Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hugleiðingar um einelti – Framhald

$
0
0

Það má segja að pistill sem við feðgar settum á blað fyrir nokkru síðan hafi snert marga. Vissulega er það gott hversu margir lásu, en ástæðan er þó ekki ánægjuleg. Ástæða vinsældanna má fyrst og fremst rekja til þess hversu margir tengdu við skrifin, voru að lenda í sömu aðstæðum eða höfðu.

Við tókum á móti tugum skilaboða á Facebook sem lýstu bæði stuðning við okkur og strákinn, en aðallega fengum við skilaboð frá fólki með átakanlegar reynslusögur í takt við okkar eigin, eða verri. Mun verri.

Vikan eftir birtingu.

Áður en pistillinn var birtur, höfðum við talað við strákinn og gert honum grein fyrir að skrifin gætu haft afleiðingar. Eins og ég sagði ykkur frá þar, þá var hann meðvitaður um það en vildi gjarnan deila, ef það myndi mögulega hjálpa öðrum í svipuðum sporum.

Við báðum hann, sem er gagnstætt eðli hans, að láta okkur vita ef einhver stríddi honum vegna skrifana. Því nú, aldrei sem áður, væri það mikilvægt.

Daginn eftir gerðist það, þrír strákar úr bekknum veittust að honum, skömmuðu og fullyrtu að hann, „væri sko ekki að verða fyrir einelti“.

Ég er ekki viss, en fátt tel ég hefði geta verið verra. Þeir þrír sem aðallega hafa verið kvalarar, fullyrtu að það væri kjaftæði og kvöldu hann með þeirri fullyrðingu.

Þess ber þó að geta að annar bekkjarfélagi hans, sem varð vitni af þessu, kom til hans eftir á og fannst þetta afskaplega leiðinlegt. Í fallegri, en þó barnalegri viðleitni, borgaði hann mínum strák pening. Þroskinn kannski ekki til staðar, en þessi gjörningur sýndi það að pistilinn hafði haft áhrif. Þetta var fallegt, svo fallegt að ég táraðist.

Í kjölfarið, eftir að heim var komið, lágu verkefnin fyrir. Hringja og tilkynna foreldrum að þeirra börn væru „vond“ við mitt.

Nú veit ég ekki hvort þið, lesendur, hafið gert slíkt áður. Það er engin lygi þegar ég segi að það er erfitt, líklega eitt það erfiðasta sem ég hef gert. Tilfinningarnar sem bærast um innra með manni eru svakalegar. Ekkert er verra en að vita til þess að manns eigin barni líður illa. Ekkert er verra en að heyra að eigið barn láti öðru líða illa. Reiðin getur auðveldlega brotist fram hjá öðru foreldri, afneitun hjá hinu.

Eftir andlegan undirbúning og efa, hringdi ég. Það var svarað og kynnti ég sjálfan mig og spurði hvort viðkomandi hefði lesið greinina. Ég sagði þeim frá ótta okkar um afleiðingar skrifanna og tilkynnti foreldrunum að þeirra barn hefði staðfest hann.

Í nokkur augnablik stöðvaðist einfaldlega tíminn, Maður óttast viðbrögðin. Enda, eins og áður sagði, eru engar tilfinningar sterkari en þær er varða eigin börn. Oft, þar er ég sekur líka, fer skynsemi og rökhugsun út um gluggann þegar þessi málefni um hagsmuni eigin barna og annarra eru rædd.

Með áður skrifaðan pistil að leiðarljósi tóku foreldrarnir allir sem ég ræddi við fréttunum eftir aðstæðum vel.

Í einu tilvikinu boðuðu foreldrar mig, strákinn minn og konu heim til sín í spjall. Strákurinn var ekki glaður að heyra um tilætlanir okkar, hann var heldur hræddur, grét og sagðist ekki ætla að fara. Eftir nokkra stund, þar sem kærleikur, hughreysting og mikilvægi þess að sigrast á ótta sínum var rætt, fórum við. Ég var ekki minna hræddur, aðallega vegna þess að ég var ekki viss um hvað stjórnaði mínum gjörðum. Voru það tilfinningar, rökhugsun eða bæði?

Þegar við komum í heimsókn, tók á móti okkur venjulegt fólk, foreldrar eins og ég og þú. Við ræddum saman málin öll sex og strákurinn þeirra, með tárin í augum, baðst afsökunar. Ekki vegna viðurlaga af hálfu foreldra, heldur af eftirsjá.

