Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Selshamurinn – Óperudagar í Kópavogi

$
0
0

Það verður að segjast eins og er, að þessi gagnrýni heyrir til undantekninga í tvennum skilningi. Annars vegar er sýningum á Selshamnum lokið og engir áhorfendur geta rýnt í rýnina til að sjá hvort kvöldstund sé eyðandi á hann; hann var sýndur tvisvar sinnum á Óperudögum í Kópavogi og allsendis óvíst um framhaldið – en hér er þó sett fram sú fróma ósk að sýningar verði einhvern tíma fleiri. Hins vegar er höfundur og leikstjóri Selshamsins svo óþyrmilega skyldur þeim er gagnrýnina ritar að jaðrar við nepótisma. Það er vitaskuld bagalegt, en hvorki höfundur/leikstjóri eða gagnrýnandi geta í raun að því gert. Það hefðu aftur á móti verið hrein embættisafglöp að skrifa ekki um sýninguna og á okkar tímum kallað að taka ekki ábyrgð. Það vill gagnrýnandi ekki láta um sig spyrjast og því verður lesandi að virkja sín fránu augu og sjá hvort frændgleði eða rökhugsun ráði för í því sem hér fer á eftir.

Það er stefnt að kósíkvöldi – Aron (Aron Axel Cortes) er að undirbúa fullkomið matarboð fyrir Elísabetu unnustu sína (Rannveig Káradóttir) og undirbýr það af unaðsverðri nostursemi og tilfinningu fyrir smáatriðum. Þau búa að því er segir í leikskrá, í “íbúð í blokk með glæsilegu útsýni yfir Kópavoginn” og það er óneitanlega skemmtilegur Kópavogsfílingur sem blasir við manni á leiksviðinu: þrívíddar kassarammi á miðju leiksviðinu er sjálf íbúðin, búinn til úr óhefluðum fjölum og liggja að og frá bláir kaðlar sem hleypa ímyndunaraflinu óneitanlega af stað. Þessir bláu kaðlar eru hindranir persónum verksins, sem þurfa ýmist að klofa yfir eða smeygja sér undir þá þegar þær eiga erindi inn og út úr íbúðinni, en það er í hvítvetna gert með hliðsjón af þeirri sögu sem sögð er og fellur að hverjum karakter í samræmi við hans lögn og gerð. Það er úthugsað og ákaflega fyndið. Hreyfingarnar minna á mannslíkama sem er að bregða sér úr einu gerfi í annað, fara hamskiptum, og það er nákvæmlega það sem verið er að gera frá upphafi til enda sýningarinnar; meira að segja leikmyndin tekur hamskiptum og er ekki öll þar sem hún er séð. Þetta er stutt alls kyns smáum og stórum atriðum í leikmynd, leikmunum og búningum – allt í einu öðlast sólgleraugu aðra merkingu en maður taldi þau hafa í upphafi, hringbakki á borði fer að gefa óvæntar vísanir … það er ljóst að hér má maður eiga alls von.
selshamur98

Og allt í einu stendur hann þarna í stigaganginum í Kópavogsblokkinni, ókunni aðkomumaðurinn (Magnús Hallur Jónsson). Hann er fáklæddur, enda þarf hann að hengja selshaminn til þerris á ofninum í ganginum. Á meðan les hann Fréttablaðið eins og ekkert hafi í skorist – nema hvað? Þetta hleypir illu blóði í Aron, hann er formaður húsfélagsins og vill enga kæruleysislega umgengni um hin sameiginlegu rými. En unnustu hans, Elísabetu, finnst hinn framandi maður spennandi og býður honum inn á heimilið. Og þá hefst dramað. Það byggir að sumu leyti á velþekktum þjóðsögum um hamskipti, en hér skapar höfundur þó sína eigin sögu að öllu leyti, með rætur í fornum sögum þjóðar, en stofn og greinar gnæfa yfir nútímann – Kópavogurinn er ekki bara bæjarfélagið með sama nafni á suðvesturhorninu, hann er við öll og allt í kringum okkur. Þessi saga er um okkur!

Það fer auðvitað ekki eins og við er búist í upphafi. Það er ótrúlegt hvað þrír karakterar geta bondað í margar óvæntar áttir. Hér hafa þeir sér til hjálpar og leiðarvísis margvíslegar aríur, þekktar úr óperubókmenntum vestrænnar menningar og hvenær sem þörf er á að brjóta sig út úr samræðum sem á yfirborðinu virðast blátt áfram er sungið; aríurnar koma úr margvíslegum áttum – Brúðkaupi Fígarós, La bohéme, La Traviata, Tannhauser, Hollendingnum fljúgandi, La Sonnambula, Cosi fan tutte, auk sönglaga eftir Schubert og Guðmund Guðmundsson – og eiga það sameiginlegt hér að þær magna karakterinn og hvetja hann til dáða, þær styrkja söguþráðinn og renna undir hann stoðum og valið á tónsmíðum í heild sinni á stóran þátt í að skapa rísandi söguþráðar og sýningar, auk þess að magna tilfinningar persónanna, ást, andúð, afbrýði – það eru sterkar tilfinningar sem hin hversdagslega orðræða reynir að fela og óperusöngurinn afhjúpar.

