréttir af því sem er að gerast í kosningabaráttunni ‒ og auðvitað Morgunblaðsins sem forsetaframbjóðandinn sjálfur skrifar í nafnlausa leiðara og staksteina á hverjum degi!
Þreyta
Annar þáttur: Davíð veit að hann vinnur aldrei ef leikurinn snýst um framtíð Íslendinga, um eðli forsetadæmisins, um utanríkisstefnu og ímynd, um heiðarleika, traust og trúnað. Frank Underwood á ekki séns nema honum takist að draga andstæðinginn niður í sama drullusvað og hann þrífst best í sjálfur. Í leðjuslagnum á hann raunhæfa möguleika ‒ og þessvegna þarf að draga Guðna þangað (nú eða Andra Snæ ef þannig stæði á, eða Höllu, Sturlu …). Svo koma hin kunnu fangráð sem lesa má um í leiðtogabók Ásdísar Höllu: Skítkastið og smjörklípurnar og þær flugur sem laxinn kynni að taka:
Ég gerði öll mál tortryggileg … jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim.
Drepa
Þriðji þáttur: Nú hefur tekist að draga andstæðinginn niður í drullupollinn ‒ hann er farinn að svara Mr. Underwood fullum hálsi og rifja upp allan hans óþverra, en búinn að gleyma eigin erindi við kjósendur. Davíð er á heimavelli, og tilbúinn í lokaþáttinn: Við erum báðir blóðugir og drullugir uppfyrir haus ‒ ég er hinsvegar miklu reyndari drullusokkur en Guðni (Andri/Halla/Sturla …). Þið vitið hvað þið fáið þegar um mig er að ræða, kjósið Davíð í staðinn fyrir þjóðníðinginn/vitleysinginn /óreiðumanninn …
Ef þetta er ekki alveg búið í lok kosningabaráttunnar kemur svo fýlubomba allra fýlubombna, í Mogganum til dæmis, of seint til að hægt sé að svara, einhver eitraður hálfsannleikur til að sjá um nokkátið.
Gjafar gefnar
Leikritið hefur verið fullskrifað og komið í góðan gang. Þá skín bara við okkur tilvistarspurning Bergþóru forðum:
Gjafar eru yður gefnar feðgum og verðið þér litlir drengir af ef þér launið engu.