Strákurinn minn, með tárin í augunum, tók afsökunarbeiðninni.

Það var sérstaklega ein saga sem móðir stráksins sagði og við öll hlýddum á, sem náði í gegn. Það er nefnilega þannig að í bekknum þeirra er strákur sem á erfitt. Hann er með líkamlega fötlun sem gerir það að verkum að hann á erfitt með gang. Þessi strákur nýtur verndar. Hann þolir ekkert mótlæti úr sínum bekk eða annarra. Stríði honum einhver leggst allur bekkurinn á eitt og verndar hann. Hann fer með í fótboltaferðir og aðrar félagslegar samvistir og er hampað í einu og öllu.

Þetta er frábært. Til fyrirmyndar í alla staði og yndislegt.
Gefur auk þess öllum von um að þetta er hægt!

Það er þó eitt sem móðirin benti á sem er satt. Strákurinn minn er líka með fötlun, munurinn er hinsvegar sá að fötlun hans er ekki líkamleg eða augljós, hún er falin. Ef vel ætti að vera ætti hann líka að hljóta sömu vernd og hinn.

Á þessu augnabliki rann upp fyrir mér skilningur og þessari stund mun ég aldrei gleyma. hún komst svo nærri kjarna málsins og hjarta að við táruðumst saman og grétum.

Ég vil þakka þeim innilega og kærlega fyrir að þora. Það er langt frá því að vera sjálfgefið. Ekki nóg með það að þessir foreldrar tóku rétt á málunum, heldur renndi þessi stund styrkum stoðum undir þá kenningu mína;

að flest fólk er gott fólk.

Næstu dagar fóru í það að tala við hina foreldrana. Nánast án undantekninga fóru samtölin á svipaðan veg, skilningur og samkennd voru viðbrögðin. Þetta var þó erfitt, ekki bara fyrir okkur heldur alla. Virkilega erfitt. Fyrsta daginn eftir helgina fór síðan strákurinn minn í skólann. Við foreldrarnir vorum með hjartað í buxunum en höfðum jafnfram vonir um að hlutirnir yrðu betri.

Honum var ekki boðið að taka þátt í fótboltanum, frekar en fyrri daginn. Heimilið fylltist ekki heldur af bekkjarfélögum eftir skólann.En litli, fallegi, góði og glaði strákurinn minn kom skælbrosandi heim eftir skólann.
Hann knúsaði mig og mömmu sína og sagði:

„Enginn var vondur við mig í dag“.

Hákon Helgi Leifsson

Ps.

Í mörgum athugasemdum við upphaflega pistilinn fékk ég að heyra að ég væri góður pabbi. Vissulega þykir mér vænt um að heyra það. Hinsvegar var það aðallega hugrekki og þor stráksins sem gerði birtingu hans mögulegan. Ég er líka viss um það, að við sem höfum sjálf gengið í gegnum svona æsku, gerum hvað sem er til að örlög barna okkar verði ekki þau sömu. 

Ég hef í dag öðlast styrk til þess að skrifa opinskátt um þessi málefni. Ég er ekki litli hræddi strákurinn sem ég var fyrir 30 árum síðan. Enda snýst þetta ekki um mig lengur. Því eins og allir foreldrar vita, snýst lífið um okkar eigin börn og hamingju þeirra. Þar er ég ekkert öðruvísi en aðrir.

Ég hef hinsvegar reynslu og upplifanir sem ég get miðlað áfram. Kannski, ef mér tekst vel til, geta þær hjálpað sumum og opnað augu annarra, fyrir raunveruleika margra. Í besta falli eru skrifin hvatning til fólks að skrifa um eigin upplifanir og halda umræðunni þannig gangandi.

Því baráttan við einelti er og verður endalaus. Engin mál eru eins og sökin liggur víða, en opinská umræða og samtakamáttur allra gerir gagn. Skrifið, ræðið og talið saman. Því mikilvægasta vopnið í baráttunni er umræðan. Ég vil hinsvegar þakka öllum fyrir að lesa og deila. Sérstaklega foreldrum samnemanda.

Við erum einstaklega heppin með hversu góða foreldra er að finna í bekk stráksins. Það er langt frá því að vera raunin allstaðar. Frá hjartarótum, innilegar og kærar þakkir til ykkar allra. Ef það væri í mínum mætti að skilja einn boðskap eftir, sem allir mættu muna,

þá er hann þessi:

Flest fólk er gott fólk.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283