Aríum og sönglögum er mixað hugvitsamlega við samræður karakteranna og skiptin á milli jafnan tilgerðarlaus, það er eins og allt heyri saman í einni samfellu og það er bráðvel gert af hálfu leikenda og leikstjóra.

Þetta er kannski nýmælið við Selshaminn eins og sýningin er hugsuð af hálfu höfundar og leikstjóra: hér fer saman einföld samræða persónanna, ósköp hversdagslegur tónn í henni, hvorki sérlega skáldleg eða háfleyg. Og svo, áður en nokkur veit af, brestur einhver karakteranna út í hástemmdan óperusöng og það furðulega gerist, að þótt hlaupið sé úr einu listformi í annað og víxlað án afláts milli hins hástemmda óperusöngs og hinnar hversdagslegu orðræðu verður þetta eðlilegt og sjálfsagt og fullkomlega rökrétt.

Þar að auki verða þessi hamskipti milli hins háa og lága ákaflega fyndin og það er vel haldið utan um húmorinn bæði í leik og leikstjórn; engu tækifæri sleppt að koma áhorfendum í gott skap og það er elskulegt einkenni sýningarinnar og ber höfundi og leikurum gott vitni.

Þetta bendir einnig til þess að lögnin á sýningunni sé ákaflega praktísk og í samræmi við það sem áhorfendur megna að taka til sín en það er sérstök kúnst að geta reiknað það út.

selshamur9996

Það var ákaflega gaman að heyra hversu vel hinir ungu söngvarar komust frá sínu. Það þarf ekki að kvarta yfir söngtækni þeirra, þar var öryggi og hljómfögur dýpt í fyrirrúmi. En ég hlýt að fara nokkrum orðum um hlut hins talaða máls – það bar því miður nokkuð á því að hinir sönglærðu leikarar hefðu ekki jafn gott vald á meðferð þess og söngnum. Hið talaða mál nýttist þeim einfaldlega ekki á sama hátt og söngurinn til að byggja upp karakterinn, festa hann í sessi og láta orðanna hljóm og hljóðan bera hugsun karaktersins og söguna áfram. Hér verður ekki skuld skellt á söngvarana sjálfa eða leikstjórann – þetta er ekki atriði sem verður kippt í lið á æfingatíma einnar sýningar, heldur varðar það skólun söngvara í okkar menningu, það varðar menntunarstefnu listamanna í okkar skólaskipulagi. Þó skal það tekið fram, leikstjóra til hróss, að víða í lögn hans mátti sjá þess merki að hann tók mið af þessum skorti og tókst láta minna bera á honum en annars hefði verið. En það er engu að síður nauðsynlegt að benda á þörf þess að einnig söngvarar fái skólun og þjálfun í meðferð talaðs máls; sú skólun og þjálfun verður þeim eingöngu til góðs í listsköpun þeirra og starfi.

Mér var tjáð að Rannveig Káradóttir hefði hlaupið í skarðið fjórum dögum fyrir frumsýningu; það gerir vitaskuld erfitt um vik að vega og meta frammistöðu hennar sem og setja hana í samhengi við frammistöðu mótleikara hennar. Það verður því ekki gert hér. Hins vegar er ástæða til að taka fram, að frammistaða Rannveigar gekk kraftaverki næst, því hlutverkið er bæði stórt og flókið. Þá er það einnig hrósvert hversu vel báðir mótleikarar hennar, þeir Magnús Hallur og Aron Axel, studdu hana án þess að nokkurs staðar bitnaði á þeirri sögu, sem verið var að segja.

Selshamurinn er hin ánægjulegasta skemmtun, vel og fallega gerð af miklu listfengi og virðingu fyrir áhorfendum, bæði hvað varðar réttmæta kröfu á listrænum gæðum og vandaðri afþreyingu. Það væri ánægjulegt ef aðstandendur sýningarinnar finndu tíma til að setja hana aftur á svið!

Óperudagar í Kópavogi: Selshamurinn
Handrit og leikstjórn: Árni Kristjánsson
Tónlistarstjóri og píanisti: Matthildur Anna Gísladóttir
Leikmynd og búningar: Ingibjörg Jara Sigurðardóttir
Ljósahönnun: Þorgrímur Darri Jónsson
Tónlist: Mozart, Schubert, Puccini, Verdi, Wagner, Bellini o.fl.
Sópran: Rannveig Káradóttir
Tenór: Magnús Hallur Jónsson
Baritón: Aron Axel Cortes


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283